báðar fannst í 4 gagnasöfnum

báðir báðar; bæði báðir drengirnir fóru; bæði börnin komu; beggja vegna götunnar; vera beggja blands

báðir fornafn
um tvo eða tvennt

allir af tveimur, bæði annar og hinn af þeim eða því sem um er rætt

leggist á bakið, lyftið fyrst öðrum fætinum, svo hinum og loks báðum í einu

hún faðmaði okkur og kyssti á báðar kinnar

bæði hjónin eru komin á eftirlaun

eruð þið báðar tvær búnar að lesa bókina?

krakkarnir litu vel til beggja átta áður en þeir fóru yfir götuna


Fara í orðabók

Óákveðna fornafnið báðir er notað um það sem telja má með töluorðinu tveir, tvær, tvö (ekki um það sem talið er með töluorðinu tvennir, tvennar, tvenn). Jóna og Sigga komu báðar. Þegar rætt er um einhverja tvenna (t.d. Rússa og Svía) er hins vegar betra að tala um t.a.m. herbúnað hvorra tveggja. Betra er að segja hvorar tveggja buxurnar en „báðar buxurnar“.

Lesa grein í málfarsbanka


Beggja vegna  – báðum megin  – beggja megin. – Orðasam­band­ið beggja vegna (e-s/við e-ð) á sér ýmsar samsvaranir í fornu máli, sbr. 96. pistil,  og sambandið báðum megin (e-s/við e-ð) [< báðum veg­um] er kunnugt í fornu máli, t.d.:

báðum megin ár (IslDipl 335 (1439));
fylldi allan farveg upp á bakkana báðum megin (m14 (Stj 354)).

Við samfall orðasambandanna tveggja varð hið þriðja til: beggja megin (e-s/við e-ð). Það kunnugt frá 16. öld, m.a. úr Guðbrandsbiblíu (1584):

þar stóðu næsta mörg tré hjá strönd­inni beggja megin (Esek 47, 7 (GÞ));
sá ég mjög mörg tré á fljóts­bökk­un­um beggja vegna (Esek 47, 7 (Við));
hjá ströndinni við sama vatnsfall beggja megin skulu vaxa allra handa frjósamleg aldintré (Esek 47, 12 (GÞ));
Með fram fljótinu á vatnsbökkunum beggja vegna ... (Esek 47, 12 (Við)).

Orðasambandið báðum megin við e-ð á sér fjölmargar hliðstæður, t.d.:

hinum/­þeim/­­öðr­um megin við e-ð.

Um notk­un þeirra skal minnst á tvennt. Í fyrsta lagi er algengt að nota eignarfall í stað fsl. við + þf., t.d.:

Báðum megin árinnar;
hérna megin lækjarins;
sunnan megin hússins o.s.frv.

Í öðru lagi er algengt að nota styttri myndina (hinu, réttu ...) í stað lengri myndarinnar (hinum, réttum ...) (oft ritað í einu orði), t.d.:

Vera réttu megin við strikið;
fara öfugu megin fram úr (rúminu);
hinumegin við girð­inguna;
halda sig sínu megin í garðinum o.s.frv.

Jón G. Friðjónsson, 20.8.2016

Lesa grein í málfarsbanka


Óákveðna fn. báðir (kk.), báðar (kvk.), bæði (hk.) er að ýmsu leyti vandmeðfarið. Það er oftast notað til að vísa til tveggja sem hvor um sig er eintala:

báðir strákarnir; báðar stúlkurnar; bæði börnin.

Hins vegar er það helst ekki notað með fleirtöluorðum en með þeim er notað fn. hvor tveggja:

?bæði skærin; ?báðar buxurnar; ?báðar börurnar; ?fara á báða tónleikana;
hvor tveggja skærin; hvorar tveggja buxurnar; hvorar tveggja börurnar, fara á hvora tveggja tónleikana.

Frávik frá hefðbundinni málnotkun eru af ýmsum toga og reyndar er nokkuð flókið að greiða úr flækjunni. Hér skal einungis nefnd tvenns konar óregla.

(1) Óákveðna fn. hvorugur er notað í andstæðri merkingu við fn. báðir en fornöfnunum slær þó stundum saman, t.d.:

Fátt bendir til að þessi stríðshætta líði hjá á meðan báðir deiluaðilar gefa ekkert eftir [‘hvorugur deiluaðila gefur ekki neitt eftir’] (9.2.18, 25);

(2) Þar sem fn. báðir er ekki til í et. gætir þess nokkuð að bætt sé úr því, ef svo má segja, með því að búa til nýja et.-mynd (*bæði, *bæði, *báðu, *bæðis), t.d.:

Viltu mjólk eða sykur út í kaffið? – Bæði [þ.e. hvort tveggja], takk;
Viltu meiri mjólk og sykur út í kaffið? Meira af báðu [þ.e. hvoru tveggja], takk;
Það má færa rök fyrir báðu [þ.e. hvoru tveggja] [þjóðaratkvæðagreiðslu sér eða einnig um stjórnlagaþingið] (21.2.11).

Nýja et.-myndin er þó ekki alveg ný af nálinni, sbr. eftirfarandi dæmi:

Bæði var, að biskup M. Jón var ekki haldinn ásvellur [‘ágengur, harður’] með þá afhending og þar með væri svo í garðinn búið (f18 (JHBisk I, 353)).
Eigi skal nú hvort tveggja gera, vera í kallsi [‘þrætum’] með yður enda halda eigi ummæli þau, sem þér biðið (Flat I, 386 (1387–1395));
Eigi skal nú bæði gera, vera í kallsi með yður enda halda eigi ummæli þau er þér biðið (ÓT III, 19 (1375–1400));
en það er og bæði að eg hefi lítt til ráða hlutast og vill þú að eg ráði litlu (ÍF IX, 4 (1330–1370)). 

Í fyrsta dæminu (úr Biskupasögum Jóns Halldórssonar), þriðja dæminu (úr Ólafs sögu Tryggvasonar) og fjórða dæminu (úr Víga-Glúms sögu) virðist orðmyndin bæði geta vísað til eintölu (‘hvor tveggja’), sbr. dæmið úr Flateyjarbók.  Ekki er þó allt sem sýnist.Vera má að þarna gæti áhrifa frá samtengingunn bæði ... og en hún er algeng í fornu máli og fram í nútímamál, einnig afbrigðið bæði ... enda, t.d.:
lýsa honum dálítið eftir þeim kynnum, er ég hafði af honum, bæði af eigin reynd og að nokkru leyti af afspurn (f20 (HÞor 105));
ekki mundi matur þar [í himnaríki] aflögu þar sem bæði væri illt og langt til aðdrátta (ÞjóðsJÁ V, 362);
sníða hverjum skó eftir sjálfs sín vexti og viljaburði en ætla Guði ekkert utan það, sem þeim verður afgangs, bæði ráðanna, afls og vitsmuna (m17 (JMPísl 77));
Var síðan búið til veislu mikillar ... var þar bæði fjölmennt og góðmennt (s13 (Fris 542));
ágætur maður bæði að ætt og ásýndum (ÓT I, 112);
Sigmundur var þá níu vetra, bæði mikill og mannvænlegur að jöfnum aldri (ÓT II, 35 (1350–1375)); taka þá aflaga [‘móti/andstætt lögum’] bæði mat og mungát (Sv 123 (1300));
Eigi fer eg oft til að vinna en bæði skal þá gera mikið að og búast vel til (ÍF IX, 27 (1330–1370)).

Í ofangreindum dæmum virðist ljóst að um er að ræða samtengingu (bæði ... og) en í síðasta dæminu svipar fyrri hlutanum (bæði) að merkingu nokkuð til hvorugkynsmyndarinnar hvort tveggja. – Til fróðleiks skal þess getið að kunn eru dæmi um samtenginguna hvort tveggja ... og, t.d.:

Söðull hennar var hvorttveggja [bæði] víður og hár (f20 (FGEnd I, 20)).

Þetta þarf allt að athuga nánar. Hér er þessu teflt fram til umhugsunar frekar en sem skýringu. Enn fremur er rétt að benda á að hér sem svo oft endranær á ‘reglan góða’ við: Undantekningin sannar regluna.

***

Orðatiltækið ganga sig upp að hnjám merkir ‘leggja á sig mikið erfiði; ganga fram af sér’ og mun það vísa til frásagna af Gyðingnum gangandi (m19 (ÞjóðsJÁ II, 47–49)) en þar segir frá Gyðingi sem var viðstaddur krossfestingu Jesú og hrópaði með öðrum:

‘Krossfestu hann en gef Barrabam lausan.’

Þá sagði Jesús:

‘Ég vil hvílast en þú skalt ganga.’

Síðan segir sagan að Gyðingurinn hafi æ síðan verið á gangi og lifi allt til þessa dags og sé nú genginn upp að knjám. – Ég lærði myndina ganga sig upp að hnjám í foreldrahúsum og hef hvergi rekist á aðra mynd. Nýlega rakst ég á eftirfarandi dæmi:

það sé spurning hversu margar ljósmæður sé hægt að kalla út því þær séu ansi fáar eftir. Þær ljósmæður sem staðið hafi vaktina frá því í byrjun júlí séu gengnar upp að öxlum (Mbl 18.7.18, 2).

Vafalaust voru ljósmæður þreyttar en varla þreyttari en Gyðingurinn gangandi, upp að öxlum, fyrr má nú rota en dauðrota!249. pistill (2018) (24.8.18)
Forsetningin er nokkuð margslungin að merkingu en ein grunnmerkinganna er ‘samkvæmt; í samræmi við’, t.d.:

að fornum sið; að eðlisfari/upplagi; að lögum; að mínu áliti/mati; að hennar sögn/sögn hennar; að frumkvæði e-s; að eigin frumkvæði; að réttu lagi; að undirlagi e-s; að vonum; að öllum líkindum; að óþörfu.

allt gekk að óskum; e-m er e-ð (mjög) að skapi; fara að ráðum/tilmælum e-s; breyta e-u að geðþótta; láta vel/illa að stjórn; hafa hér aldri að vorri vitund veiðvélar verið (Alþ III, 61 (1595)); skoða e-ð að vild/lyst sinni; tökum nú að guðs lofi [vilja (Eirsp 305)] gott ráð (Sv 56 (1300)). 

Sum þessara orðasambanda eru eldforn en langflestum er það sameiginlegt að vera gagnsæ og auðskilin, þau eru hluti af því kerfi sem íslensk börn drekka í sig með móðurmjólkinni.

Allt annað ferli (orsök, ‘hvers vegna’ (háttarmerking)) liggur hins vegar að baki orðasambandinu gera e-ð af ásettu ráði, sbr.:

vildi af ásettu [ráði] gera engum rangt (f18 (JHSkól 106));
*Af guðs ásettu ráði / um það Sakarías spáði (m17 (HPPass XVII, 3));
en þó óforvarandis en alleina af Guðs ásettu ráði vék á þann veg stýrinu sem skyldi (m17 (JÓlInd 225)).
 
Orðasamböndin gera e-ð að yfirlögðu ráði [‘þegar’ > ‘samkvæmt’] og gera e-ð af ásettu ráði [háttarmerking] er svipuð að búningi og vera má að þau séu í hugum sumra ekki ósvipuð að merkingu. Sé þetta rétt verður auðskilið hvers vegna þeim slær stundum saman:

Ég geri þetta af [þ.e. ] yfirlögðu ráði (12.10.08);
... hann hafi myrt hana af [þ.e. ] yfirlögðu ráði (19.2.13);
miklar líkur voru taldar á því að hann hefði af [þ.e. ] yfirlögðu ráði ætlað að smygla steini sem fannst í farangri hans úr landi (14.3.13).

Elsta dæmi sem ég hef rekist á um samslátt af þessu tagi er frá 19. öld:

hún er gjörð af yfirlögðu ráði (Norðanfari 9.7.1884, 40).

Þetta kann að benda til þess að frá síðari hluta 19. aldar, en einkum þó í nútímamáli, sé farið að fenna yfir þann merkingarmun sem hélt slíkum orðasamböndum aðgreindum.

***
Orðasambandið að því er í merkingunni ‘eftir því sem, í samræmi við það sem’ er af svipuðum toga. Það er algengt í síðari alda máli og fram í nútímamál, t.d.:

Allt er slétt og fellt að því er séð verður/að því er ég best fæ séð;
að því er ráðið varð af texta F (FærÓlH, xlvi);
Fátt er tíðindavert að því er fjárræktina snertir (Frjett 1873, 21);
hún ætlar að koma að mér skilst [< að því er mér skilst].

Orðasambandið er eldfornt:

Spekt merkist [‘má ráða af/samsvarar gulli’] í gullinu að því er Salómon sagði: ‘Girnileg görsemi [‘gersemi’] hvílist í munni spaks manns’ (Orðskv 21, 20 (Íslhóm 28v24)); 
gjörði hann aldri höfuðsynd, að því er lesið er (m14 (Pst 237));
töpuðust allir að því er eg hugða (m15 (Flór 164));
hún var mjög gömul og til lítils fær að því er mönnum þótti (ÍF VII, 245);
Sá varð atburður [að] því menn segja að ... (f14 (Heil II, 211));
Hann hló aldregi að því er sagt er (VerA 71 (1300–1325)).

****

Eftirminnileg orð

Í ævisögu Þórðar Sveinbjarnarsonar, háyfirdómara í Landsréttinum, sem hann ritaði sjálfur, segir:

Ágirndin gætir alltaf að sínu gagni og ekki að annarra, síst almenningsins, og spyr ekki ætíð svo nákvæmt að, hvort sér beri, heldur hvort færi sé á að ná (m19 (ÞSvÆv 60)).

****

Fyrir allnokkru eignaðist ég heildarútgáfu tímaritsins Sunnanfara. Þar rakst ég á Spakmælavísur eftir Guðmund Þorláksson (1852–1910), mag. art., er einnig var nefndur Glosi. Ég er að vísu ekki bókmenntamaður en tel þó við blasa að kveðskapur Glosa sé glæsilegur. Ég hef lengi haft áhuga á málsháttum en nánast hverju vísuorði í Spakmælavísum samsvarar málsháttur. Í næstu sex pistlum mun ég birta eitt erindi úr Spakmælavísunum í hverjum þeirra, án nokkurra skýringa, kveðskapurinn talar sínu máli:

Ástin mága oft er köld,
á hver dagur um síðir kvöld,
lík skulu vera gjöfum gjöld,
glópurinn margur kemst í völd.
(Sunnf XIII, 13 (1914)).

Jón G. Friðjónsson, 17.8.2018

Lesa grein í málfarsbanka

báðir, báðar, bæði, †bé̢ði, †báði fn. (st.) ‘hvorir tveggju,…’, ef.ft. beggja; sbr. fær. báðir, nno. både, beggje, sæ. båda, begga, d. både, begge, fe. bēgen þā, bā þā, fhþ. bēde, beide (ne. both, nhþ. beide); sbr. gotn. bai (bans, baim, baddje) og bajoþs. Fn.-stofninn (*ba(i)-) hefur tengst fn. þeir (einkum í ngerm. og vgerm.), báðir < *bai-þai-ʀ, á-ið e.t.v. úr þf. báða (< *banz þanz); loka-i-ið í bæði (sbr. gotn. ba þo) e.t.v. áhrif frá i í þessi (h.ft.). Ef. beggja svarar til gotn. baddje (< *bajjōn). Sk. lat. ambō, fi. u-bháu, fsl. o-ba, lith. a-bù ‘bæði’.