déskoti fannst í 3 gagnasöfnum

déskoti -nn -skota

déskoti atviksorð/atviksliður

vægt blótsyrði (oftast í jákvæðum tón)

þetta tæki er déskoti sniðugt

hún sagði mér déskoti góða sögu af prestinum


Fara í orðabók

Ömmusystir mín í föðurætt hét Marta Margrét Jónsdóttir. Hún var fædd og uppalin í Mýrdalnum. Um miðja síðustu öld var hún heimagangur hjá foreldrum mínum, kom einkum til að spjalla við móður mína en naut einnig ráða hjá ‘frænda’, föður mínum, hann taldi m.a. fram fyrir hana. Einhvern tíma á þeim árum er Bjarni Benediktsson var bæjarstjóri (1940–1942) kom hún blaðskellandi, var mikið niðri fyrir og sagði:

„Guð almáttugur hjálpi honum Bjarna Benediktssyni, nú tekur gamli bakarinn hann.“

Hér á við hið fornkveðna: Full var sök feita uxans. Tilefnið var að bæjaryfirvöldum hafði orðið það á að tvískatta ömmusystur mína, lagt sína krónuna á hvora, Mörtu Jónsdóttur og Margréti Jónsdóttur. – Allt frá æsku hefur mér þótt gamli bakarinn gott heiti á myrkrahöfðingjanum en ég hef hvergi rekist á neinar heimildir um það.

Danir segja að kært barn hafi mörg nöfn og þótt naumast verði talið að andskotinn geti verið mörgum kær gengur hann undir mörgum heitum í íslensku, t.d.:

ári, déskoti, djöfull, drýsildjöfull, fjandi, fjári, skolli, skrambi og skratti.

Öll eiga þessi orð sína sögu, sum eru jafngömul elstu heimildum, t.d. djöfull, fjandi og andskoti, en önnur eru yngri, t.d. fjári (s18), déskoti (m19), skrambi (m19) og skratti (m17). Hér skal litið nánar á eitt orð af þessum toga.

No. rækallinn merkir ‘djöfullinn, fjandinn, gamli bakarinn, skrattinn’. Það er kunnugt frá 17. öld:

Rækall en róða ekki (s17 (GÓl 2728));
Rækallinn, róðu ekki (s17 (GÓl 2729)).

Ásgeir Blöndal telur að rækall sé ‘samandregin orðmynd úr rægikarl’ en no. rægikarl er þó yngra, kunnugt frá fyrri hluta 18. aldar:

þá munu þeir eilíflega með honum verða, er vér rægikarl nefnum og hefur nafn sitt af því að hann áklagar Guðs útvalda dag og nótt (f18 (Víd 203)).

Ásgeir Blöndal telur enn fremur að no. rægikarl sé þýðing á lat. diabolus ‘rógberi’ (ÁBl). Skýringar þessar eru skemmtilegar en það dregur úr trúverðugleika þeirra að eldri myndin (rækall) er talin leidd af hinni yngri (rægikarl) auk þess sem fornmálsdæmi virðist geta bent til annars uppruna.

Í Sigurðar sögu Jórsalafara segir frá mannjöfnuði konunganna Eysteins og Sigurðar en hann spratt reyndar af fálæti eða deyfð Sigurðar. Lengi vel mátti ekki á milli sjá hvor væri fremri en þar kom að Eysteinn gumaði nokkuð af verkum sínum í Noregi, hann hefði reist kirkjur, hjálpað fátækum, látið gera hafnir og margt annað á þeim tíma er Sigurður lá í hernaði. Um herfarir Sigurðar tjáði hann sig síðan svo:

Nú er þetta smátt að telja [sem eg hef sagt af verkum mínum í Noregi] en eigi veit eg víst að landsbúinu gegni þetta verr eða sé óhallkvæmra en þótt þú brytjaðir blámenn fyrir hinn raga karl [fjandann (Fris 294)] og hrapaðir þeim svo í helvíti [til helvítis (Fris 294)] (Mork 384 (1275)).

Hér er hressilega að orði komist en ljóst er að hinn ragi karl vísar til hins forna fjanda, sbr. afbrigðið í Frísbók, einnig í Eirspennli (Eirsp 149). Ef þetta er rétt eru orðmyndirnar rækall og rægikarl afleiddar af formmálsmyndinni, nokkurs konar tæpiorð. Því er svo við að bæta að móðurbróðir minn tönnlaðist í tíma og ótíma á ræflinum, sagði oft:

Hver/Æ hver ræfillinn!

Það skyldi þó ekki vera að ræfillinn sé hér tæpiorð af rækallinn?

Jón G. Friðjónsson, 4.6.2016

Lesa grein í málfarsbanka