brennandi fannst í 6 gagnasöfnum

brenna 1 -n brennu; brennur, ef. ft. brenna brennu|hátíð

brenna 2 brann, brunnum, brunnið þótt allt brenni/brynni

brenna 3 brenndi, brennt hann brenndi sig; brennd vín

brennandi

brenna nafnorð kvenkyn

bál sem kveikt er af ákveðnu tilefni, svo sem á gamlárskvöld

það var alltaf brenna á gamlárskvöld


Sjá 2 merkingar í orðabók

brenna sagnorð

taka eld, eyðast í eldi

pappírinn brennur

húsið brann til grunna

eldspýtan brann upp

brenna til kaldra kola


Sjá 8 merkingar í orðabók

brenna sagnorð

fallstjórn: þolfall/þágufall

eyða (e-u) í eldi, láta (e-ð) loga

hún brenndi bréfin í arninum

hann brennir gömlu dagblöðunum

allur úrgangur er brenndur


Sjá 6 merkingar í orðabók

brennandi lýsingarorð/atviksorð

ákafur

hafa brennandi áhuga á <matargerð>


Sjá 2 merkingar í orðabók

brenna no kvk
brenna no kvk (samkoma við brennu)
brenna so

brennandi lo

Eitthvað brennur við, þ.e. eitthvað gerist, kemur fyrir. Ekki: „eitthvað bregður við“.

Brenna inni með eitthvað merkir: vera of seinn að gera eitthvað.

Brenna til kaldra kola.

Lesa grein í málfarsbanka


Sögnin brenna stýrir ýmist þolfalli eða þágufalli, allt eftir merkingu. Það merkir t.d. ekki það sama að segja ég brenndi timbur í gær og ég brenndi timbri í gær. Sé ætlunin að eyða í eldi stýrir sögnin þolfalli: brenna timbur, rusl, ónýt föt, ýmislegt drasl. Ef hins vegar ætlunin er að nota eitthvað til eldsneytis stýrir sögnin þágufalli: brenna timbri, olíu, bensíni, kolum.

Lesa grein í málfarsbanka


Tökuorð úr dönsku þóttu ekki til fyrirmyndar þegar undirritaður var í skóla upp úr miðri síðustu öld. Stundum var svo langt gengið að fordæmd voru alíslensk orð fyrir það eitt að þau áttu sér samsvörun eða hliðstæðu í dönsku. Eitt þessara orða var handklæði en eg minnist þess að mér var kennt að betur færi á að nota önnur orð um fyrirbrigðið, t.d. mætti nota þerru. Í Brennu-Njáls sögu segir þó:

Flosi hugði að handklæðinu og var það raufar einar og numið til annars endans (ÍF XII, 290).

Af þessu má sjá að íslensk orð þurfa ekki að vera dönsk þótt þau eigi sér beina samsvörun í dönsku.

En andstæðan er einnig kunn: orð sem gætu virst alíslensk eiga sér danskar rætur ef að er gáð.

Orðasambandið fúl alvara (Send VII, 144 (1816)), einkum e-m er fúlasta alvara (Send IV, 209 (1886)), er kunnugt frá 19. öld og þar liggur að baki d. fuld alvor ‘full alvara’.

Af sama toga er orðasambandið fúll fjandskapur (Send VII, 62 (1806)) og lýsingarorðið fúlskeggjaður (SjómVík 1948, 274), sbr. d. fuldskæg ‘alskegg’.

Lýsingarorðið frekjudós er kunnugt frá lokum 19. aldar (PÁrdLj 335 (OHR)) en rætur þess eru vafalaust danskar þótt samsvörunin sé ekki bein, sbr. d. frækketøs. Með hliðsjón af frekjudósinni hafa málhagir menn svo myndað orðin frekjudolla (Mbl 12.8.1961, 16) og frekjudallur (Spegillinn 22.tbl.1940, 179).

Sagnarsambandið brenna af er fengið úr dönsku (brænde af ‘hleypa af skoti’) en sá sem þetta ritar vandist því að það merkti ‘skjóta knetti (úr vítaspyrnu) fram hjá marki’, sbr. no. afbrennsla. Nú virðast margir nota það með vísun til þess er vítaspyrna er misnotuð hvort sem markmaður ver knöttinn eða skotið er fram hjá.

Fjölmörg önnur orð sem öðlast hafa þegnrétt í málinu eiga rætur sínar í dönsku þótt þau beri það ekki með sér, t.d. bandóður (< d. bindegal); goggunarröð (< d. hakkeorden) og dægurfluga (< døgnflue).

Jón G. Friðjónsson, 7.2.2015

Lesa grein í málfarsbanka


221. pistill
Veika sögnin brenna, brenndi, brennt er að því leyti vandmeðfarin að hún tekur ýmist með sér þolfall eða þágufall og liggur munurinn ekki ávallt í augum uppi. Að teknu tilliti til fárra dæma mætti hugsa sér merkingarskiptinguna svo:

Með þf.
1. ‘eyða með eldi’:
Játar að hafa brennt bílhræ (4.5.09); brenna bréfið; brenna e-n inni/á báli; brenna e-ð til kaldra kola;
Tínið fyrst illgresið og bindið það í bundin til þess að brenna það (Matt 13, 30 (1912)); Þjóðólfsmaður, sem nú hefir brennt sín skip og getur naumast aftur snúið (Launr 397 (1908));
hvern hann segist oftar en eitt sinn beðið [hafa] að brenna þessi blöð í vetur (Safn XII, 171 (1664));
báru bækurnar saman og brenndu þær öllum hjá veranda [að öllum ásjáandi (2007)] (Post 19, 19 (OG));
brenndi hann allan í framan (m16 (Reyk II, 53));
brenndi líkneskjuna (m16 (Reyk II, 3819).

Dæmi úr fornu máli:
brenna beinin (Pst 920); brenna rekkju­búnaðinn (Eyrb. 51. k.);
[lét] brenna öll önnur [skip] (Flat III, 209);
brenna borgina (Stj 385);
hann fari til og brenni sem skjótast þenna vargsham (15 (Álafl 103));
brenna kol til lédengingar (Grgk I, 235 (1250));
Far herskildi yfir og brenn allt og bæl svo sem þú mátt við komast og lát [á] því ganga í allt sumar (Jvs 48 (1275–1300)).

Öfund bítur skilning og brennir brjóstið og kvelur huginn (Alkv 107 (1200–1225));
brenndi syndir af munni hans (Leif 165 (1150)).

2. ‘steikja, svíða’:
brenna kaffibaunir;

3. ‘hreinsa’:
brennt silfur; (það er brennt fyrir e-ð);
                                                                                                                                
4. ‘valda sviða’:
brenna sig á e-u/sama soðinu; vera illa brenndur á e-u; brenna [sig; húð/hörund] í sólbaði.

Með þgf.:
5.1 ‘láta loga’:
Nokkru var brennt af þönglum. Þá var einnig allmiklu brennt af rekavið (m20 (GHagVirk 37));
stúdentar brenndu marxistiskum bókum fyrir utan háskólann í Berlín (m20 (Hrunad 243));
Finnur sagðist hafa keypt þá bók af konu einni, er ætlaði að brenna henni (f20 (EyjGÞjóðs 40));
Þeim er safnað saman og varpað á eld og brennt (Jóh 15, 6 (1912/81));
brenna stjörnuljósum (2.1.2006);
brenna kistunum (ÞjóðsJÁ I, 237);
vildi brenna því [trénu] (ÞjóðsMB 22);
hún var vön að brenna ljósi of nætur fyr hvílu sinni (f13 (Leif 136)).

5.2 ‘nota sem eldsneyti’:
brenna kolum; brenna olíunni/bensíni/miklu súrefni; brenna sauðataði; brenna miklu;
að skipsskrokknum gamla mundi verða brennt á Látrum (f20 (ThFrHák 94));
lét brenna þeim [innviðum úr kirkju] sem eldsneyti (s19 (BGröndRit IV, 544)).

5.3 ‘skjóta’:
brenndu þeir þrem rakettum (MGrÚrv 191).
***

Lo. öngulsár er kunnugt í ferns konar merkingu:

(1) ‘sár eftir öngul’ (um fisk):
Öngulsár fiskur forðast alla beitu (m19 (HSchev II, 5)).

(2) ‘sá sem ekkert veiðir;
Einu sinni bar þó svo til að hann [‘hinn dráttheppni’] sat lengi á fiskimiði og keipaði án þess að verða lífs var. Honum þótti þungt að róa öngulsár í land (f20 (ÞjóðsSigfSigf V, 50)).

(3) ‘sá sem hefur orðið fyrir vonbrigðum’:
hann [kaupmaðurinn] gat ekki látið þá [fátæklinga] fara öngulsára og lánaði þeim (f20 (EyjGMinn II, 61));

(4) ‘varfærinn’:
er mér ekki grunlaust að hann sé öngulsárari með bækur sínar síðan (ÚrfórJÁ I, 105 (1859)).

Fyrsta merkingin er orðrétt en hinar eru afleiddar, t.d. (1) ‘(um fisk) sár eftir öngul’ > (4) ‘varfærinn’. – Elsta dæmi um merkingu (3) er frá 17. öld.

***

Sumt er samt við sig:

En þá var sem jafnan verður þar er menn verða allmjög drukknir að næsta dag eftir varast flestir við drykkinn (ÓH 27–28 (1250–1300));
En þar varð, sem jafnan verður, þar er menn verða allmjög drukknir að hinn næsta dag eftir varast flestir menn við drykkinn (Hkr I, 287).

Jón G. Friðjónsson, 19.1.2018

Lesa grein í málfarsbanka

brennandi
[Læknisfræði]
samheiti mjög ertandi, vefeyðandi
[enska] caustic

brenna
[Læknisfræði]
[enska] burn

brenna so
[Læknisfræði]
samheiti brenna fyrir
[skilgreining] Eyðileggja vefi með því að beita vefeyðandi efni eða vefbrennsluáhaldi.
[enska] cauterize

brenna
[Brunatækni]
[skilgreining] að gangast undir bruna
[enska] burn

brenna
[Lögfræðiorðasafnið]
[skilgreining] Refsivert brot sem er fólgið í því að valda eldsvoða sem hefur í för með sér almannahættu, sbr. 164. gr. hgl.
[skýring] Hins vegar galdrabrenna.

brenna
[Bílorð]
[enska] burn

1 brenna, †brinna (st.)s. ‘loga, bála; eyðast í eldi’; sbr. fær., nno. brenna, sæ. brinna, d. brænde, fe. beornan, biernan, fhþ. og gotn. brinnan, nhþ. brennen, ne. burn. Sk. lat. fervēre ‘sjóða, ólga’, mír. berbaim (s.m.), af ie. rót *bh(e)reu- ‘ólga, vella’, sbr. brunnur, brugga og bruni. Í brenna hefur orðstofninn fengið n-innskeyti, ie. *bhre-n-u̯-, sem v-ið síðan hefur samlagast ɔ *brenwan > *brennan > brinna; e-ið í ísl. so. er komið frá ors. brenna. Af so. brenna er leitt no. brenna kv. ‘bál’; sbr. nno. brenne, sæ. bränne kv. Sjá brandur (1), brenna (2), bruna, brund, bruni og brunnur og ennfremur bráður, brauð, broð og brugga.


2 brenna (v.)s. ‘láta loga, eyða í eldi, svíða, nota sem eldsneyti,…’; sbr. fær. og nno. brenna, nsæ. og fsæ. bränna, nd. brænde, fd. brænnæ, fe. bærnan (ne. burn), fsax. brennian, fhþ. brennan, nhþ. brennen, gotn. brannjan; < germ. *brannian. Sjá brenna (1) og bruni. Af brenna er leitt brenni h. ‘eldiviður,…’.