djöfulli fannst í 2 gagnasöfnum

djöfulli atviksorð/atviksliður

sterkt blótsyrði: ofsalega

djöfulli er þetta leiðinleg tónlist

mér gekk djöfulli illa á prófinu


Fara í orðabók

No. djöfull (kk.) kemur fyrir í elsta máli og er það tökuorð úr fornsaxn. diabol < lat. diabolus < gr. diábolos ‘rógberi’, sbr. rækallinn < rægikall.

Auk beinnar merkingar er það algengt sem blótsyrði, t.d.:
           
Hver djöfullinn er þetta?;
hvernig í djöflinum stendur á þessu?;
hvern djöfulinn [djöfulann (m20)] vilt þú upp á dekk?;
gefa dauða og djöful í e-ð ‘skeyta ekki um e-ð; standa á sama um e-ð’;
djöfulsins vandræði.

Myndin djöfulli (ao.) er nýmæli frá miðri 20. öld, sniðið eftir orðum eins og andskoti, ári, fjandi, fjári, skrambi o.fl., t.d.:

Djöfulli er maður þreyttur (s20 (ÁGEbro 76));
djöfulli myndarlegur (f21 (JKalmFisk 223));
að hún sé með djöfulli lítil brjóst (f21 (JKalmFisk 188));
Biðja mig ... Já, þig – djöfulli þá manneskjuna aðra (m20 (GHagalMÍsl 137)).
 

Orðasambandið djöfullinn danskur mun flestum kunnugt en er það nú alveg víst að gamli bakarinn sé danskur? Einhverju sinni sátu tveir íslenskir stúdentar að spjalli í kóngsins Kaupmannahöfn, annar ungur og óreyndur en hinn gamall og sjóaður. Þar kom að ungi stúdentinn lét í ljós að það hlyti að vera danska sem væri töluð í neðra. Reynsluboltinn taldi það af og frá, benti á að íslenska væri miklu eldra mál en danska, hún væri því málið þar á bæ. Ungi stúdentinn varð að fallast á þetta með semingi þó og sagði:

‘Aumingja Danir, skilja ekki sprokið’.

Mig minnir að Einar Gunnar Pétursson hafi sagt mér þessa sögu en ritaðar heimildir hef ég ekki.

***

Ýmislegt getur vakið athygli en það er allt önnur Ella að vekja upp draug. – Í nútímamáli virðist lengri myndin (vekja upp) sækja á, t.d.:

Ég vona að grein Vals veki upp mjög tímabæra umræðu um fagmennsku í listumfjöllun (22.10.08);
Veikindi Kims vekja upp vonir (15.9.08);
e-ð vekur upp (ýmsar) spurningar (7.7.08);
e-ð vekur upp harkaleg viðbrögð (26.2.10);
e-ð vekur upp hræðslu (26.2.10);
þessi staða vekur upp margar spurningar (5.12.16);
e-ð vekur upp efasemdir (2017) og
e-ð vekur upp athygli (2017).

Það má vafalaust telja smásmygli að gera athugasemdir við orðalag af þessum toga en ég er að því leyti líkur fiðlaranum á þakinu að ég vil halda í hefðina – standa á henni eins og hundur á roði ef því er að skipta.

Jón G. Friðjónsson, 4.3.2017

Lesa grein í málfarsbanka