Eimuni fannst í 2 gagnasöfnum

Nafnorðið eimuni (kk.et.) merkir ‘það sem líður ekki úr minni, það sem æ verður munað’ og er það myndað af ao. ei ‘alltaf, æ’ og so. muna ‘minnast’, sbr.:

mæltu svo sín í milli, að það er þeim eimuni [vl. einmuna (1325)] sú yfirför, er Ólafur hafði þar farið fyrra sinni (ÓH 283 (1250–1300); (Hkr II, 190).

Í síðari alda máli er liðurinn alkunnur í samsetningunni eimunatíð (s19) ‘einstaklega gott árferði’.  Þegar í fornu máli (ÓH 283 (1325)) er kunn orðmyndin einmuna, lo. ób. en þar hefur forliðurinn ein-, sem er oft notaður í herðandi merkingu, leyst forliðinn ei- af hólmi. Orðmyndin einmunatíð, sem algengust er í nútímamáli, er því ugglaust miklu eldri en elstu dæmi (s19 (OHR)) gætu bent til. Dæmi úr nútímamáli:

Einmunatíð undanfarið í Grímsey og reytingsafli (Mbl 19.11.11);
ganga fram hjá þeim einmuna þrekmanni (s19 (BGröndRit IV, 203)).

Jón G. Friðjónsson, 10.10.2015

Lesa grein í málfarsbanka

eimuni, eimuna l.ób. ‘ógleymanlegur, sem æ verður munaður’; Eimuni k. nafn á hörðum vetri. Af ei ‘alltaf’ og muna (1).