í fannst í 4 gagnasöfnum

í 1 -ið í-s; í í-ið hefur fallið niður

í 2 í morgun; í Hafnarfirði; slá úr og í

Í -ið Í-s; Í Í-ið á að vera lítið í

í forsetning

um hreyfingu eða stefnu inn í e-ð (með þolfalli) og dvöl inni í e-u (með þágufalli)


Sjá 6 merkingar í orðabók

Bæði gengur að segja fjöldi gesta á mánuði og fjöldi gesta í mánuði.

Lesa grein í málfarsbanka


Forsetningarnar í og á eiga betur við á undan heimilisfangi en forsetningin . Við erum flutt á Laugalæk 98. Ég bý í Dúfnahólum 8.

Lesa grein í málfarsbanka


Sagt er að efni sé í íláti ef átt er við að það sé ofan í því. Sé efnið vökvi er líka hægt að nota forsetninguna á í sömu merkingu. Hún hafði með sér vatn á brúsa. Er kaffi á könnunni? Það er nóg bensín á bílnum.

Lesa grein í málfarsbanka


Upp­haf­lega var gegn fall­orð sem ­notað var með for­setn­ingu (í gegn) og þá til að vísa til stefnu líkt og fsl. á bak, á/í mót, á/í milli, á/í meðal og í kring (< hring) um. Upprunaleg mynd er því í gegn, ýmist í beinni merkingu eða yfirfærðri, t.d.:

sá er eigi er með mér, í gegn er sá mér (Matt 12, 30 (Íslhóm 39v15 (1200))); Stöndum vér hraustlega í gegn [‘á móti’] freistni fjanda (Leif 167 (1150)); lagði ilminn eigi síður í gegn [‘á móti’] vindi en forvindis [‘undan vindi’] (ÓT II, 190);
leituðu ljúgvitna í gegn honum (Íslhóm 78v17);
standa í gegn e-u [‘á móti’] (Leif 29, 100);
berjast í gegn e-u/e-m (Leif 59, 62);
mæla í gegn e-u (Leif 64).

Forsetningin í gat þegar í fornu máli fallið brott (s13) og þá stendur nafnorðið gegn eitt eftir sem forsetning, t.d.: †vera hon­um í gegngegn hon­um, sbr. einn­ig lo. gegn (‘beinn’): fara hinn gegnsta veg.

Gegn er ým­ist ­notað eitt sér, með forsetningunni í eða aukið forsetningunni um, sbr. (í) gegn­um < í gegn um, t.d.:

Hann lagði Sigurð sverði í gegnum sofanda (SE 161);
Hallfreður lagði saxinu í gegnum hann (ÓT II, 25);
en sjá þykkjumst ek Eirík í gegnum (ÍF XIII, 307).

Í fornu máli merkti orðasambandið ganga í gegn e-u ‘ganga á móti e-u > viðurkenna e-ð’ en í síðari alda máli verður hin neikvæða merking ofan á: ‘vera andsnúinn (e-u), þræta fyrir e-ð.’

Jón G. Friðjónsson, 11.6.2016

Lesa grein í málfarsbanka


Forsetningarnar á og í geta m.a. vísað til staðar og fer það eftir því orði sem þær standa með hvor valin er, þ.e. á vísar til hins ytra (þess sem röklega séð er utan á) en í til hins innra (þess sem er af röklegum ástæðum inni/innan í), t.d.: skríða inn í helli; sitja inni í helli; skríða út úr helli og fara á staðinn; vera á staðnum; fara af staðnum. Af dæmunum má sjá pörin í + þf. (hvert); í + þgf. (hvar); úr + þgf. (hvaðan) og á + þf. (hvert); á + þgf. (hvar); af + þgf. (hvaðan) en þau eru notuð (ásamt ao. í breytilegri mynd) með kerfisbundnum hætti í íslensku.

Í nútímamáli er stundum á reiki hvor forsetningin er valin; sumir tala um að vinna á leikskóla (stofnun) en aðrir kjósa fremur að segja vinna í leikskóla (bygging). Enn fremur er auðvelt að finna dæmi þar sem merkingarmunur blasir við, t.d. fara fram á bað (herbergi) og fara í bað (kerlaug); skreppa í bæinn (þéttbýliskjarni); vera á bænum (stofnun) eða sitja á þingi (stofnun) og skreppa niður í þing (byggingin). – Fleiri vafadæmi eru auðfundin og þau eru svo mörg að leita verður skýringa. Til gamans skal litið á nokkur dæmi þar sem á og í vísa til staðar, ýmist í beinni merkingu eða óbeinni:

A1. á e-ð (bein merking (miðað er við þá starfsemi sem fer fram á umræddum stað)):

fara (upp) á bókasafn; fara niður á lögreglustöð; fara niður á pósthús; leggja e-n inn á sjúkrahús; senda e-n á (dýran) skóla; (vera af gamla skólanum); skreppa á skrifstofuna; skreppa fram á kaffistofu; leggjast inn á spítala/skurðstofa; fara með bíl á verkstæði; vista e-n á stofnun; fara á stöð(ina) (79 af stöðinni); skreppa á vinnustofu sína.

A2. á e-ð (óbein merking):

fara á fund/ráðstefnu; fara á mót; fara á skemmtun/sýningu, fara á tónleika/ball; fara á völlinn; senda e-n á námskeið; skreppa á æfingu.

B1. í e-ð (bein merking):

fara út í búð; fara út í fjós/hlöðu; fara í leikhús; fara upp/vestur í skóla, fara fram/inn í stofu, skreppa upp í Háskóla; fara upp í ris/niður í kjallara/geymslu; fara (út) í smiðju.

B2. í e-ð (óbein merking):

fara í afmæli; fara í boð/móttöku; fara í fýlu; fara í frí; fara í samkvæmi (partí); fara í smiðju e-s.

A1 eða B1:

fara á bíó/í bíó; eiga sæti á þingi/vera niðri í þing; vinna á leikskóla/í leikskóla; bíða frammi/inni í stofu/frammi á kaffistofu; bíða í stofunni/á vinnustofu sinni;
                                                                      
Af dæmunum virðist mega ráða að A-dæmin vísi flest til þeirrar starfsemi sem fer fram á stað fremur en staðarins sjálfs (pósthús, safn) eða stofnunar (lögreglustöð) en B-dæmin fremur til byggingarinnar sjálfrar. Enn fremur er athyglivert að einungis kemur upp vafi á milli dæma í beinni merkingu, þ.e. A1 og B1.

Ég minnist þess úr æsku (laust eftir 1950) að foreldrar mínir töluðu ávallt um að kaupa bílæti og fara á bíó en í skóla var mér kennt að rétt væri að fara í bíó og bílæti væri hrá dönskusletta. Ég fellst fúslega á hið síðara en miðað við það sem að framan greindi er fullkomlega rökrétt að fara á bíó og miða þá við opinberan stað (A1), ekki verður séð að betra sé að miða við bygginguna (kvikmyndahúsið) og tala um að fara í bíó (B1).  Elsta dæmi sem ég hef séð á prenti um þetta efni er fara á bíó (m20 (ThFrLok II, 86)) og ég gladdist í hjarta mínu þegar ég sá að Böðvar Guðmundsson rithöfundur fer á bíó (Töfrahöllin, bls. 231).

Í nútímamáli er afbrigðið fara í bíó nánast einhaft og er engin ástæða til að amast við því en hér sem endranær getur verið gaman að skoða málsöguna og reyna að átta sig á því hvað valdið geti óvissu um notkun.

Jón G. Friðjónsson, 10.12.2016
 

Lesa grein í málfarsbanka


Í elstu þýðingum íslenskum (frá 12. og 13. öld) má sjá að þýðendur leggja megináherslu á móðurmálið, það mál sem þýtt er á, og kappkosta að þýðingin sé í fullu samræmi við eðlilega málbeitingu. Á ensku er slík þýðing kölluð idiomatic en Ólafur Pálmason bjó til nýyrðið málrétt (eða málholl) þýðing um það. Með siðskiptunum breyttist afstaða manna til þýðinga að því leyti að rétt þótti að þýða guðs orð sem nákvæmast og þá var frumtextanum fylgt allnákvæmlega, stundum á kostnað þess máls sem þýtt var á. Afleiðingin varð sú að þýðingar siðskiptamanna urðu fremur orðréttar en málréttar. Þetta á t.d. við um Guðbrandsbiblíu (Gamla testamentið).

Í Lúthersbiblíu er að finna fjölmargar spássíugreinar og eru þær jafnan þýddar í Guðbrandsbiblíu. Eina af mörgum slíkum spássíugreinum er að finna í Síraksbók (stafsetningu breytt sem minnst):

Freund in der not                                                      
gehen xxv auff ein lot.
Sols aber ein harter stand sein
So gehet jr 50 auff ein quintlein (Sír 6, 8 (Luth))

Samsvarandi spássíugrein Guðbrandsbiblíu er þýdd svo:

Vinir í mótgangs stund
ganga lx [svo] í eitt pund,
en ef líf þitt liggur á
í lóðið legg þú hundrað þá (Sír 6, 8 (GÞ)).

Gissur Einarsson þýddi sannanlega Síraksbók (BiblArn XV). Þýðing hans er ekki nákvæmlega hin sama og í Guðbrandsbiblíu en það er ekki til umræðu hér. Ofangreind spássíugrein er einnig í þýðingu Gissurar:

vinir // Í neyðinni eru þeir v og xx í einu lóði
en skuli það hörð hjástaða vera svo eru fimmtigi í einu kuintine // (GE).

Þýðingin í Guðbrandsbiblíu virðist miklu betri en þýðing Gissurar. Ætli Ólafur Pálmason myndi ekki kalla þýðinguna í GÞ málrétta en þýðingu Gissurar orðrétta.  Þýðingin í GÞ er ekki alveg nákvæm en hana prýða stuðlar, höfuðstafur og endarím. Einhvern veginn finnst mér hún bera vott um hina fornu málstefnu sem Íslendingar höfðu á þessum tíma fyrir löngu komið sér saman um.

***

Í íslensku er jafnan komist svo að orði að þýtt sé úr (af) einu máli á annað. Þetta er í fullu samræmi við það að við gerum greinarmun á orðasamböndunum á íslensku og í íslensku. Hið fyrra vísar til málbeitingar (tala/skrifa á íslensku) en hið síðara til málkerfisins (í íslensku eru þrjú kyn/fjögur föll).

Í nútímamáli nægir sumum ekki að þýða á íslensku, nei yfir á íslensku skal það vera. Ég hef að vísu rekist á slík dæmi frá miðri 20. öld en eftir 2000 virðist mér þessi málnotkun tröllríða öllu og venst hún mér miður vel. Enn verra þykir mér þó að lesa um þýðingar á hugtökum samfélagsmiðla úr ensku yfir í spænsku og portúgölsku. Allra verst finnst mér þó að þetta var margendurtekið á vef H.Í.  Ég er nefnilega svo forstokkaður (eða forpokaður) að mér finnst H.Í. eigi að vera fyrirmynd hvar sem hann lætur til sín taka.

Jón G. Friðjonsson, 22.4.2017

Lesa grein í málfarsbanka

1 í fs. (á við dvöl á stað eða hreyfingu til staðar); sbr. fær. í, nno., sæ. og d. i; < *in, sbr. fe., fsax, fhþ. og gotn. in, lat. in, gr. ení, en, lith. ĩ̢, prússn. en, arm. i, fír. in- (ini-); < ie. *en, *eni. Sjá iður (1), inn (1), ístra, niður (4) og undorn.


2 í í orðasamböndum eins og í dag, í gær, í fjorð; sbr. d. i dag, i går, i fjor, oft talið fs. og s.o. og í (1) og hefur a.m.k. tengst í (1), en er líkl. í öndverðu komið frá fn.-stofninum *e-, *ei, sbr. tvfn. er, es, gotn. is og ei, sa-ei, lat. is og ut-ī, sbr. fe. īdæges ‘á þessum degi, í dag’; í e.t.v. gamalt stirðnað fall (tf. eða stf.) af fn.-stofninum. Sjá er (1) og es.


3 í- forsk. eða forliður í samsetn., s.o. og í (1), stundum eiginlegt forskeyti, stundum forskeyttur atviksliður. Nafnleidd orð með í-forsk. eru t.d. íend(u)r ‘lifandi’, ílend(u)r ‘innlendur’ og ífylja ‘fylfull’, en sagnleidd t.d. íbúi, sbr. fe. inbūan og ísl. ífang ‘fyrirtæki’, sbr. fhþ. infāhan, einnig ísjá, sbr. gotn. insaihwan. Í nokkrum orðum eins og ígjarn og íminjar hefur í- herðandi merkingu, sbr. fe. infrod, ingod, í öðrum veikjandi, sbr. íboginn, ígrár, írauður o.fl. Sjá í (1).