aflétta fannst í 4 gagnasöfnum

aflétta -létti, -létt aflétta álögum

aflétta sagnorð

fallstjórn: þágufall

létta (e-u) af e-u, fjarlægja (e-ð)

yfirvöld afléttu viðskiptabanninu

álögunum hefur verið aflétt


Fara í orðabók

Stjórnvöld lýsa yfir hættuástandi. Seinna er hættuástandi aflýst (síður: „aflétt“). Hins vegar: aflétta banni.

Lesa grein í málfarsbanka


Í Brennu-Njáls sögu segir frá farandkonum sem komu frá Bergþórshvoli til Hlíðarenda. Eftirminnileg eru orð þeirra um Njál er þær voru spurðar hvað hann hefði hafst að:

Stritaðist hann við að sitja (ÍF XII, 112).

Konurnar voru málgar og heldur orðillar eins og segir í sögunni enda mun þetta hafa verið sagt í háði en á snilldarlegan hátt. Mér er nær að halda að orð farandkvennanna hafi lifað sem fleyg orð, sbr. eftirfarandi dæmi:
           
þótt ég gerði ekkert annað í fimmhundruð ár samfleytt en stritast við að sitja á honum [‘stólnum’] (HKLDagl 28 (OHR));
Verum ekki að stritast við að byggja kirkjur (Fjallk 1896, 62 (OHR));
hann stritaðist við að sitja á grein trésins (m19 (JThSk I, 243));
hjakka eilíflega ofan í sama farið, stritast við að ná embættisprófi (NF XXIX, 71 (1872)).

Í nútímamáli gætir þess nokkuð að í stað sagnarinnar stritast sé notuð sögnin streitast, t.d.:

Tilraunum til að kenna náttúrunni einni um ástandið fækkar en jafnt stórveldi sem flest stórfyrirtæki streitast við að horfa fremur á hagnað sinn en kostnaðinn sem blasir við (Frbl 6.4.18);
Til að mynda [kom það ekki á óvart] að fulltrúi Samfylkingarinnar skuli enn streitast við að viðhalda blekkingarhjúp og látalátum í kringum aðildarbröltið að ESB (Mbl 23.11.12);
þeir [Þjóðverjar] gjöra hana [þjóðmegunarfræðina] að snauðum hugsunarlærdómi og eru að streitast við að koma því í rétta hugsunarlögun, sem aðrir hafa uppgötvað en bæta litlu við sjálfir (NF X, 114 (1850)).

Mér finnst nokkur munur á sögnunum streitast (‘berjast’) og stritast (‘erfiða’) og kann því mun betur við myndina stritast sem rekja má til Brennu-Njáls sögu. Vafalaust finnst mörgum þetta smælki eða hégómi en mér finnst nauðsynlegt að halda því til haga hvaðan þetta orðafar er komið.

****

Mjög algengt er að forsetningar í íslensku myndi nokkurs konar ‘pör’ þar sem fram kemur það sem kalla mætti hlutverksmerkingu, t.d.:


         HVERT                       HVAR                             HVAÐAN
         (hreyfing á stað)         (kyrrstaða á stað)          (hreyfing af stað)

         fara á ball                    vera á balli                       koma af balli
         leggja toll á e-ð            tollur er á e-u                   aflétta tolli af e-u

Í sumum tilvikum virðist þessi merkingar- og notkunarmunur ekki fullljós, t.d. munurinn á á e-u og af e-u, sbr. eftirfarandi dæmi, innan hornklofa er sýnd venjubundin málbeiting:

sú ríkisstjórn fari frá sem ... afléttir ekki verðtryggingu á [‘af’] neytendalánum (19.9.17, 20);
aflétta banni á [‘af’ / ‘við’] rassskellingum (1.3.08);
hefur fyrirtækið óskað eftir því að vatnsvernd verði aflétt á [‘af’] hundrað hektara svæði (29.11.06).

Þess eru einnig dæmi að notaðar séu aðrar forsetningar en af/á með so. aflétta, t.d:

eru andvígir þeirri stefnu Angelu Merkel að aflétta ekki refisaðgerðum gegn [‘af’] Rússlandi fyrr en friðarsamningnum vegna átakanna í Úkraínu verði komið í framkvæmd að fullu (14.9.17, 16). 

Í langflestum tilvikum sker málvenja úr um notkun, t.d. er algengast í nútímamáli að nota fremur orðasambandið leggja af stað en leggja á stað þótt á þeim sé reyndar bitamunur en ekki fjár – eins og fjölmörg dæmi eru til vitnis um. Það er reyndar efni í sérstakan pistil.


Jón G. Friðjónsson, 3.8.2018

Lesa grein í málfarsbanka