alloft fannst í 3 gagnasöfnum

alloft atviksorð/atviksliður

frekar oft

hópurinn hittist alloft fram að áramótum


Fara í orðabók

Ritað er alloft í einu orði.

Lesa grein í málfarsbanka


Forskeytið all- var í fornu máli herðandi merkingar (‘afar, mjög’), sbr.:

Og er nú Þormóður allvel látinn [‘mjög vel liðinn’] með hirðinni (ÓHLeg 53 (1225–1250));
*Alloft verður í hreggi svalt [‘mjög oft verður kalt í hreggviðri’] (Mhkv 21);
En alloft [‘mjög oft’] kann þó svo til að bera meðan maður er staddur fyrir ríkum mönnum að aðrir menn þyrpast að manni og spyrja mann þá margs meðan (Kgs 47–48 (1275));
og voru þær sviptingar allharðar [‘mjög harkalegar’] og eigi lengi áður er Þór féll á kné öðrum fæti (SnE 58);
Eg er berdreymur sem eg á kyn til og hefir mig einkar órýrlega dreymt um mig en allrýrlega um þig og mun það eftir ganga [‘koma fram’] sem mig hefir um þig dreymt (ÍF VI, 138).

Merking forsk. all- kemur einnig vel fram ef skoðuð eru mismundi afbrigði ‘sama’ texta, t.d.:

barðist afburðar vel (Flat III, 504) = barðist alldjarflega (Fris 515; Eirsp 604 o.v.).

Gamla merkingin (‘afar, mjög’) virðist nánast einhöfð fram á 19. öld, t.d.:

hef eg nú ei presta aflags [‘aflögu’] því þeir eru ekki til en allvíða [‘mjög víða’] vantar í staðinn þeirra sem upp eru gefnir og úr fatinu detta [‘hætta störfum’] (GÞBr 63 (1574));
Aldraður maður er allvísari [‘miklu vísari’] en ungbörn (f19 (GJ 26));
Þessa stund alla var Laurentius prestur í Noregi í allgóðu [‘mjög góðu’] yfirlæti erkibiskups (f19 (JEsp I, 18)).

Um miðja 19. öld má sjá dæmi um merkingarbreytinguna: all ‘afar, mjög’ > ‘frekar, nokkuð’, t.d.:

gengur kölska allvel [‘mjög vel’ (‘bærilega’)] að slá botninn í hjá honum (m19 (ÞjóðsJÁ II, 19));
Norðan að hafa borist fréttir um allgóða árferð (Rvp II, 91 (1848)).

Í Kleyfsa Jóns Árnasonar frá miðri 18. öld er einungis eldri merkingin tilgreind; í Orðabók Björns Halldórssonar frá síðari hluta 18. aldar er eldri merkingin tilgreind en einnig yngri merkingin að því er mér virðist:

það líkar mér allvel [‘afar vel’], það fellur mér vel í geð (m18 (Nucl 280));
allvel, per bene, optime, meget vel, ret [‘nokkuð, frekar’] vel (s18 (BH 42)).

Ef skilningur minn á d. ret vel, sbr. skýringu við allvel hjá BH, er réttur er það elsta vísbending um breytta merkingu.

Ég tefli þessum skýringum fram mér til gamans og vonandi einhverjum til fróðleiks en hlýt að setja þann fyrirvara að þetta efni verður að kanna miklu betur til að niðurstaðan geti talist traust.

***

Í pistlum mínum mun ég hafa vikið að ofnotkun nafnorða eða því sem kalla má nafnorðahröngl eða kannski ‘substantívítis’ eins og ég heyrði þessa áráttu kallaða fyrir liðlega fjörutíu árum. Eftirfarandi dæmi skulu lögð í dóm lesenda:

þess vegna var tekin nokkur áhætta í þessari rafrænu fyrirlögn [samræmdra prófa] (8.3.18, 15);
Menntamálastofnun skal stuðla að auknum gæðum skólastarfs [‘skal leitast við að efla/bæta skólastarf’] (18.3.18, 12);
Í skýrslu hópsins er að finna samanburð fyrirkomulags við launaákvarðanir hjá kjörnum fulltrúum ... (15.2.18);
Með því fyrirkomulagi að laun taki endurskoðunum eftir að launaþróun næstliðins árs liggur fyrir (15.2.18);
... myndi kjararáðshópurinn að meðaltali taka hækkunum sem ekki eru í ósamræmi við almenna launaþróun (15.2.18).

Ekki er öll vitleysan eins (þá væri ekkert gaman að henni)!!

Jón G. Friðjónsson, 20.4.2018

Lesa grein í málfarsbanka