andstyggur fannst í 2 gagnasöfnum

Fremst í 249. pistli nefndi ég að ein grunnmerkinga fs. væri ‘samkvæmt; í samræmi við’, t.d.:

að fornum sið; að eðlisfari/upplagi; að lögum ...

Því miður urðu mér á þau mistök að tilgreina ranglega undir þessum lið orðasambandið yfirlögðu/(yfirveguðu) ráði. Það á vitaskuld ekki heima þarna þar sem orðskipunin er önnur (að + lh.þt. + þgf.) og merkingin vísar til tíma, eins og glöggir lesendur bentu á og fram hefur komið í nokkrum fyrri pistla minna. Ég harma þessi mistök og hef nú fellt orðasambandið niður á þessum stað.
                                      
Orðasambandið af + þgf. í háttarmerkingu er algengt frá fornu máli til nútímamáls. Það er opið eða frjótt í þeim skilningi að eftir þessu munstri má mynda ótölulegan fjölda dæma, sbr.:
 
Af öllu hjarta (Leif 167 (1150));
reiðir þá hamarinn af öllu afli (SnE 52);
Elskaðu guð af öllu hjarta þínu og af öllu afli þínu og af öllum mætti þínum (5. Mós 6, 5 (Kgs 3 (1275)));
fór þetta allt af hljóði í fyrstu (ÍF XXXIV, 215);
segir föður sínum af launungu (ÍF XII, 168);
þá bjóst hann í brott úr bænum og mjög af skyndingu (Sv 123);
reka erindi af miklum skörungsskap (fm15 (Heil I, 386));
Mælti Amlóði eitt orð af viti, og ekki af viti (s17 (GÓl 2428));
í því aftur á mót, sem þeir neita sé til orðið af tilviljun (s19 (TBókm XIX, 7)).

Mér virðist orðasambandið af ásettu ráði vera af þessum meiði, sbr. eftirfarandi dæmi:
 
þetta fólk virtist af ásettu ráði æsa sig upp (Móð II, 68);
hann var að stríða henni af ásettu ráði (Móð II, 83);
gjört af ásettu ráði (Tíminn 16.6.1873, 139);
prestaskóli þessi er ekki búinn til af rasandi ráði (Árrit Prestask. 1850, 21);
leitast við af ásettu ráði að eyða þeim til fulls og alls (Rvp I, 157 (1847));
margoft er þess vegna efni af ásettu ráði ekki skoðað (Fjöln V 1, 118 (1839));
Það er gert af ásettu ráði (Fjöln II, 20 (1836));
uppihélt mér þar svo lengi af ásettu þar til að allir ... voru í burt (Safn XI, 125 (1669)).

Af dæmunum má ráða að málbeiting virðist í býsna föstum skorðum í dæmum af þessum toga.

Í umræddum pistli (249) gerði ég breytinguna að > af við tilteknar aðstæður að umtalsefni, sbr.:

heldur verðið þið myrtir af [þ.e. að] yfirveguðu ráði (Sjónv 26.3.10);
Ég geri þetta af [þ.e. ] yfirlögðu ráði (12.10.08);
... hann hafi myrt hana af [þ.e. ] yfirlögðu ráði (19.2.13);
miklar líkur voru taldar á því að hann hefði af [þ.e. ] yfirlögðu ráði ætlað að smygla steini sem fannst í farangri hans úr landi (14.3.13).

Í sama pistli komst ég svo að orði að farið væri að fenna yfir þann merkingarmun sem héldi orðasamböndum af gerðinni að yfirlögðu ráði og af ásettu ráði aðgreindum. Núna finnst mér ég hafa dregið ranga ályktun af fáum og einsleitum dæmum. Hið rétta finnst mér vera að munurinn á
orðasamböndum 1 og 2 er nánast ávallt skýr eins og dæmin sanna.

1. að + lh.þt. + þgf. (tími): að teknu tilliti til e-s; að gefnu tilefni ..... 
2. af + þgf. (háttarmerking): af ásettu ráði; af ráðnum hug .....
3. af + lh.þt. + þgf.: af gefnu tilefni; af yfirlögðu ráði ...

Frávik frá munstrum eitt og tvö má rekja til áhrifsbreytinga, þ.e.:

að gefnu tilefni  > af gefnu tilefni (3), sbr. í tilefni af e-u; af e-u tilefni.
að yfirlögðu ráði  > af yfirlögðu ráði (3), sbr. af ásettu ráði.

Loks skal á það bent að munstur (orðskipanir) 1 og 2 eru gömul og bráðlifandi en munstur 3 er ungt og lokað í þeim skilningi að það er bundið við fremur fá orð, einkum ráð og tilefni. – Merking forsetningasambanda er ekki einungis orðfræðileg heldur ræðst hún einnig af því sem kalla mætti hlutverksmerkingu (tími, rúm, hreyfing o.s.frv.). Ég fæ ekki séð að orðskipun 3 hafi neina sérstaka hlutverksmerkingu og í framhaldi af því verð ég að viðurkenna að ég sé engan merkingarmun á orðasamböndunum að gefnu tilefni og af gefnu tilefni; ég hef ekki séð nein dæmi er sýni þennan mun.

*****

No. andfælur (kvk.flt.) merkir ‘ofboð í svefni’.  Ásgeir Blöndal segir að forliðurinn and- hafi hér svipaða merkingu og í andstyggur, sbr. andstyggilegur ‘viðurstyggilegur’. Það er einkum algengt í orðasambandinu vakna/hrökkva (upp)/ rjúka upp með andfælum, sbr. Göngu-Hrólfs sögu:

Hrólfur vaknar með andfælum og sprettur upp (FN II, 375 (1500-1525)).

Svipað orðafar í nokkuð annarri merkingu er að finna í Ævisögu Jóns Ólafssonar Indíafara:

PJ ... sleppti stýrinu; en PvB .... hljóp í andfælum upp til stýrisins (m17 (JÓlInd 225)).

Jón G. Friðjónsson, 7.12.2018

Lesa grein í málfarsbanka

and-skoti k. ‘andstæðingur, fjandmaður; satan’; sbr. nno. andskate, andskote ‘maður sem hegðar sér illa’; eiginl. ‘sá sem skýtur gegn’, leitt af so. *and-skeutan, sbr. fe. onscyte ‘árás’. Sjá skjóta. -spæna s. (19. öld) ‘annast gegningar, fóðra búpening (í húsum að vetrarlagi)’. So. er efalítið leidd af ao. andspænis ‘gegnt, á móti’ (sk. spónn, sbr. nno. andspønen ‘öfugsnúinn, þver’), og vísast ung, e.t.v. upp komin í orðaleik eða gátum, sbr. gegngegna: andspænisandspæna. -stefja kv., -stefna kv. † ‘svar í kirkjusöng’; orðið er líklega ummyndun úr to. antefna (s.þ.), en hefur verið tengt við ísl. orðin stef og stefna (2). -styggur l. † ‘viðurstyggilegur’; sbr. andstyggilegur l. og andstyggð kv. ‘viðbjóður’; sbr. fær. andstyggiligur og andstygð (s.m.), fsæ. andstygger ‘viðbjóðslegur, skelfilegur’. E.t.v. leitt af so. *and-stug(g)ian ‘skelfa, hræða burt’, sk. stuggur og styggur (s.þ.). -svipt kv. (18. öld) ‘lykkja eða smeygur (á beisli, svipu, ístaði o.fl.)’. Sjá svift. -sælis ao. ‘móti sól’; sbr. nno. andsøles, andsølt, fsæ. andsylis. Sjá sól. -úð kv. (nísl.) < *and-hugð, sbr. alúð og hugð og hugur og andýðis ao.