brottu fannst í 2 gagnasöfnum

No. braut (kvk.) er skylt so. brjóta (braut, brutum, brotið), og merkir það í beinni merkingu ‘leið, slóð, lífsvegur (oftast notað í yfirfærðri merkingu)’, t.d.:

beina e-u inn á nýjar/aðrar brautir;
feta braut dyggðanna;
hætta sér út á hálar brautir/hála braut;
hugsa eftir svipuðum brautum og e-r;
leggja út á nýjar brautir;
ryðja brautina (fyrir e-u);
ryðja e-u/sér braut;
vera á réttri braut og
vera utan brautar.

Þegar í elsta máli eru þess fjölmörg dæmi að no. braut hafi glatað orðfræðilegri merkingu og standi þá sem ao. í hlutverksmerkingu, þ.e. orðasambandið fara á braut/brott/burt er hliðstætt e. go away og þ. weggehen. Til einföldunar má segja að grunnmyndir af ao. séu þrjár:

braut, brott og burt.
Af hverri myndanna þriggja eru kunn allmörg afbrigði.

1. Ætla má að myndin á braut (með vísun til hreyfingar) sé upphafleg, t.d.:

voru þeir á braut reknir (Elucid 32 (1150–1200));
þú ert á braut horfinn (f13 (Íslhóm 60r4)).

Þegar í elsta máli er styttri (liðfellda) myndin braut algeng:

þá óaðist hann og bað níðing braut fara (Leif 100 (1200–1225)).

Orðmyndin brautu (þgf. et.) vísar upphaflega til dvalar á stað:

var þá leiðið opið en lík hans var á brautu (Íslhóm 34r28).

Í fornu máli getur það einnig vísað til hreyfingar:

ef nokkur af þessum ... kemst með lífi á brautu (StjC 629 (1300–1325)).

Því má segja að þegar í fornu máli hafi þgf.-myndin brautu og þf.-myndin braut fallið saman í atvikslegum orðasamböndum.

2. Elstu dæmi um orðmyndina brott (< braut) eru frá miðri 13. öld (Grgk I, 128 (1250)), sbr. einnig myndina brutt (ÓH 177 (1400)). Af myndinni brott eru kunn ýmis afbrigði, t.d.:

á brott (AlexFJ 140 (1280));
á brottu (GyðKW 138 (1360–1370));
í brott (Jvs 108 (1275–1300));
í brottu (ÓH 178 (1250–1300));
brottu (Hsb 178 (1290–1334)).

3. Orðmyndin burt er yngst grunnmyndanna þriggja og er hún kunn frá lokum 14. aldar:

flýðu þeir þá burt með öll skip sín (Flat I, 123 (1387–1395)).

Af henni eru kunn ýmis afbrigði, t.d.:

á burt: gjöra ríki vort að spotti og háði þá er þeir koma á burt (AM81, 162 (1450–1475));
í burt: Þorkell sigldi þann dag í burt og austur í haf (Flat II, 267);
í burtu: Batt hann ekki lengi skó sína og lagði halann á bak sér og setti í burtu svo að hvorki sá af honum veður né reyk (Flat II, 51 (1387–1395));
burtu (m16 (Matt 10, 11 (OG)).

Af grunnmyndunum braut, brott og burt eru kunn miklu fleiri afbrigði en hér hafa verið talin en heildarmyndin ætti þó að vera nokkuð skýr og á það jafnt við um einstakar orðmyndir sem aldur þeirra. Hins vegar vantar dæmi til að fylla myndina og sýna fjölbreytileikann. Það verður að bíða útgáfu sögulegrar orðabókar sem telja má eitt mikilvægasta verkefni á sviði íslenskra fræða.

Jón G. Friðjónsson, 1.10.2016

Lesa grein í málfarsbanka

brott(u) ao. ‘burt(u)’, sbr. ao. braut(u); tvíhljóðið hefur styst (en samhljóðið lengst) vegna lítillar áherslu. Sjá brutt og burt (2).