út fannst í 6 gagnasöfnum

út út og suður; út af; út frá; út í; út undan; út úr

út atviksorð/atviksliður

um stefnu að stað sem er utar en viðmiðunarstaður

ég var veikur og komst ekki út í marga daga


Sjá 2 merkingar í orðabók

Víðast hvar á Íslandi er atviksorðið út notað um stefnu út til strandar. Á Suðurlandi víða getur út merkt: vestur. T.a.m. er Hrunamannahreppur oft nefndur Ytrihreppur en Gnúpverjahreppur Eystrihreppur. Í Skagafirði, Eyjafirði og Þingeyjarsýslu getur út merkt norður (andstætt er fram). Út á Sauðárkrók (t.d. úr Varmahlíð) o.s.frv.

Lesa grein í málfarsbanka


Rita skal út af en ekki „útaf“. Sjá § 2.6.1 í Ritreglum.

Lesa grein í málfarsbanka


Eitt er standa upp í stafni (ÍF II, 101) en annað að standa uppi í stafni. Í fyrra tilvikinu stendur ao. upp (‘uppréttur’) með so. standa en í síðara dæminu myndar uppi eina heild með fs. í. Upphaflega voru staðar- eða stefnuatviksorð reyndar oft eftirsett og sér hinnar fornu orðaraðar stað í fjölmörgum föstum orðasamböndum, t.d.:

e-ð liggur í augum uppi;
e-ð springur í loft upp;
leika af fingrum fram;
deyja fyrir aldur fram;
lifa um efni fram.

Oftast er skýrt hvort ao. stendur með so. eða er hluti forsetningar og er það merking sem sker úr (auk þess sem það kemur í sumum tilvikum fram með umorðunum), t.d.:

fitja upp á e-u (sokk/samtali) andstætt: fitja upp á nefið;
standa/rísa upp á afturfótunum andstætt: standa uppi á stól og
brjóta upp á e-u (samtali) andstætt: brjóta upp á blaðsíðu.

Í sumum tilvikum er á reiki hvort notað er upp á e-u eða uppi á e-u, t.d.:

hafa upp á e-u > (hafa uppi á e-u);
hver höndin er upp á móti annarri  > (hver höndin er uppi á móti annarri).

Orðatiltækið standa upp í /(standa uppi í) hárinu á e-m er skemmtilegt að því leyti að við blasir að það felur í sér merkingarmun eftir því hvort upp stendur með sögninni (standa upp) eða uppi er hluti forsetningar (standa uppi í). Elstu dæmi um það eru með styttri myndinni:

hann stóð upp í hárinu á rektor [‘stóð uppréttur/bísperrtur frammi fyrir’] (m19 (BGrönd Rit IV, 295));
Ég sé að þið bæði standið upp í hárinu á mér (m19 (Þús I, 188)).

Lengri myndin er yngri, einnig frá 19. öld:

En nú þykist hver sá bestur, sem getur mest staðið uppi í hárinu á yfirboðurum sínum (JsJsRit I, 154),

sbr. einnig:

Í þessum efnum sæti það raunar illa á mér að standa uppi í hárinu á Sigurði A. Magnússyni (s20 (HHMold 243)).

Telja má að lengri myndin hafi öðlast nokkra fótfestu í málinu en hún gefur naumast skynsamlega merkingu (uppi í hárinu). Hana má e.t.v. rekja til ofvöndunar, mönnum finnst að sögninni standa eigi að fylgja ao. sem vísi til kyrrstöðu – þrátt fyrir egg Kólumbusar sem stóð upp á endann.

Þegar í fornu máli má sjá breytingar á kerfinu, einkum í þá veru að ao. mynda eina heild með fs., t.d.:

grafa lík við garð út (Grgk I, 7);
grafa lík út við garð (GrgSt 6);
*grafa lík úti við garð.

Hér vísar út til stefnu (bendivísun). Lengri myndun (úti við) hefur verið notuð sem ao. frá fornu máli og fram í nútímamál (sitja úti við) en forsetningin úti við e-ð er nýmæli frá síðari hluta 19. aldar:

Þá liggur landið úti við sjóndeildarhringinn sem blá mön (f20 (JTRit I, 197));
Þarna úti við sjóinn var eg í sex ár (s19 (JsJsRit II, 87)) og
Heldur eignaðist eg lítið þarna úti við sjóinn (s19 (JsJsRit II, 87)).

Það styðst því ekki við málvenju né íslenska málhefð að grafa lík barns úti við garð enda eru engar heimildir fyrir slíkri málbeitingu né heldur getur talist venjulegt að tala um rigningu úti við ströndina.

Ýmis forsetningasambönd með við eru að því leyti erfið viðureignar að fs. fylgir ýmist styttri (stefna) eða lengri (kyrrstaða) mynd atviksorðs. Til að gefa nokkra mynd af þessu skulu sýnd örfá dæmi um upp við e-ð annars vegar og uppi við e-ð hins vegar. Styttri myndin er forn og er hún mun algengari en lengri myndin:

og láta hann sitja upp við vegginn (ÍF XII, 251);
hafði hann staðið upp við gaflaðið (ÍF XII, 343);
það [seglið] er heflað upp við rána (ÍF XII, 219);
Hann sat upp við hamarinn og var sár mjög (ÍF VII, 184);
Maður stóð upp við siglu (FN II, 233);
færið síðan seglið upp við tréð (Mork 259) = færið lítt seglið upp við tréð (Flat IV, 165).

Lengri myndin uppi við e-ð er einnig forn, t.d.:

Síðan lét Skalla-Grímur gera bæ uppi við fjallið (ÍF II, 46);
En það spurðist þó síðan að Steinar Sjónason hafði þann sama dag setið uppi við Einkunnir við tólfta mann (ÍF II, 290);
Og í því hjó Grettir til Hjarranda og kom á höndina uppi við öxl svo að af tók (ÍF VII, 81);
aðra nótt var hann uppi við Elfi (Fris 445; Eirsp 527);                            
konungur hekk næst uppi við limar (Fris 13 (1300-1325)) og
höfðu þing allir saman uppi við Fosskirkju og réðu það ráðum sínum (Sv 182 (1300)).

Ef grannt er skoðað má greina merkingarmun á dæmum með upp við [stefna ➚] og uppi við [dvöl, kyrrstaða ●].

Sá sem hefur gaman af dæmum sem þessum hlýtur að sakna þess sárlega að Íslendingar skuli ekki eiga sögulega orðabók þar sem þeim væru gerð verðug skil.

Jón G. Friðjónsson, 2016

Lesa grein í málfarsbanka


Orðasambandið út af e-u er afar margslungið að merkingu og notkun. Grunnmerkingin virðist vísa til stefnu, ýmist í beinni merkingu:

aka út af [veg­inum]; detta út af; hníga út af; lognast út af; sofna út af; velta út af; Fyrr er fullt en út af flói; skammt út af Reykjanesi er mikil brimröst; hljóp hún út af bjarginu á sund.

eða í óbeinni:

e-ð stendur út af (borðinu) ‘e-u er ólokið’; bregða út af ­vana sínum/venju ­sinni; ekki mátti mikið út af bera ‘ekki mátti miklu muna’; fara út af sporinu; setja e-n út af sakramentinu; slá/setja e-n út af laginu; ­elska e-n út af lífinu.

Annar merkingarflokkur sem er mjög fyrirferðarmikill vísar til orsakar eða ástæðu, t.d.:

Berjast/deila/rífast út af e-u; fjargviðrast út af e-u; gera sér (ekki) rellu út af e-u; vera reiður/gramur út af e-u; vera sár út í e-n út af e-u­; vera móðg­aður út af ­e-u; lenda í vandræðum út af e-u; verða óður og uppvægur út af e-u; rekistefna við pilta út af smámunum einum; En eg ætla ekki neitt að jagast út af því; það ... kom til út af því að; lektor hafði í fautaskap gefið Jóni utan undir út af einhverju; Út af öllu undanförnu stend eg þar við, að ... (m17 (Deil 40)).

Þetta fs.-samband er ekki til í fornu máli en samsvarar að merkingu nokkurn veginn fs. sakir, sökum. Elstu dæmi sem ég hef rekist á um nýmælið af > út af eru frá 16. öld, t.d. í fornum rímum (Landrésrímum frá miðri 16. öld):

*Þungan harm ok þrautar farm / þar hefi ek út af feingit, / mjög hefr strítt en misjafnt blítt / um mína ævi gengið (Rs II, 441).

Önnur dæmi eru úr Reykjahólabók gráta út af (e-u) (m16 (Reyk I, 53, 206)) og vera hljóður út af e-u (m16 (Reyk I, 51)) og í Guðbrandsbiblíu eru fjölmörg dæmi af þessum toga, t.d.:

eftir því sem Pétur postuli hann hrósar af (FormProph Iv:30 (GÞ));
honum hinum sama kemur það til lítils að hrósa þar mikið út af (FormJes Iv:48 (GÞ)).

Á 16. öld hljóp mikill vöxtur í notkun atviksorða með forsetningu, t.d. treysta á e-ð > treysta upp á e-ð og er breytingin af > út af angi af þeirri þróun. Í mörgum tilvikum gengu slíkar breytingar til baka en oft hafa þær fest sig í sessi og orðið hluti af eðlilegri málnotkun.

***

Eftirminnileg orð (Árna Magnússonar):

Og þættist eg þar fyrir órétt líða [‘vera hafður fyrir rangri sök’], ef nokkur vildi ætla mér að eg væri sá vindhani, sem ekki þyrfti meir en anda að til að styggjast við menn (ÁMPriv 587 (1705)).

Jón G. Friðjónsson, 29.7.2017

Lesa grein í málfarsbanka

út lo
[Ónæmisfræði]
samheiti jaðar
[skilgreining] það sem er við yfirborð eða ystu mörk (ekki miðsvæðis eða innst)
[dæmi] úttaugakerfi, útþol
[enska] peripheral

út ao. ‘(um hreyfingu) innan frá’; sbr. fær. út, nno. og nsæ. ut, d. ud (fd. ut), fsax. og fe. ūt, gotn. ut, ne. out, fhþ. ūz, nhþ. aus. Germ. *ūt < ie. *ū̆d, sbr. fi. (skrt.) ud, ut ‘upp, út’, fír. ud, od (s.m.); sbr. og gr. (h)ýsteros ‘seinni’ og fi. úttara- (s.m.) (< *ud-teros). Af sama toga er úti ao. ‘(um dvöl) utan við’, sbr. fær. úti, nno. og sæ. ute, d. ude, gotn. uta, fsax. ūta, fhþ. ūze; < *ū̆tai. Sbr. og utan, †útan ao. ‘utan frá, utan við; nema’, sbr. fær. ut(t)an, nno. og sæ. uten, d. uden, fe. ūtan(e), fsax. ūtan, gotn. utana og fhþ. ūzana; af *ūt + viðsk. *-ana einkum um hreyfingu frá stað. Sjá út- í sams., utar, ytri, ota og ýta.