að fannst í 5 gagnasöfnum

að gefnu tilefni; að minnsta kosti; það er gaman að þessu; báturinn er kominn að; ég er að fara; ég hélt að hann færi strax

samtenging

samtenging, notuð til að innleiða aukasetningu (skýringarsetningu); tekur viðtengingarhátt af sögn sem fer á eftir

ég vona að hann hringi

hann segir að það sé ekki kalt úti

hún vissi að hún yrði of sein


Fara í orðabók

forsetning/atviksorð

um stefnu eða hreyfingu til e-s staðar/í áttina til e-s

lögreglumaðurinn gekk að bílnum

lóðin nær að girðingunni


Sjá 6 merkingar í orðabók

nafnháttarmerki

nafnháttarmerki, notað með nafnhætti sagna

sögnin 'að lesa'

hvað ertu að gera?

komdu að borða

hann byrjaði að gráta


Fara í orðabók

Orðasambönd með forsetningunni

Afl: Að afli. Hann er rammur að afli.
Auðugur: Eitthvað er auðugt að einhverju. Áin er auðug að fiski.
Ánægja: Það er ánægja að einhverju. Það er mikil ánægja að því að klífa fjöll.
Áskrifandi: Áskrifandi að einhverju. Þau eru áskrifendur að Morgunblaðinu.
Ástæðulaus: Að ástæðulausu. Hann fór að hlæja að ástæðulausu.
Barn: Kona er ólétt, ófrísk eða vanfær að barni. Hún er ólétt að sínu fjórða barni.
Bót: Það er bót að einhverju. Það er mikil bót að lagfæringunum.
Bragð: Að fyrra bragði. Hann ávarpaði hana að fyrra bragði. Brögð að einhverju. Víða eru brögð að því að umferðarlög séu ekki virt.
Brosa: Brosa að einhverju. Þau brostu að vitleysunni í henni.
Dást: Dást að einhverju. Ég dáist að viljastyrk þeirra.
Eftirsjá: Það er eftirsjá að einhverjum. Það er alltaf eftirsjá að góðum starfsmanni.
Eiður: Sverja eða vinna eið að einhverju. Þú verður að sverja eið að því að þú sért saklaus.
Frumkvæði: Að eigin frumkvæði. Hann hætti í skóla að eigin frumkvæði.
Gagn: Það er gagn að einhverju. Það er mikið gagn að þessari bók.
Gaman: Henda gaman að einhverju. Nemendurnir henda gaman að kennaranum. Það er gaman að einhverju. Það er oft gaman að vitleysunni í henni.
Gera: Gera mikið eða lítið að einhverju. Þau gerðu lítið að því að læra heima.
Heiður: Það er eða þykir heiður að einhverju. Mér er heiður að þessu. Mér þykir heiður að þessu.
Hlæja: Hlæja að einhverjum. Þau hlógu mikið að honum.
Kaupandi: Kaupandi að einhverju. Hann er kaupandi að tímariti.
Kunnur: Vera kunnur að einhverju. Hann er að góðu kunnur.
Leyti: Að einhverju leyti. Veislan var ómöguleg að öllu leyti.
Lýti: Það er lýti að einhverju. Það er mikið lýti að bílhræinu.
Prýði: Það er prýði að einhverju. Það er sannkölluð bæjarprýði að lystigarðinum.
Ráð: Að yfirlögðu ráði. Hún kveikti í bílnum að yfirlögðu ráði.
Ríkur: Vera ríkur að einhverju. Hann var ríkur að fé.
Skömm: Skömm að einhverju. Það er mikil skömm að því hvernig þau láta.
Sómi: Sómi að einhverju. Honum var mikill sómi að gjöfinni.
Sæmd: Sæmd að einhverju. Mér er sæmd að aðstoð þinni.
Snauður: Vera snauður að einhverju. Jarðvegurinn er snauður að næringarefnum.
Teikning: (Arkitekta)teikning að einhverju (sbr. uppskrift að einhverju). Hann lauk við teikninguna að listasafninu undir morgun.
Tilefni: Að gefnu tilefni. Að gefnu tilefni var höfð brunaæfing.
Uppskrift: Uppskrift að einhverju. Hún lét mig fá uppskrift að mjög góðri rjómatertu.
Uppvís: Verða uppvís að einhverju. Hann varð uppvís að þjófnaði.
Verða: Verði þér að því. Takk fyrir mig. Verði þér að því.
Verðleikar: Meta eitthvað að verðleikum. Kennarinn mat nemendur sína að verðleikum.
Verk: Gera að verkum. Þetta gerir það að verkum að ekki er hægt að horfa á sjónvarpið í kvöld.
Vitni: Vitni að einhverju. Þau urðu vitni að glæp.
Þekkja: Þekkja einhvern að einhverju. Við þekkjum þau að góðu einu.

Lesa grein í málfarsbanka


Orðasambandið vera (ekki) að + miðstig er algengt frá elsta máli og fram til nútímans, t.d.:

Enginn er að bættari ef bankinn verður gjaldþrota;
hans er ekki að hefndara þótt hinn ákærði fái dóm;
hann er ekki að verri þótt hann hjálpi til í fjósinu;
þeir væru menn að meiri ef þeir bæðust afsökunar.

Í orðasambandinu er undanskilinn liðurinn að því gerðu (með vísun til tíma). Dæmi úr fornu máli:

Því að eigi er míns föður eða bræðra að hefndra ... að eg sjá [‘sé] við jörðu lagiður (Sverris saga 17 (Flat III, 158));
En þú ert maður að verri er þú hefir þetta mælt (Njála 109.k.);
eg kalla þig ekki að verra dreng (Laxd 14.k.);
Er mér ekki sonur minn að bættri þó að Bolli sé drepinn (Laxd 49.k.);
Eigi er hana að borgnara þótt hæna beri skjöld [‘eigi er stertimennið betur sett þótt lítilmennið hyggist hjálpa því’] (ÍF XI, 346);
þá er sæmd að víðfrægri en umbun að meiri (Hauksbók 306 (1310)).

Í nútímamáli er oft sleppt, þ.e. ekki að bættari > ekki bættari. Elstu dæmi um þá breytingu eru frá miðri 19. öld (NF V, 125 (OHR)).

Jón G. Friðjónsson, 31.1.2015

Lesa grein í málfarsbanka


Notkun forsetninga er talsvert á reiki í nútímamáli og kemur óvissan m.a. fram í því að fs. sækir á, sbr. eftirfarandi dæmi:

finna einn helsta drifkraftinn að [fyrir; til] samvinnu ríkja;
styðja alþjóðlega samvinnu að lausnum [til að leysa .../til lausna á ...] sameiginlegra vandamála;
stórauka alþjóðlega samvinnu að lausnum [um lausnir ...] fjölda vandamála; leggja fram tillögu að breytingu [til breytinga];
koma fram með hugmynd að [um] uppástungu;
áhorfendur að [á] leik;
upphafið að [á ...] þættinum/ósköpunum;
undirbúningur að [fyrir] atkvæðagreiðslu o.s.frv.

Telja má vafalaust að merking ráði mestu um notkun forsetninga, þ.e. fs. mynda ákveðin tengsl við eða vensl með fylgiorðum sínum. Þetta má sjá af samtímalegum dæmum en einnig með því að bera saman dæmi frá ólíkum tíma. Jafnframt er ljóst að notkun forsetninga hefur breyst talsvert í aldanna rás og hún getur verið nokkuð flókin í þeim skilningi að oft og tíðum fléttast inn í nútímanotkun það sem má kalla fornar reglur eða steinrunnin ferli (hrekjast fyrir veðri og vindum).

Fs. getur vísað til hreyfingar í beinni merkingu (ganga að húsinu) og óbeinni (ganga að tilboði). Óbein merking getur einnig verið ‘í áttina að’ sem vísar þá til þess sem er ófullgert, í undirbúningi og því má gera ráð fyrir ákveðnu ferli eða merkingarflokki sem á við lýsingu fs.:

A. ‘ófullgert; undirbúningur’: drög að e-u; uppkast að e-u o.fl.

Forsetningin af vísar í fjölmörgum tilvikum til hluta af e-u sem er fullbúið og hér verður gert ráð fyrir að slíkt ferli sé einn merkingarflokka hennar, þ.e.:

B. ‘fullbúið; afrit’: afrit af e-u; kort af e-u; ljósrit af e-u; mynd af e-u; próförk af e-u; teikning af e-u; uppdráttur af e-u o.fl.

Til einföldunar mætti kalla A ‘undirbúningsmerkingu’ og B ‘afritsmerkingu’ og virðist undirbúningsmerkingin föst í sessi en þess gætir nokkuð að afritsmerking sæki í undirbúningsmerkingu, þ.e. B > A eða af > að. Í sumum tilvikum virðist hvor tveggja merkingin koma til greina. Menn geta t.d. virt fyrir sér/skoðað líkan af e-u (B) eða unnið að líkani að e-u (A), sbr. enn fremur að unnt er að vinna að handriti að kvikmynd og til eru mörg handrit af Brennu-Njáls sögu. Með tilliti til þessa má gera ráð fyrir eftirfarandi lið við lýsingu fs. að/af:
C = ‘A’ eða ‘B’: handrit af/að e-u; líkan af/að e-u o.fl.         

Í nútímamáli er breytingin af > að í þessu samhengi allalgeng, þ.e. flokki C vex ásmegin einkum að því er tekur til nokkurra orða, t.d.:

teikning að byggingu; uppdráttur að Íslandi; gera uppdrátt að e-u; lesa próförk að bók; Við og við eru að fljúga fyrir fregnir um frumrit að einhverju Nýja testamentis riti.

Athyglisvert er að breytingin tekur einkum til nokkurra orða (próförk, teikning, uppdráttur). Ástæðan kann að vera sú að einungis sum orð leyfa tvenns konar
túlkun eða merkingu eins og handrit og líkan.

Lesa grein í málfarsbanka


Eitt af fjölmörgu sem eykur fjölbreytni og fegurð íslenskrar tungu er að líta má á sama hlut eða verknað frá ólíkum sjónarhornum. Sem dæmi má nefna að heimildir sýna að í elsta máli lögðu menn af stað, síðar breyttist það og menn tóku að leggja á stað (algengast í þjóðsögum) og núna munu flestir kjósa að leggja af stað. Merkingarmunur er lítill sem enginn, ekki skiptir máli hvort vísað er til þess staðar sem farið er frá (leggja af stað) eða þess staðar sem halda skal á (leggja á stað). Svipuðu máli gegnir um fjölmörg orðasambönd, í einn stað kemur hvort sem steinn veltur niður í fjöru eða ofan í fjöru.

Forsetningingetur vísað til kyrrstöðu á stað og merkir þá nánast ‘hjá’, t.d.:

Ari nam og marga fræði að Þuríði Snorra dóttur goða og hann hafði numið af gömlum mönnum og vitrum.

Hér er ugglaust algengast að nota fs. af eða hjá. En lengi gætir gamalla siða því að hin forna mynd fala e-ð að e-m lifir samhliða yngri myndinni fram á 19. öld:

falaði að þeim gripina (m19 (SkGSkv 51));
fala e-ð að e-m (Snp I, 56 (1835));
*Einn þá vill að öðrum fala, / ærið fagurt kann að tala, / teygir síðan tungu’ úr hvopt (ms17 (HPNLjóð 6)).

Yngri myndin er nánast einhöfð í þjóðsögum:

kóngi þykir taflið firna fagurt og falar það af honum (ÞjóðsJÁ II, 482);
þess erindis að fala smjör af honum (ÞjóðsJÁ V, 361);
Heimabóndi fer nú og falar kvörnina af bróður sínum (ÞjóðsJÁ II, 12).

Breytingin að > af í slíkum samböndum er forn (um 1300) og sjá má af eftirfarandi dæmum úr Sverris sögu:

Nemi þér að mér því að eg er mjúklátur og lítillátur í hjarta mínu og munu þér finna hvíld öndum yðrum (s14 (Matt 11, 19 (Flat III, 164)));
Nemi þér af mér því að eg em mjúklátur og lítillátur í hjarta mínu og munu þér finna hvíld sálum yðrum (Matt 11, 19 (Sv 22 (1300))).

Jón G. Friðjónsson, 31.10.2015

Lesa grein í málfarsbanka


Í íslensku eru kunn fjögur orðasambönd með stofnorðinu nýr, svipuð að búningi og merkingu en ólík að vísun:

(1) †gera e-ð af nýju,
(2) gera e-ð að nýju,
(3) gera e-ð á ný,
(4) gera e-ð upp á nýtt.

Fyrstu þrjú orðasamböndin eru forn, afbrigðið með af má telja úrelt, en hið fjórða er kunnugt frá 16. öld (GÞBr 99 (1575)). Forsetningarnar (kyrrstaða (‘hvar’)), af (‘hvaðan-hreyfing’) og á með þf. (‘hvert-hreyfing’) mynda með kerfisbundnum hætti mismunandi ferli sem í tengslum við lo. nýr merkja ‘aftur’. Málvenja á mismunandi tímum ræður því hvaða myndir eru notaðar. Í elsta máli er afbrigðið †af nýju algengast með vísun til tíma (‘aftur’), t.d.:

tekst af nýju mikið mannfall (s13 (AlexFJ 42)).

Þetta afbrigði var algengt fram á 19. öld, t.d.:

Nú tók stjórnin að hreyfa við þeim málum af nýju (PMNý I 3, 169);
Helstu trúarlærdómarnir voru ræddir út í æsar og samþykktir af nýju (s19 (ÓlÓlÞjóð 205)).

Afbrigðið að nýju er algengt frá 14. öld og þar virðist upprunaleg merking vera ‘samkvæmt’­. Víxl á milli afbrigðanna af nýju (ÓT II, 309) og að nýju (ÓT II, 306) eru algeng í fornu máli og enn fremur á milli og á í hliðstæðum samböndum, t.d.:

kom eigi að nefndum degi (Leif 115) > koma eigi á nefndum degi;
koma að hinum efsta dómi (Pst 260 (1325)) > koma á hinum efsta dómi (Pst 260 (1325)).

Fs.liðurinn­­ af nýju er algengur í tímamerkingu í fornu máli og vísar til ‘hvaðan’ enda er fs. af algeng í ýmsum samböndum er vísa til tíma, t.d. héðan af og þaðan af.

Í nútímamáli eru myndirnar á ný og upp á nýtt langalgengastar, sbr.:

e-ð hefst á nýja leik (Klm 410);
gera e-ð á nýjan leik (Klm 125) = ‘gera e-ð á ný’.

Myndin að nýju er einnig algeng. Af­brigð­­­ið af nýju mun hins vegar sjaldan notað í nútímamáli en það var algengt fram á 19. öld eins og áður gat.

Jón G. Friðjónsson, 6.2.2016

Lesa grein í málfarsbanka


Oft er forsetningunum og af ruglað saman þótt merkingarmunur þeirra sé mikill. Með so. ganga vísar fs. til stefnu (hvert) í beinni merkingu, t.d.:

Hann gekk að bílnum;
ganga upp að fossinum,

og óbeinni:

ganga hart að e-m;
ganga að e-u vísu;
ganga að samningaborðinu.

Í yfirfærðri merkingu er vísunin hin sama, t.d. (‘samþykkja’):

ganga að skilmálunum/tilboðinu;
ganga að kaupunum, sbr. lo. aðgangsharður.

Með so. ganga vísar fs. af einnig til stefnu (hvaðan) í beinni merkingu:

ganga af skipi/af fundi;
ganga með sigur af hólmi,

og óbeinni:

ganga af trú sinni/trúnni;
ganga af vitinu.

Í öllum dæmunum virðist merkingin eða vísunin skýr en hér er ekki allt sem sýnist. Orðasambandið ganga af e-m/e-u dauðum/dauðu er algengt frá fornu máli (Stj 459) og fram í nútímamál í merkingunni ‘ganga frá e-m dauðum’ > ‘leika e-n mjög grátt’, t.d.:

ganga af bókaútgáfu dauðri;
Annar fréttastjóri sagði ... að niðurskurður á fréttastofum gengi af þeim dauðum.

Í nútímamáli bregður hins vegar svo við að sjá má dæmi sem bera það með sér að líkingin eða vísunin liggur ekki öllum í augum uppi:

Hann varar við hertu landamæraeftirliti og telur að það muni ganga að innra markaðnum dauðum (17.1.2016);
Sá sem drepur Schengen mun á endanum ganga að innra markaðnum dauðum (17.1.2016).

Elsta dæmi af þessum toga sem undirritaður hefur rekist á er frá miðri 20. öld:

draugur sá sem gengið hafði að Einari dauðum (m20 (Sagnag I, 115)).

Jón G. Friðjónsson, 12.3.2016

Lesa grein í málfarsbanka


Orðasambandið gera mikið/lítið að e-u er algengt í nútímamáli, t.d.:

en [hún] gerði lítið að því að búa til vers eða vísur (JóhBirk 12);
þá hef ég harla lítið að því gert [að yrkja] (f20 (HÞor 115));
Þú ert ekki sá maður að hafa gert of mikið að því eða öðru (m20 (GHagRit II, 241));
Ég hef lagt stund á að efla konungsvaldið gagnvart þinginu – að líkindum hef ég gert of mikið að því (f20 (ÁP47, 481)).

Forsetningin vísar hér upphaflega til staðar (hvar) en óbein merking er ‘með tilltilti til; hvað e-ð varðar’. Orðasambandið er algengt í fornu máli, t.d.:

Þó að þér gerið hálfu meira að héðan af en hér til (s13 (Barl 53));
björn einn gekk þar og drap niður fé manna og eigi gerði hann annars staðar meira að en á Grænmó (ÍF XIV, 272 (1330-1370));
En svo fremi skuluð þér orði á koma að þér ætlið nokkuð að að gera (ÍF XII, 226 (1330-1370)).

Af sama meiði eru ýmis önnur orðasambönd, t.d. geta ekki að því gert og fá ekki að gert.

Orðasambandið gera mikið/lítið af e-u er algengt í nútímamáli í mjög svipaðri merkingu og gera mikið/lítið að e-u, t.d.:

hefur ekki gert mikið af því að fá hugmyndir að láni;
verðum við öll að gera minna af því að fleygja mat;
[Grindvíkingar] gera hins vegar lítið af því að sigra á heimavelli;
Því miður er of lítið gert af því [að skipta um skoðun] á Íslandi;
Verkföll og mótmæli af öðrum toga eru tíð í Kína þótt þarlendir fjölmiðlar geri yfirleitt ekki mikið af því að segja frá svo neikvæðum hlutum.

Elsta dæmi sem eg hef rekist á um þetta orðafar er frá 19. öld:

vil líka gjöra lítið af því (Húsfr 29 (1829)),

sbr. einnig:

gjörði samt lítið af því að hvetja unga menn (f20 (FJÞjóðh 27));
af öllu má of mikið gera (EBen II, 266 (1914)).

Fs.-sambandið af e-u merkir hér óbeinni merkingu ‘að því leyti; með tilliti til’ og er sú merking eldforn. Í slíkri merkingu verður þess semma vart að fs. og af geta fallið saman [auðugur að/af e-u; snauður að/af e-u], t.d.:

hreinsa e-n af e-u/(syndum) (Íslhóm 37r:33 (1200));
hreinsa e-ð af e-u (s14 (ÓT I, 211 (1350));
hefir hreinsað féhirslur kóngsins að lausagóssi (m14 (Æv 55)).

Óljós merkingarmunur er oft undanfari breytinga og á það við hér. Miðað við tiltæk dæmi virðist réttast að gera ráð fyrir uppflettimyndinni gera mikið/lítið að/af e-u en íhaldskurfur í máli eins og undirritaður kýs fremur að nota hér en af.

Jón G. Friðjónsson, 7.5.2016

Lesa grein í málfarsbanka


Vera að gera e-ð. – Oft er bent á það að íslenska sé íhaldssamari en skyldar tungur enda hafi hún breyst svo lítið, einkum hvað varðar orðfræði, beygingarfræði og setningafræði, að nútímamenn geti auðveldlega lesið forna texta. Vissulega er þetta rétt en íslenska hefur þó breyst verulega og sumar breytinganna eiga sér naumast hliðstæðu í skyldum málum.

Kunnasta nýmælið af þessum toga af sviði setningafræði er án vafa þróun orðskipunarinnar vera + at + at + nh. > vera + að + nh. en hún er um margt áhugaverð. Grunnmerking orðasambandsins vísar til dvalar eða verknaðar sem stendur yfir, enda er orðskipunin oft nefnd dvalarhorf, einnig sífellt horf. – Segja má að forsetningin (at) sé miðlæg í orðasambandinu og þar vísar hún til staðar, kyrrstöðu og er sú merking algeng frá fornu máli og fram á okkar daga, t.d.:

vera að kirkju (Íslhóm80v23);
grafa [barn] að kirkju (Grgkon I, 7 (1250));
vera að bóknámi (m14 (Bisk I, 91));
standa e-n að verki (m14 (Mar 82));
vera að slætti; vera að smíðum; vera að störfum.

Lengri mynd orðasambandsins vera að að gera e-ð er kunn frá elsta máli og einhöfð fram á 14. öld, t.d.:
Þá bað hann fyr óvinum sínum og þeim [er] að voru að pína hann (Íslhóm 74v29 (1200));
Bar það saman og þá var Gunnar að að segja söguna en þeir Kári hlýddu til úti (ÍF XII, 443 (1330-1370)).

Elstu dæmi um styttri myndina (vera að gera e-ð) eru frá 14. öld, t.d.:

Menn voru að tjalda kirkju á einhverjum bæ góðum (Bisk I, 319 (1350)).

Breytingin felst í því að fs. og nhm. falla saman og eftir stendur smáorðið sem gegnir hlutverki fs. eins og dæmi úr nútímamáli sýna:

Ætlarðu ekki að lesa bókina? Jú, ég er að því,

sbr. enn fremur dæmi eins og:

Vertu ekki að þessu/þessari vitleysu.

Í síðari alda máli eru enn fremur kunn liðfelld dæmi, t.d.:

Enn er hann að [því að gera e-ð neikvætt].

Slík dæmi eru engan veginn ný af nálinni. Magnúss saga góða og Haralds konungs er m.a. kunn úr Morkinskinnu og Flateyjarbók og svo vill til að þar kemur fram afbrigði (vera að vs. vera að því) sem enn er algengt, sbr.:

og er þeir voru að þá ... (Mork 233 (1275)) = Og er þeir voru að þessu, þá mælti einn maður (Flat IV, 156 (1387-1395)).

Í nútímamáli hefur hlaupið mikill ofvöxtur í notkun orðasambandsins þannig að segja má að það sé notað hömlulaust í orðsins fyllstu merkingu, t.d.:

Hann er ekki að skilja þetta;
Neytendur eru að fá betri vöru og lægra verð, þetta eru vörur sem við erum að selja;
Ég .. [NN] gullsmíðameistari, er að kaupa gull, gullpeninga og gullskartgripi (1.2.2011).

Hér verður ekki vikið að þeim reglum (hömlum) sem eiga við um dvalarhorf að öðru leyti en því að það hefur aldrei verið notað með sögnum sem vísa til kyrrstöðu/dvalar (sitja, liggja, sofa, vaka) né ástandssögnum (eiga, kunna, muna, skilja, vita, þekkja, þurfa).

Jón G. Friðjónsson, 23.7.2016

Lesa grein í málfarsbanka


Forsetningin er í ýmsum samböndum notuð með miðstigi, t.d:

Hann er ekki að bættari þótt hann hafið hlotið bætur ‘ekki betur settur þótt hann hafi fengið skaðabætur’;
aðeins örfáir ljúka náminu á þremur árum og því er afrek hans að meira [‘þeim mun meira’];
henni varð ekki að rórra þótt veskið hefði komið í leitirnar;
hann er ekki maður að verri þótt hann hjálpi til í fjósinu;
þeir væru menn að meiri ef þeir bæðust afsökunar;
Þjóðir þær, sem eru í þessum fjötrum, verða eigi að frjálsari þótt (s19 (ÞBLestr 97)).

Orðasambandið er algengt í fornu máli, t.d.:

Því að eigi er míns föður eða bræðra að hefndra ... að eg sjá [‘sé] við jörðu lagður (Sv 17 (1300); Flat III, 158);
En þú ert maður að verri er þú hefir þetta mælt (ÍF XII, 278);
er mér ekki sonur minn að bættri þó að Bolli sé drepinn (ÍF V, 155).

Í fornmálsdæmunum er undanskilinn liðurinn að því gerðu (með vísun til tíma) og er upphafleg merking með miðstiginu ‘þeim mun’, sbr. (Hauksbók):

þá er sæmd að víðfrægri en umbun að meiri [‘þeim mun meiri’] (Hsb 306 (1310)),

sbr. einnig (Gull-Ásu-Þórðar þátt):

Eigi er hana að borgnara þótt hæna beri skjöld [‘eigi er stertimennið [þeim mun] betur sett þótt lítilmennið hyggist hjálpa því’] (ÍF XI, 346).

Í nútímamáli virðist sú mynd og merking sem að baki liggur vera farin að blikna, sbr.:

Þeir [sem hafa beðist afsökunar] eru menn að meiru [svo] fyrir vikið og mættu fleiri fylgja þeirra fordæmi.

Jón G. Friðjónss, 2016

Lesa grein í málfarsbanka


Orðasambandið gera e-ð að yfirlögðu ráði merkir ‘gera e-ð eftir að hafa íhugað það, gera e-ð vísvitandi’, t.d.:

fréttinni var lekið í fjölmiðla að yfirlögðu ráði;
gera e-ð að yfirveguðu ráði; rangfærslur að yfirlögðu ráði;
Styrjaldir eru ævinlega afleiðingar kaldrifjaðs valdatafls ... stundum fyrir slysni, oftar að yfirlögðu ráði (SAMFugl 155);
kenna á þeim hrottaskap sem framinn er að yfirlögðu ráði (Þjóðv 8.1.1957, 7);
þetta gerði hann mjög hægt og að yfirlögðu ráði (Réttur 1.8.1931, 163);
Að yfirlögðu ráði höfum vér aðeins vikið að þessu (Réttur 1.5.1931, 75);
Andleg þróun þeirra er tafin svo sem föng eru á og að yfirlögðu ráði (Rauðpenn 1938, 84);
hefur bætt þessum ósannindum við að yfirlögðu ráði (Þjólf 11.1.1901, 10).

Dæmi af þessum toga (að + lh.þt. + þgf.) eru algeng í fornu máli og nútímamáli, t.d.:

brúin var opnuð að viðstöddu fjölmenni;
gefast ekki upp að (öllu) óreyndu;
að teknu tilliti til alls má segja ...;
að því virtu sem fram kom/upplýst var ...;
að svo stöddu (m17 (JMPísl 108));
að því tilskildu; að svo tilskildu (Alþ V, 578 (1639));
að öllum skilyrðum uppfylltum;            
setja e-ð fram að vel ígrunduðu máli og af fullri sanngirni (Mbl 5.4.09);
Að öllu þessu yfirskoðuðu (Alþ V, 506 (1637));
að svo búnu mátti ekki sjá (17 (Rém 255));
En að svo mæltu þagnar hinn óði (f15 (Heil I, 45));
mér er lítið um að flýja þeirra fund að öllu óreyndu (FærÓlH 40);
að loknum durum (Íslhóm 34v15).

Í ofangreindum dæmum virðist vísun til tíma (tímamerking) býsna greinileg en það er einmitt merking sem skilur á milli og af í ýmsum samböndum þar sem fram kemur nokkur óvissa um notkun, málnotkun hvarflar á milli af og . Í sumum tilvikum virðist merkingarmunur ekki fullljós með þeim afleiðingum að upp kemur vafi. Sem dæmi má taka eftirfarandi orðasambönd:

að gefnu tilefni — af litlu/þessu tilefni
að yfirlögðu ráði — af ásettu ráði
             
Traust dæmi sýna að notkun er með þeim hætti sem að ofan greinir en auðvelt er að finna ýmis frávik í nútímamáli. Elsta dæmi í síðari alda máli um frávik af þessum toga er frá 19. öld:

hún er gjörð af [þ.e. ] yfirlögðu ráði (Norðanfari 9.4.1884, 40).

Í nútímamáli virðist vera veruleg óvissa um notkun forsetninga í slíkum samböndum en hana má rekja til þess að merkingarmunur sé lítill eða óljós fyrir mörgum; einkum er þetta áberandi í fjölmiðlum líðandi stundar og máli ungs fólks.

Af fjölmörgum dæmum má sjá að forsetningin getur merkt ‘samkvæmt’, sbr. (Vatnsdæla sögu):

hann gerði eigi að sjálfvilja sínum [‘samkvæmt sjálfs sín vilja, að yfirlögðu ráði’] (ÍF VIII, 49).
Kunn eru fjölmörg dæmi af svipuðum toga, t.d.:

gera e-ð að forlagi e-s (s16);
gera að gamni sínu (s17);
gera e-ð að dæmi e-s;
gera e-ð að ráði e-s;
gera e-ð að skapi e-s (fornt);
gera e-ð að undirlagi e-s (f19);
gera e-ð að vilja e-s (fornt).

Hér er málnotkun í föstum skorðum enda er merking fs. önnur en í dæmum þar sem upp getur komið ruglingur á milli fs. og af.

***

Ég rakst nýlega á allsérstakt orðatiltæki:

Þetta sem nú er að gerast er vonarneisti um að heilsugæslan vindi seglin og framtíðin sé björt (Mbl 7.9.16, 1, 2).

Mér kom í hug það sem móðir mín sagði oft: Ekki er öll vitleysan eins – þá væri ekkert gaman að henni.

Jón G. Friðjónsson, 2016

Lesa grein í málfarsbanka


Orðasambandið gera e-ð af ásettu ráði vísar til þess með hvaða hætti e-ð er gert, merkir ‘gera e-ð af ásetningi’, t.d.:

Að einu slíku býli gistum við af ásettu ráði (m20 (JóhBirk 50));
þetta fólk virtist af ásettu ráði æsa sig upp (m20 (Móð II, 68));
leitast við af ásettu ráði að eyða þeim til fulls og alls (Rvp I, 157 (1847));
ef annarra betri réttur er með orði eða riti af ásettu [ráði] kreinktur [‘skertur’] (Snp I, 164 (1835));
svo gat líka verið að nokkrir [snjókekkir] væru af ásettu ráði í gáskanum sendir þeim forvitnu Tyrkjum sem hjá stóðu (Snp I, 113 (1835));
af guðs ásettu ráði (m18 (Blanda I, 101));
Eftir stóðu einasta 70 álnir er eg hélt eftir af ásettu ráði (s18 (JSt 89));
En vissum skýrum mönnum ... gengu þeir fyrir bí af ásettu ráði (s18 (JSt 157));  
vildi af ásettu gera engum rangt (f18 (JHSkól 106));
*Af guðs ásettu ráði / um það Sakarías spáði (m17 (HPPass XVII, 3));
en þó óforvarandis en alleina af Guðs ásettu ráði vék á þann veg stýrinu sem skyldi (m17 (JÓlInd 225)).

Forsetningar ásamt fylgiorði mynda oft föst ferli (föll; ‘fúnksjónir’) sem geta vísað til tíma (fyrir mig), rúms (fyrir mér), hreyfingar (á stólinn), kyrrstöðu (á stólnum) o.s.frv. og einnig getur merking þeirra verið atviksleg (í dag).  Sem dæmi má taka að fs. af + þgf. vísar oft til háttar ‘hvernig’. Af dæmum allt frá elsta máli og fram í nútímann má sjá að þetta ferli er mjög lifandi eða virkt, t.d.:
Af öllu hjarta (Leif 167 (1150));
af öllu afli (5. Mós 6, 5 (Kgs 3 (1275)));
segja ekki orð af viti; gera e-ð af kostgæfni;
af eigin rammleik; af sjálfsdáðum;
af öllum (lífs og sálar) kröftum; af öllum mætti;
gera e-ð meir af kappi en forsjá;
e-ð gerist af sjálfu sér;
reka erindi af miklum skörungsskap (fm15 (Heil I, 386));
sjá e-ð af tilviljun;
veita (e-m) af rausn og
gera af skyndingu (Sv 162 (1300)).

Orðasambandið af ásettu ráði er því í fullu samræmi við málkerfið. Orðasambandið að + lh.þt. + þgf. (að gefnu tilefni) vísar til tíma en er svipað að búningi og kann það að valda því að stundum slær orðasamböndunum saman í nútímamáli.

***

Íslensk hómilíubók er varðveitt í afriti frá því um 1200. Um hana sagði prófessor Jón Helgason:

óvíða flóa lindir íslensks máls tærari en í þessari gömlu bók, og er sá íslenskur rithöfundur sem ekki hefur þaullesið hana, litlu betur undir starf sitt búinn en sá prestur sem enn á ólesna fjallræðuna (Handrspj 16 (1958)).

Hætt er við margir ungir rithöfundar eigi sitthvað ólesið en skyldi eftirfarandi brot (með örlitlum skýringum) ekki eiga jafn mikið erindi nú sem fyrir liðlega 800 árum?:

Sá er mikill vandi [‘venja’] veraldar að meira virðist [‘er virt/metið’ > ‘sýnist’] allt það er sjaldnar verður, þó að til þess sé minni tilkoma [‘það sé tilkomuminna, minna sé í það varið’], en það virðist minna, er auðgætara [‘auðfengnara’] er, þó að það sé raunar [‘í raun/reynd’] meira (Íslhóm 11v10-12).

Jón G. Friðjónsson, 2016

Lesa grein í málfarsbanka


Í fornu máli og síðari alda máli er í langflestum tilvikum kerfisbundinn merkingarmunur á fs.-samböndunum að e-u og af e-u. Í allnokkrum tilvikum er notkun forsetninganna og af þó á reiki. Þetta á t.d. við um dæmin vera birgur að/(af) e-u/heyjum og vera auðugur að/(af) e-u. Dæmi sem þessi þarfnast skýringar og er þá vænlegast að kanna merkingu fs. og af, athuga sérstaklega hvað það er sem greinir þær að.

Forsetningarnar og af geta í beinni merkingu báðar vísað til staðar, þ.e. vísar ýmist til (1) kyrrstöðu/dvalar [hvar] (sitja að búi sínu; sitja einn að sínu) eða (2) hreyfingar [hvert], (ganga að húsinu) en fs. af vísar jafnan til hreyfingar af stað [hvaðan] (fara/halda/leggja af stað). Eins og allar aðrar forsetningar geta fs. og af vísað til óbeinnar merkingar. Sem dæmi má nefna að dvalarmerking fs. (1) elur af sér tillitsmerkingu (‘með tilliti til, að því er varðar’), sbr. A-dæmin í fyrra dálki töflunnar hér á eftir. Í afleiddri merkingu getur fs.-liðurinn af+þgf. vísað til ‘orsakar,’ t.d.: hafa áhyggjur af e-u ‘hvaðan’ > ‘hvers vegna, sökum.’ Í flestum tilvikum er þessi merkingarmunur skýr, sbr. dæmin í eftirfarandi töflu:

            A. [hvar] ‘með tilliti til’          B. [hvaðan] ‘orsök; (‘frá’)’    
            ávinningur er e-u;              hafa ávinning af e-u
            bragð er/brögð eru e-u       finna bragð af e-u (mat)
            e-m er heiður e-u               eiga heiðurinn af e-u
            e-m er ami e-u                    hafa ama af e-u
            e-m verður mein e-u          e-m verður (ekki) meint af e-u
            e-m er skapraun e-u           hafa skapraun af e-u
            gagn er e-u                         hafa gagn af e-u
            gaman er e-u                      hafa gaman af e-u
            sómi/sæmd er e-u              hafa/hljóta sóma/sæmd af e-u
            það er skömm ­e-u              hafa/fá skömm af e-u
            það er ­skaði ­e-u                 hafa/hljóta skaða af e-u­­
            vera kunnur e-u                 vera kunnur af e-u (‘fyrir e-ð’).

Auðvelt er að tilgreina miklu fleiri traust dæmi um hvora tveggja notkunina, dæmi sem sýna að í stórum dráttum er málnotkunin í föstum skorðum.  Jafnframt blasir við að upp getur komið óvissa um notkun í dæmum af þessum toga. Ástæðan virðist vera sú að merkingarmunur orðasambandanna birgur að e-u/heyjum ‘eiga nóg með tilliti til e-s’ og birgur af e-u/heyjum ‘eiga nóg e-s’ virðist óskýr fyrir sumum, hann verður með öðrum orðum umframur með þeim afleiðingum að nota má hvora myndina sem er.

Munurinn á að+þgf. í tillitsmerkingu og af+þgf. í orsakarmerkingu er skýr í fornu máli, sbr. eftirfarandi dæmi þar sem báðar orðskipanirnar eru notaðar í nábýli ef svo má segja:

ríkur að eignum ... og faðir hans frægur af hreysti (s13 (Str 188));
styrkur að afli ... mildur og örlyndur af peningum og reyndur að fullkomnum trúleik (s14 (ÓT I, 282)).

Dæmi af þessum toga eru fjölmörg í fornu máli og segja má að það sé að vonum að eitthvað gefi eftir. Elsta dæmi úr síðari alda máli þar sem ruglings virðist gæta er úr Guðbrandsbiblíu:

Og Abraham var stórauðugur að kvikfé svo og líka af silfri og gulli (1. Mós 13, 2 (GÞ)).

Með lo. fátækur, ríkur og snauður er jafnan notuð fs. en í nútímamáli gætir þess nokkuð að með þeim sé notuð fs. af.  Hér skulu einungis tilgreind dæmi með lo. fátækur:

fátækur af auðlindum (f21); fátækur af hráefnum (f21);
undanrenningin er fátækari af fitu (f20 (Skóleldhús 9 (OHR)));
Sé loftið, sem dýrið andar að sér, of fátækt af súrefni, getur ... (f20 (MeinDýr 6 (OHR)));
Vér Íslendingar erum fátækari af öðru en guðsorðabókum (Þjólf 12.1.1884, 1).

Ætla má að óvissa um notkun í dæmum af þessum toga eigi rót sína í því að merkingarmunur sé ekki skýr, hann geti jafnvel orðið umframur. Að lokum skal teflt fram dæmum andstæðum þessu þar sem merkingarmunurinn virðist skýr:
            Maðurinn er frægur að endemum [tillitsmerking]
            Maðurinn er frægur af verkum sínum [orsakarmerking].

Jón G. Friðjónsson, 1.4.2017

Lesa grein í málfarsbanka


Notkun forsetninga með no. gaman (hk.) er stundum á reiki í nútímamáli, upp kemur vafi hvort nota skuli fs. eða af. Í langflestum tilvikum er merkingarmunur þessara tveggja forsetninga reyndar skýr, merking ræðst þá m.a. af því hvort vísað er til hreyfingar ‘hvert’ eða hreyfingar ‘hvaðan’, t.d. fara (rétt/rangt) að e-u [aðferð; aðför]; ganga (hart) að e-m [aðgangsharður]; e-ð gengur af (e-u) [afgangur] og ganga af e-m dauðum. Hér sem endranær sker merking úr. Nú skal örfáum dæmum með stofnorðinu gaman teflt fram ásamt vísbendingum um vísun og merkingu innan hornklofa:

að gamni sínu ‘samkvæmt, eftir’:
Að gamni mínu gjörði eg sagði barnið ... (s17 (GÓl 10));
Líkamslosti á þessu landi er hafður í ráðum [þ.e. ræðum] á milli manna að gamni svo sem ofdrykkja í Norvegi (Íslhóm 99v6).

gaman er að e-u [kyrrstaða; hvar > ‘með tilliti til’]:
Ekki er gaman að guðspjöllunum, enginn er í þeim bardaginn (ÞjóðsJÁ II, 519);
Gaman er að börnunum,’ sagði bóndinn, hann átti sjö fíflin og áttunda umskiptinginn (m17 (JRúgm I, 140)).

gera sér gaman af e-u [hreyfing; hvaðan]:
gera sér gaman af litlu;
hann vissi fyrirsát Laugamanna fyrir Kjartani og vildi eigi segja honum en gerði sér af gaman og skemmtan af viðskiptum þeirra (m14 (ÍF V, 160)).

hafa gaman af e-u [hreyfing; hvaðan]:
Hafa gaman af knattspyrnu/bóklestri ...;
höfum vér gaman af öllu sem oss lystir (ÍF IX, 9 (1330-1370));
Hvort sem satt er eða eigi þá hafi sá gaman af, er það má að [gamni] verða, en hinir leiti annars þess gamans er þeim þykkir betra (FN III, 151 (1300-1325)).

henda gaman að e-u [hreyfing; hvert]:
hann henti alltaf gaman að sjálfum sér (m20 (Móð II, 67));
*Fyrr var oft í koti kátt, / krakkar léku saman, / þar var löngum hlegið hátt, / hent að mörgu gaman (ÞErl 5);
því að óskírð [‘óhrein’] eru þess eyru er gaman hendir að illum tíðindum eða sauryrðum (Íslhóm 85v16; GNH 55);
hvorki hentu þeir gaman að leikum né annarri skemmtun (ÍslLaxd 1643).

Í ofangreindum orðasamböndum hefur málbeiting verið í föstum skorðum frá elstu heimildum fram til nútímamáls en nú virðist í sumum tilvikum gæta óvissu, skilin á milli af og eru stundum óljós. Íhugunarvert er að svo virðist sem merkingarmunur nánast hverfi í tilteknum samböndum en það fyrirbrigði er reyndar hundgamalt, t.d.:

auðugur að/af e-u; birgur að/af e-u; ríkur að/af e-u; snauður að/af e-u; hreinsa e-ð að/af e-u o.fl.

Í næsta pistli verður litið á nokkur dæmi af þeim toga.

***

No. fásinna (kvk.) merkir í elsta máli (Alþ II, 179 (1590)) ‘bjánaskapur; óvit; brjálsemi’ en í nútímamáli mun algengasta merkingin vera ‘heimska, ósvinna, rugl’, t.d.:

Vér erum aldir upp í þeirri fásinnu að vænta alls af öðrum (NF XXI, 114 (1861));
Hann segir að þetta sé fásinna af henni að neita svo hverjum manni (m19 (ÞjóðsJÁ II, 231)).

No. fásinni (hk.) er kunnugt í síðari alda máli í merkingunni ‘fásinna’ (f20 (Vestfþjóðs III 1, 63)) en beina merkingin ‘fámenni; það að hafa fáa fylgismenn/fá hjú’ mun vera úrelt. Hún er kunn í fornu máli, t.d. í Brennu-Njáls sögu:

Hefir þú og lítt riðið til alþingis eða starfað í þingdeildum og mun þér kringra [‘auðveldara’]  að hafa ljósaverk [‘mjólkurstörf’] að búi þínu að Öxará í fásinninu [‘fámenninu; þar sem fátt er hjóna’] (ÍF XII, 305 (1330-1370)).

Ég nefni þetta hér því að þótt ég hafi lesið Brennu-Njáls sögu oftar en ég hef tölu á tók ég fyrst nýlega eftir þessari merkingu no. fásinni. – Þetta sýnir það sem flestir munu vita að alltaf lærir maður eitthvað nýtt, sama hve oft Njála er lesin.

Jón G. Friðjónsson, 20.10.2017

Lesa grein í málfarsbanka


Það blasir við að í nútímamáli er talsvert los á notkun forsetninganna af og , það kemur glöggt fram í eftirfarandi dæmum:

Ef að [þ.e. af] kaupum Everton á Gylfa verður (10.7.17);
glanstímarit sem er markaðssett að [þ.e. af] ungum konum (20.10.16, 20);
Heiðurinn að [þ.e. af] þeirri lækkun á vinstristjórnin og sú sem nú situr um það bil til helminga (24.2.17, 8);
Varpa ljósi á málið [plastbarkamálið] í heild sinni þannig að draga megi að [þ.e. af] því sem bestan lærdóm (21.2.17, 11);
Það var enginn afgangur að [þ.e. af] sigri FH-inga en þeir náðu að merja eins marks sigur (6.3.17);
með því að láta [NN] hafa upptöku að [þ.e. af] samtali sínu við XY (11.12.09);
[þ.e. af] ofangreindu er ljóst að það má sæta tíðindum (4.11.08);
að festa gengið sé væntanlega aðgerð að [þ.e. af] hans [bankans] hálfu til þess að vinna tíma (8.10.08);
Það var erfitt að vinna að [þ.e. af] heilindum fyrir VR og sitja um leið undir gagnrýni (11.11.08);
Þá er hann sagður eiga heiðurinn að [þ.e. af] því að Ísland varð aðili að EES-samningnum árið 1994 (1.12.08);
í nýrri auglýsingu fyrir Sjóvá sem auglýsingastofan Hvíta húsið á heiðurinn að [þ.e. af] (Frbl 10.2.10);
Er eftirsjá af [þ.e. ] Guðna [er hann hverfur] úr stjórnmálum (19.11.08);
Indverjar og Kínverjar munu eflast af [þ.e. að] áhrifum næstu áratugina (Txt 21.11.08).

Af sögu íslenskrar tungu má ráða að merkingarmunur fs. og af er í langflestum tilvikum skýr en af ofangreindum dæmunum má sjá að þar ægir öllu saman, óreglan virðist nánast tilviljanakennd. Það er reyndar ekki nýtt að í ákveðnum tilvikum koma fram veilur í kerfinu ef svo má að orði komast. Sem dæmi má taka að fs. er algeng í tillitsmerkingu (‘að e-u leyti; með tilliti til e-s’), t.d.:

vera þrotinn að kröftum; vera hniginn að aldri; vera farinn að heilsu/kjarki; vera valdur að e-u; þekkja e-n að góðu einu.

Í sumum samböndum virðist forsetningin af notuð í svipaðri merkingu og kemur þá upp óvissa. – Það er vitaskuld ekki vinnandi vegur að fjalla um þetta í skömmu máli en frekar en ekkert skulu tilgreind nokkur dæmi. Ég hef alllengi haft áhuga á þessu fyrirbrigði og haldið þeim dæmum til haga sem eg hef rekist á en víðsfjarri fer því að þau séu nægilega mörg til að rísa undir traustri lýsingu. Til samanburðar kannaði ég lauslega hvort samsvarandi forsetningasambönd væru tilgreind í Íslenskri orðabók (Íob) og/eða Orðabók Sigfúsar Blöndals (SBl): 

auðugur e-u: a. að e-u (Íob); - (SBl).
auðugur að veraldlegum gæðum; Þessi ár ... hafa án efa verið honum hamingjusöm og auðug að innra lífi (TG72, 194); Hann var jafnauðugur að orðum sem hugmyndum (ÁP47, 418); auðugir að peningum (m19 (ÞjóðsJÁ2 II, 174)); blóðvökvinn er auðugur að vatni (TBókm VI, 238); Blöðin eru í seinni tíð næsta auðug að illyrðum (Send VI, 287 (1883)); auðigur að lausafé (Fris 23); auðigur að fé (ÍF XXV, 8); Allar auðgar að ölmusum en snauðar að aurum (Leif 46 (1200-1225)).

auðugur af e-u: gífurlega auðug af auðlindum (f21 (JOHalld 27)); enda mun konan hafa verið auðugri af líknarlund en veraldlegum fjármunum (TG72, 178); hafið umhverfis landið er mjög auðugt af dýrum (Andv 1895, 138); Þeir voru auðugir af peningum (m19 (ÞjóðsJÁ II, 171)); bókin er æði auðug af prentvillum (m19 (Fjöln VII, 87)); guð sá auðigur er af miskunn (Ef 2, 4 (OG)).

birgur e-u: b. að (af) e-u (Íob); b. að e-u (SBl).
vera birgur að heyjum (Búfræð 1.1.1947, 160); Það er gott að vera birgur að alls konar ... skartgripum (Vikan 13.4.1944, 9); birgur að nauðsynjavöru (Samvinn 1.5.1928, 244); hann [Þorkell] var birgur vel að kosti og þó lítilmenni (ÍF VII, 166).

birgur af:
vissi vel hvað mörg heimili voru illa birg af nauðsynjavöru (f20 (EyjGMinn I, 73)); Oft var Þorvaldur svo birgur af nauðsynjavöru ýmiss konar að menn sóttu til hans (Skút I, 419).

fátækur e-u:  - (Íob); - (SBl).
Krít er fátæk að málmum (m20 (Grikkl I, 28)); Ísland er á að sjá fátækt að náttúrugæðum (m19 (MGrÚrv 182)); Því að svo voru þeir feðgar fátækir að fémunum að ... (ÍF X, 206 (1400)); fátækur að fémunum en frægur að góðum verkum (s14 (Pst 1)); eg er fátækur að peningum og þó fátækari að ríki og virðingu (Rém 88 (1450-1475)).

fátækur af:
fátækur af auðlindum (f21 (JOHalld 28)); fátækur af hráefnum (f21 (JOHalld 28)); undanrenningin er fátækari af fitu (f20 (OHR))); Sé loftið, sem dýrið andar að sér, of fátækt af súrefni, getur ... (f20 (OHR))); Vér Íslendingar erum fátækari af öðru en guðsorðabókum (Þjólf 12.1.1884, 1).

ríkur e-u: - (Íob); - (SBl).
ríkur að fé og ríkur í lund (s19 (Þjvu 7, 63)); hvort ertu svo ríkur ... að gulli og silfri og öðrum gersemum sem sagt er (Vikt 39 (1450-1475)); prestur ... ríkur að auðæfum (Alfr I, 57 (1387)).

ríkur af e-u:
Enginn segi sig af öllu ríkan (f19 (GJ 93)).

snauður: - (Íob); s. að e-u (SBl).
Auk heldur er sem vænta mátti Sigurður gersnauður að fé, enda bætir það ekki úr skák að (TG72, 195); snauður að lífsreynslu en ríkur að bóklegri spekt (SvKr62, 18); Jón Sigmundarson ... var vinum horfinn og snauður að fé (f19 (JEsp III, 61)); hann var snauður að fé og eigi mjög vinsæll af alþýðu manna (ÍF III, 6).

snauður af
slyppur og snauður af veraldlegum efnum (m20 (JGuðnSkTh I, 16)); formálinn, sem er svo snauður af lofi um yður sem mér var auðið (ÚrfórJÁ I, 350 (1861) (OHR)).

***

Ég hef vanist því að blaðamenn og fjölmiðlamenn séu margir hverjir öflugir íslenskumenn. En í þeirri stétt sem öðrum eru mönnum vitaskuld mislagðar hendur. Ekki alls fyrir löngu las ég grein þar sem fjallað var um kynferðisofbeldi og þar sagði m.a.:

Þeir [karlarnir X og Y] eiga sín á milli [þ.e. ‘alls, samtals’] fimm dætur og hafa fjórar þeirra lent í [‘orðið fyrir’] kynferðisofbeldi (13.7.2017);
Viðbrögðin hafa rétt við bakið á þolendum ... [brotamannsins NN] (15.7.17, 4).

Í fyrra dæminu er sín á milli notað í fráleitri merkingu. Tveir karlar geta rætt eitthvað sín á milli en ekki geta þeir átt börn sín á milli. Í síðara dæminu mun vera ruglað saman orðasambandinu rétta við (kann að vísa til skips í kröppum sjó) og orðatiltækinu styðja við bakið á e-m. – Sumir henda gaman að dæmum sem þessum enda eru þau naumast til annars.

Jón G. Friðjónsson, 27.10.2017

Lesa grein í málfarsbanka


Í síðasta pistli var rætt um muninn á forsetningunum og af og finnst mörgum ugglaust nóg komið af svo góðu. Þó skal enn hjakkað í sama farið og þessu sinni sýnd dæmi þar sem undirrituðum finnst merking fs. og af nokkuð mismunandi:

frægur ‘með tilliti til’:  f. að (af) (Íob); - (SBl).
samt hafði ég hlotið ljótar nafngiftir og orðið frægur að endemum (s20 (ÓJSigSeið 15 (OHR)));
kona og fræg að ætt og mörgum góðum hlutum (Mork 448 (1275));
fægur að hreysti sinni (GNH 112 (1200-1225)).

frægur af: ‘fyrir, sakir’.
Margur hefir orðið frægur og feitur af [‘fyrir’] annarra fordjörfun (f19 (GJ 220));
varð Hyrningur allfrægur af [‘fyrir’] þessi sókn (ÓT II, 278);
kjósa þann dauðann er vér viljum helst hafa og vér verðum frægstir af [‘fyrir’] (m14 (Pröv 362));
frægur mjög af [‘fyrir’] hernaði sínum (ÓH 53 (1250-1300)).

kunnur e-u (háttprýði/vandvirkni):
NN er öllum að góðu kunnur;
Eg að mínu leyti gat ekki verið kunnur að því ... (Alþt 1855, 751 (OHR));
En hver að þessu verður kunnur og sannur ... (Alþ IV, 13 (1606)).

kunnur af e-u:
Hann var kunnur víða um landið, bæði af ferðum sínum um Austfirði en þó sérstaklega af Íslendingasögunum (StÞórðNú 12 (OHR));
var þá 24 ára að aldri og kunnur af störfum sínum í þágu flugmála (m20 (Virk I, 50)).

ólétt :
konan er ólétt að fyrsta barni sínu;
hún var ólétt að honum (f18 (Víd 40));

ólétt af:
fannst hún ólétt af [‘fyrir tilverknað’] heilögum anda (Matt 1, 18 (OG)).

Dæmin virðast öll góð og gild í þeim skilningi að heimildir eru traustar. Undirrituðum virðist merkingarmunur skýr er ekki er víst að allir séu sammála því.

Álitamál um notkun fs. og af eru tiltöluleg fá, í flestum tilvikum leikur enginn vafi á um notkun. Hér skal einungis litið á tvö dæmi eða munstur:

Fs. vísar til kyrrstöðu (‘hvar’) en fs. af til hreyfingar (‘hvaðan’), sbr. eftirfarandi andstæður:

(1)
e-m er ánægja/heiður ... e-u                                  hafa ánægju/heiður ... af e-u
gaman/gagn er e-u                                                hafa gaman/gagn af e-u  

Orð sem falla inn í munstur (1) skipta ugglaust tugum í íslensku, lesendur geta gengið úr skugga um það með því að leita í huga sér.

Fs. getur vísað til tíma (‘þegar’) í tilteknum samböndum en fs. af getur vísað til háttar eða orsakar (‘hvaðan’), sbr.:

(2)
gefnu tilefni ...                                          í tilefni af e-u ...
teknu tilliti til e-s ...                                   af þessu tilefni ...
svo stöddu/mæltu ...                                 sjá e-ð af tilviljun
að yfirlögðu ráði ...                                       af ásettu ráði ...

Orð sem falla að munstri (2) eru fjölmörg og munurinn virðist í flestum tilvikum skýr að undanskildu síðasta dæminu. Á alllöngum kennaraferli mínum tókst mér fremur illa að færa nemendum heim sanninn um það að orðasambandið að yfirlögðu ráði vísaði (augljóslega) til tíma en í orðasambandinu af ásettu ráði fælist háttarmerking en ég kann þó ekki betri skýringu. 

***
Lo. óléttur vísar jafnan til konu í merkingunni ‘vanfær, með barni’. Orðið er gamalt, kemur t.d. fyrir í Staðarhólsbók Grágásar (GrgSt 163) og í Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar (Matt 1, 18 (OG)). Elstu dæmi um myndina kasóléttur er hins vegar frá 20. öld:

Ég einn varð að dragast áfram í hægðum mínum kasóléttur (fm20 (ÞórbÞBréf 110 (OHR))).

Ekki virðist mér augljóst af hvaða rótum forliðurinn kas- er runninn og hvergi hef ég rekist á skýringar enda hefur orðið hvorki ratað í almennar orðabækur né orðsifjabækur.  Elstu dæmi um svipað orðafar eru:

kasbomm (Spegill 1935 12, 95 (OHR)); kashlaðinn (m20 (KrJónsSjón 165 (OHR)) og kasheitur (SjómVík 1950, 154 (OHR)).

Sá sem þetta ritar lætur sér detta í hug að forliðurinn kas- kunni að vera leiddur af kös (kvk.) en trúlega þó fremur af so. kasa, sbr. lo. kashlaðinn ‘mjög hlaðinn’. – Sé þetta rétt má sjá hér dæmi um skemmtilega mynd sem einhver ókunnur málnotandi hefur komið á flot, mynd sem er höfundarlaus eins og flest fagurt í máli okkar.

Jón G. Friðjónsson, 4.11.2017

Lesa grein í málfarsbanka


Forsetningarliðurinn að e-u getur vísað til þess sem er ‘ófullgert’ og fsl. af e-u til þess sem er ‘fullgert’. Þetta mætti kalla ‘hlutverksmerkingu’ eða ‘ferli’ forsetninga, þ.e.:

1. ‘ófullgert’: drög að e-u; frumvarp að e-u; uppkast að e-u;
2. ‘fullgert’: mynd af e-u; afrit af e-u; ljósrit af e-u.

Þessi ferli eru opin í þeim skilningi að við geta bæst stofnorð sem falla undir þau að merkingu og notkun, t.d.:

(1) grunnur að e-u; fá hugmynd að skáldverki; leggja fram frumvarp að kirkjulöggöf o.fl. og
(2) málverk af e-u; eftirrit af e-u; endurrit af e-u o.fl.

Til að fylla myndina er rétt að gera ráð fyrir þriðja ferlinu þar sem stofnorð getur vísað til hvors tveggja, þess sem er ‘ófullgert’ eða ‘fullgert’:

3. ‘ófullgert/fullgert’:

gera líkan að e-u (sem gert verður)                           skoða (fullbúið) líkan af e-u;
rita handrit að kvikmynd (sem gera á)                       af Brennu-Njáls sögu eru til mörg handrit;
vinna að nýjum uppdrætti að tilteknu svæði              skoða uppdrátt af landinu;
láta gera teikningu að fyrirhuguðu húsi                     skoða teikningu af húsinu o.s.frv.

Alloft hefur verið vikið að því í pistlunum að fs. sæki mjög á í nútímamáli, oft á kostnað fs. af. Þetta á einnig við hér, ferli 1 (‘ófullgert’) sækir mjög á, t.d.:

grundvöllur fyrir e-u > grundvöllur að e-u;
undirbúningur fyrir e-ð  > undirbúningur að e-u;
tillaga til e-s; tillaga um e-ð > tillaga að e-u;
taka grunn fyrir húsi > taka grunn að húsi o.s.frv.

Á liðnum áratugum hef ég safnað fjölmörgum slíkum dæmum með ýmsum stofnorðum. Ég veit að dæmi af þessum toga eru orðin býsna algeng í nútímamáli og því eru ekki efni til að telja að þau brjóti í bág við rétta málnotkun. Ég tel þó að við blasi að hér séu í mörgum tilvikum á ferð nýmæli sem rekja megi til merkingar fs.-sambandsins að e-u ‘ófullgert’. Til gamans skal teflt fram örfáum dæmum sem ætla má að orki misjafnlega á málnotendur:

Undirbúningur er hafinn framkvæmdinni (19.7.08);
undirbúningur byggingu hússins hófst í mars 2013 (29.12.16, 12);
Breytingartillögur nýjum búvörusamningi voru kynntar í gær (12.8.16, 1);
Menntamálaráðherra hefur lagt til við Alþingi að það samþykki tillögur Íslenskrar málnefndar íslenskri málstefnu sem opinbera stefnu (9.12.08);
Er þetta undanfari því að eitthvað af skattfé okkar ...? (20.10.17, 24).

Til gamans skal þess getið að hvorki í Íslenskri orðabók né Orðastað Jóns Hilmars eru dæmi um orðasambandið undirbúningur að e-u en í Íslenskri orðabók er tilgreind myndin tillaga að e-u (um e-ð), í Orðastað er sú mynd ekki tilgreind. Það væri reyndar áhugavert að skoða hvernig lýsingu fleiri merkingarskyldra nafnorða (frumvarp, grunnur, uppkast) er háttað í uppflettiritum en það verður eftirlátið öðrum eins og maðurinn sagði.

***

Í Eyrbyggja sögu segir:

Sýndist mönnum þann veg helst sem hann [‘sauðamaður’] myndi leikinn [‘hefði orðið fyrir gerningum’] því að hann fór hjá sér [‘fór einförum’] og talaði við sjálfan sig (ÍF IV, 146).
Í þýðingu Jóns Grunnvíkings á Nikulási Klím segir:

setja þá í mestu forundran og láta þá verða svo sem hjá sér [‘verða skrýtna, feimna’] (f18 (Klím 56)).

Hér hefur orðið merkingarbreyting, þ.e. fara hjá sér ‘†fara einförum/einn’ fær merkinguna ‘verða feiminn’ (í myndinni verða hjá sér). – Þegar merkingarbreytingar eru skoðaðar má oft sjá einn merkingarþátt sem er sameiginlegur upphaflegu merkingunni og nýju merkingunni. Getur það verið að kveikjan að breytingunni ‘fara hjá sér’ > verða feiminn’ sé merkingin ‘skrýtinn’? – Jón Axel telur réttilega að eðlilegra sé að gera ráð fyrir að sameiginlegri merkingu ‘vera út af fyrir sig, halda sér til hlés’

Jón G. Friðjónsson, 2.12.2017

Lesa grein í málfarsbanka

1 að, †at fs. (ao.); sbr. fær. at, no. ad, nno. åt, sæ. åt, d. ad, fe. æt, fhþ. az, gotn. at, lat. ad; aðalmerkingin virðist vera ‘í áttina til’ e.þ.u.l. Stundum talið sk. fír. ad ‘lög, siðvenja’ < *ado- ‘markmið’, af ie. rót *ad- ‘ákveða, tiltaka (sem markmið)’. E.t.v. eru ísl. til (fs.) og -tili k. af sama toga (s.þ.).


2 að-, †at- forskeyti; sbr. fe. æt-, fhþ. az-, gotn. at-, fír. ad-, lat. ad- og ísl. fs. Oftast í eiginlegri merkingu ‘til, hjá’, sbr. aðfall, aðför, aðsókn; í sumum tilvikum helst hin forna mynd forskeytisins at- í nýmálinu, sbr. athvarf, athöfn, atlot, atriði o.s.frv. Oft er erfitt að skera úr hvort um gamalt forskeyti eða síðar forskeytta fs. er að ræða. Sjá (1).


3 að, †at nhm.; sbr. d. at, sæ. åt, sama orð og fs. (at), sbr. að forsetningar sömu merkingar í e. og þ., to og zu, eru einnig notaðar sem nhm.


4 að, †at st.; sbr. fær. at, nno., d. at, sæ. att; upphaflega sama orð og fn. það, †þat, upphafs-þ-ið hefur fallið burt; sbr. e. that og þ. das(s) (fn. og st.); (*ek veit þat, hann kømr > ek veit (þ)at hann kømr).