aflagislegur fannst í 3 gagnasöfnum

Nafnorðið aflagi, hk. merkir eiginlega ‘aflag; það sem víkur frá (réttu) lagi’ en nútímamerkingin er ‘illa gerður hlutur; afmán, ómynd’. Framburður orðsins hefur breyst í aldanna rás, hann má gróflega tákna [ab:laijI]. Framburður gefur því litla vísbendingu um upprunann og kann það að valda því að orðið er trúlega flestum ógagnsætt. 

Elstu dæmi um orðið eru úr Viðeyjarbiblíu (1841):

Aflagið gægist inn um dyrnar í húsið; en sá velsiðaði maður stendur þar fyrir utan (Sír 21, 25 (Við));
Þá varð Sál illur við Jónatan og mælti: Þú ert sonur aflægisins og þrákálfsins (1. Sam 20, 30 (Við));
jafna þú ekki þinni ambátt við aflægi (1. Sam 1, 16 (Við)).

Það er auðvitað alkunna að elsta dæmi um tiltekið orð gefur í besta falli vísbendingu um raunverulegan aldur, það er jafnan tilviljun hvenær orð ratar á bókfell eða pappír. Hvað varðar orðið ablagi þá er það sannanlega talsvert eldra en elstu heimildir því að Árni Magnússon tilgreinir hið afleidda lo. aflagislegur (f18 (ÁMSkr II, 169)).

Jón G. Friðjónsson, 21.5.2016

Lesa grein í málfarsbanka