alltént fannst í 4 gagnasöfnum

alltént (einnig alltjent) (sjá § 3.5 í Ritreglum)

alltént atviksorð/atviksliður
gamaldags

að minnsta kosti, allavega


Fara í orðabók

Orðið alltént skiptist þannig milli lína: allt-ént.

Lesa grein í málfarsbanka


Orðasambandið alla jafna merkir ‘oftast (nær), jafnan’, sbr. eftirfarandi dæmi:

því alla jafna er ég við það heygarðshornið [þ.e. við ritstörf], bæði af skyldu og líka mér til afþreyingar (KGBr 217 (1884));
að landinu væri engra framfara auðið heldur væri það alla jafna að ganga úr sér og mundi smám saman eyðast meir og meir þar til það félli í grunn (m19 (JSigVarn 7));
hann sat jafnan í kastala sínum, þreyði alla jafna móður sína (m19 (ÞjóðsJÁ II, 344));
Grund hefir alla jafna þókt eitthvert hið mesta höfuðból (ÞjóðsJÁ II, 98);
að Hjaltabakkaprestar hafa alla jafna viljað lafa á veiðinni fyrir sínu landi (ms18 (ÆvÞPét 428));
þeir snuðra alla jafna og snapa eftir meiri og meiri ábata (m18 (JÓlKlím 96)).

Einnig er kunnugt afbrigðið alla jafnan, tilgreint sem allajafna og allajafnan í Orðabók Blöndals, og þá mynd notar Jón Kalmann Stefánsson í nýjasta verki sínu:

en jafn heitur og hann er alla jafnan í þessu máli, verkfallinu ... þá skiptir það bara ekki rassgat máli núna (JKStef17, 14).

Þrátt fyrir mikla leit að hliðstæðum og dæmum sem gætu skýrt það sem liggur að baki orðasambandinu verð ég að viðurkenna að ég hef enga skynsamlega skýringu. Elsta dæmi sem ég hef rekist á er úr Heilræðarímu Jóns Bjarnasonar til sonar síns Illuga, talin ort um 1600:

*Hugsaðu um, hvað hentast er / á hverjum degi að safna / og eftir sækja til auðnu þér / alla tíma jafna (Blanda II, 86 (1600)).

Dæmið gæti bent til þess að orðasambandið sé liðfellt:
alla tíma jafna > alla jafna.

Þessi tilgáta virðist koma vel heim og saman við merkingu orðasambandsins en eitt dæmi getur naumast talist traust undirstaða.

***

Atviksorðið alltjafnt í merkingunni ‘ávallt’ kemur fyrir í Sigurðar sögu þögla (Sþögl 164), sbr. einnig Reykjahólabók:

skínanda stjarna hafði farið allt jafnt fyrir [‘á undan’] þeim bæði nætur sem daga (m16 (Reyk I, 14)).

Ao. alltjafnt mun naumast notað í nútímamáli en það lifir enn í myndunum allt·jent, all·tént og all·ténd. Mér er til efs að þessar orðmyndir séu ungu fólki tamar. Til fróðleiks tefli ég fram örfáum dæmum sem rekið hefur á fjörur mínar:

1. ‘hvað sem öðru líður; þó ekki væri nema’:
Það er þó alltjent betra að fá hálfan styrk en engan (2016);
ef verða mætti, er Pétur gengi hjá, að alltént skugginn af honum félli á einhvern þeirra (Post 5, 15 (2007)) = þótt ekki væri meira en að skuggann af Pétri ... skyldi bera á einhvern þeirra (1912) = félli að minnsta kosti skuggi hans á einhvörn þeirra (1841);
Það lá alltént að en væri nú óskandi að það [málefni] dæi ekki í fæðingunni (MGrÚrv 117).

2. ‘alltaf, ætíð’:
með alls kyns staðhæfingum sem ég gat ekki alltént hrakið sakir vankunnáttu og reynsluleysis (SAMJak 116);
Það var altént passi hennar [‘venja hennar’] að fara ofan og kveikja í myrkrinu á kvöldin (m19 (ÞjóðsJÁ2 III, 238)).

3. ‘að minnsta kosti’:
hennar [kirkjunnar] þjónar fengu þó altént að halda lubbanum (m20 (BergJMann 245 (OHR))).

***

Nýlega rakst ég á einhvers konar kjörorð ónefnds tryggingafélags:

Hugsum í framtíð (25.1.18).

Þetta var margendurtekið og trúlega hefur tryggingafélagið greitt auglýsingastofu vel fyrir snilldina. Hvað merkir þetta eiginlega? Hver er hugsunin? Eiga lesendur kannski að hætta að hugsa núna og hugsa einungis í framtíðinni – eða kannski um framtíðina? Eða er tilgangurinn einungis sá að vekja athygli?

Jón G. Friðjónsson, 16.2.2019

Lesa grein í málfarsbanka

altént, alltént ao. (18. öld) ‘alltaf, hvað sem öðru líður’ < allt jafnt. Sjá jafn.