aflag fannst í 4 gagnasöfnum

aflag -ið -lags; -lög

Nafnorðið aflagi (hk.) [ab:laijI] merkir ‘illa gerður hlutur; afmán, ómynd’. Það er myndað af aflag (hk.)  (s16), aflagið  > aflagi (s17), sbr. fjölmargar hliðstæður, t.d.: gren, grenið > greni. Bein merking er því ‘það sem víkur af réttu lagi; ómynd’. Orðið er mér mjög tamt, ég drakk það í mig með móðurmjólkinni, t.d.:

Þetta er nú meira aflagið ‘meiri ómyndin/afmánin (um hlut, ólánlega gerðan)’.

Nú mun þetta orð vera ungu fólki mjög framandi, jafnvel hljóma hallærislega. Elstu dæmi um það eru frá síðari hluta 17. aldar (OHR), sbr. einnig eftirfarandi dæmi úr Viðeyjarbiblíu (1841):

Aflagið gægist inn um dyrnar í húsið; en sá velsiðaði maður stendur þar fyrir utan (Sír 21, 25 (Við));
Þá varð Sál illur við Jónatan og mælti: Þú sonur aflægisins og þrákálfsins (1. Sam 20, 30 (Við));
jafna þú ekki þinni ambátt við aflægi (1. Sam 1, 16 (Við)).

Af sama meiði eru ýmis afleidd orð, t.d.: aflagislega, aflagislegur, aflagisháttur, aflagisstjórn o.fl.

Orðasambandið e-ð/ýmislegt fer/gengur aflaga (e-s staðar; fyrir/hjá e-m) er af öðrum meiði, það vísar til þess sem er andstætt lögum og merkir ‘e-ð gengur öfugt eða er í ólagi’, t.d.:

En fer nú ekkert aflaga hjá þér? (MGrÚrv 107);
Flest sem aflaga fer er sprottið af of litlum eða of miklum auð (SvSkBenJ 172 (1897));
en allt fer aflaga og um koll (f19 (Hjálm 83)).

Rætur þess eru fornar, sbr. eftirfarandi dæmi úr Sverris sögu og Jónsbók:

taka þá aflaga [‘móti/andstætt lögum’] bæði mat og mungát [‘það sem huga gest að; áfengi’] (Sv 123);
skynsamir menn sjá, að menn verða ranglega og aflaga sóttir (Jsb 12).

***

Alltaf finnst mér það jafn merkilegt að nútímamenn skuli geta lesið fyrirhafnarlítið liðlega 800 ára gamla texta, einkum ef stafsetning hefur verið færð til nútímans og einföldum skýringum bætt við, t.d.:

Sá er margur atfundull [‘aðfinnslusamur’] og áleitinn [‘hnýsinn, forvitinn’] of [‘um’] annarra hagi er við hvert orð verður illa, það er honum er til áleitni [‘ásækni; ýtni’] lagt (f13 (Íslhóm 48v26)).

Sá sem þetta ritar hefur alllengi talið mikilvægt að tilgreina dæmi úr fornu máli með nútímastafsetningu, ekki síst í kennslu. Í því samhengi má minna á það sem Jón Helgason ritaði í Handritaspjalli (1958):

Síðan fornsögur voru fyrst skrifaðar upp á Íslandi hefur verið hafður á þeim sá ritháttur sem skrifurum sjálfum og lesendum þeirra var tamastur. Fjórtándu aldar menn skrifuðu eins og þeim var lagið, fimmtándu aldar menn sömuleiðis, og svo koll af kolli. ..... Þeir sem nú láta prenta íslenzkar fornsögur með rithætti vorra daga, breyta því í fullu samræmi við þá venju sem tíðkazt hefur á Íslandi frá alda öðli (Hdrspj 23–24).


Jón G. Friðjónsson, 13.10.2017

Lesa grein í málfarsbanka

af-lag h. † ‘slátrun’; sbr. leggja af (sér), sbr. einnig frálag og aflóga og so. að leggja. -langur l. ‘meiri á lengd en breidd eða þykkt’; sbr. nno. avlang, d. aflang, lat. oblongus; af langur og af- (2) (e.t.v. í herðandi merkingu).