Aðsetur fannst í 5 gagnasöfnum

aðsetur -seturs; -setur

aðsetur nafnorð hvorugkyn

heimili, verustaður, bækistöð

mótmælin fóru fram fyrir utan aðsetur forsætisráðherra

hafa/vera með aðsetur <þar>


Fara í orðabók

Vorið 2017 las ég yfir meistaraprófsritgerð í lögfræði fyrir frænku mína. Hún hefur alltaf verið mjög öflugur námsmaður og því þótti mér vart einleikið að ýmsar tilvitnanir hjá henni voru að mínu mati gallaðar. Ég varð mér því úti um lögin sem hún vitnaði oft í (Lög um útlendinga, nr. 80 16. júní 2016) og las allvandlega fyrstu fjórar síðurnar. Þá kom í ljós að ekki var við frænku mína að sakast, hún hafði vitnað rétt til en ýmislegt þótti mér miður fara í lagatextanum og frágangi hans. Það varð mér einkum íhugunarefni að það sem mér fannst aðfinnsluvert var af öðrum toga en ég hef átt að venjast á liðlega hálfrar aldar starfsævi minni sem íslenskukennari. Beinar villur eru fáar en það stingur í augu að notkun orða og orðasambanda er alloft naumast í samræmi við hefðbundna málbeitingu, vekur á stundum þá tilfinningu að um umorðun eða þýðingu erlends efnis sé að ræða. Lesendum til fróðleiks skulu tilgreind örfá dæmi, innan hornklofa eru athugasemdir eða skýringar mínar og undirstrikanir eru mínar:

(1) Í 8.tl. 3.gr. er þessi skilgreining:

Flóttamaður: Útlendingur sem er utan heimalands síns [‘fjarri heimalandi sínu’] eða ríkisfangslaus einstaklingur sem er utan þess lands þar sem hann hafði reglulegt aðsetur [‘fjarri því landi þar sem hann dvaldist reglulega’] vegna þess að hann hefur ástæðuríkan ótta um [‘hefur (fulla) ástæðu til að óttast’] að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta [‘af þeim sökum’] færa sér í nyt vernd þess lands [sem hann kom frá].”

Þessi töluliður er að mínu mati ofhlaðinn, nánast samanbarinn. Ég þurfti að marglesa hann til að fá botn í merkinguna. – Sumt af því sem ég hef merkt við kunna sumir að telja álitamál, t.d. muninn á dveljast e-s staðar reglulega og hafa reglulegt aðsetur e-s staðar og muninn á því að vera hræddur um e-ð og hafa ótta um e-ð og enn fremur kann sumum að þykja nýyrðið ástæðuríkur fagurt en það tel ég misheppnað. Ég tel mig geta fært rök að því að það sem ég hef merkt við samræmist ekki hefðbundinni málnotkun. Orðin aðild að tilteknum þjóðfélagshópi geta engan veginn talist í samræmi við eðlilega eða venjulega málbeitingu og sama á við um orðasambandið hafa ótta um e-ð í merkingunni ‘óttast e-ð’. Reyndar tel ég óþarft að fjölyrða um einstök atriði, lesendur eru vitaskuld fullfærir um að meta þetta. Niðurstaða mín er sú að tilvitnaður bútur getur hvorki talist vel orðaður né auðskilinn.

(2) Í 18.tl. 3. gr. er enn skilgreining:

Ofsóknir: Athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum [á] ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu áhrif eða sambærileg áhrif á einstakling.”

Hér er að ýmsu að hyggja, fæst af því fellur undir málfræði eða málbeitingu, varðar fremur rökhyggju og skýra hugsun. – Getur endurtekning athafna orðið til þess að þær feli í sér alvarleg brot á mannréttindum? Telst bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga til mannréttinda? Hvað merkir refsing án laga, kannski refsing án dóms? – Er þetta kannski orðrétt þýðing á lat. Nulla poena sine lege? Ef svo er hefur það enga stoð í íslensku, öllum óskiljanlegt.

(3) Í 4. gr. segir:

„Ráðherra fer með yfirstjórn laga þessara.

Hvað merkir þetta eiginlega? Alþingi setur lög sem forseti staðfestir. Lögregla sér um að farið sé að eða eftir lögum og dómarar skera úr ágreiningi sem upp kann að koma. Aldrei hef ég heyrt talað um yfirstjórn laga enda finnst mér orðasambandið nánast merkingarlaus klisja. Lögum er ekki stjórnað, þau eru sett og þeim er fylgt eða eftir þeim farið. Svipuðu máli gegnir reyndar einnig um orðasambandið annast framkvæmd laga (4. gr.).

Eins og ég gat um í upphafi hef ég einungis lesið fjórar síður af 68, nenni satt best að segja ekki að lesa meira af svo góðu. Þegar á unglingsárum var mér kennt að lög og allt sem þeim fylgir (dómar, úrskurðir, greinargerðir) væru fyrir allan almenning en alls ekki málefni einungis ætluð sérfróðum. Þess vegna finnst mér sjálfsagt að vandað sé til lagatexta í hvívetna en á því virðist mér hafa orðið misbrestur hvað varðar Lög um útlendinga. Það hlýtur að teljast mikilvægt að lagatextar séu skýrir og þannig orðaðir að merking sé ótvíræð.

***

Nýlega vék ég að auglýsingu (eða slagorði) frá ónefndu tryggingafélagi: Hugsum í framtíð. Ónefndur vinur minn sendi mér þá allnokkrar auglýsingar sem hljóta að teljast vel gerðar, þar er leikið með margræðni orða. Vitaskuld er ólíkt skemmtilegra að staldra við það sem vel er gert en fjargviðrast yfir því sem miður fer. Í næstu pistlum mun ég því tilgreina nokkur slík dæmi, t.d.:

Hver getur lifað án Lofts? – [Loftur Guðmundsson ljósmyndari];
Heilsteypt fyrirtæki. – Steypustöðin;
Láttu ekki þitt eftir liggja. – Gatnahreinsun Reykjavíkur;
Okkar framleiðsla fellur í góðan jarðveg. – Kartöflubændur.

Jón G. Friðjónsson, 2.3.2018

Lesa grein í málfarsbanka

aðsetur hk
[Hagfræði]
samheiti heimili
[enska] residence

heimili hk
[Hagfræði]
samheiti aðsetur
[enska] residence

heimili
[Landafræði] (2.3)
samheiti aðsetur, bústaður
[enska] residence