fetóttur fannst í 2 gagnasöfnum

Lo. gráskjóttur (< grár + skýjóttur) vísar til litar á hesti en einnig er það notað í orðasamböndunum fari hann gráskjóttur; fari hann á gráskjóttum (SBl) og ýmsum fleiri í þeim dúr, t.d.: farðu gráskjóttur; farðu á gráskjóttum (Skírn 1.1.1927, 56). Þar er það notað sem (veikt) blótsyrði, oft í gamansömum tón, og virðist stofnorðið vísa til fjandans eða gamla bakarans, sbr.:

Jæja, þarna ertu þá kominn á ‘gráskjóttum’ og segi eg þig af alhug velkominn heim (SvSkBenJ 171 (1896));
bráðum ætla ég að koma aftur á gráskjóttum og biðja þig að hýsa mig eina nótt (Nf XXII, 51 (OHR));
Ef eg þyrfti ekki að gratúlera, þá fari það gráskjótt, ef eg skrifaði þér í þetta sinn (JSigBrN 44 (1846));
Fari nú gráskjóttur ólukku níræði karlinn (s18 (Vinagl 26)).

Mér virðist ekki augljóst hvað liggur hér að baki en frekar en ekkert skal drepið á nokkur atriði.

Í Píslarsögu Jóns Magnússonar (m17 (JMPísl 104)) vísar hinn fetótti (‘blettótti’) til myrkrahöfðingjans og í þjóðsögum greinir frá því er Sæmundur notaði skrattann sem reiðskjóta (í selslíki) (ÞjóðsJÁ I, 494). Bein merking orðatiltækisins kann að vera ‘farðu (grá)bölvaður’. – Þess skal getið að Guðmundur Finnbogason skrifaði ágæta grein m.a. um þetta efni: Bölv og ragn (Skírn 1.1.1927, 48-61).

***

Orðasambandið að minnsta kosti merkir ‘að lágmarki; hið minnsta; alltjent’, sbr.:
sú var að minnsta kosti von hans þó annað kæmi á daginn (s20 (SAMKal 87));
hefðu að minnsta kosti runnið á mig tvær grímur (f19 (SvKr73, 219));
þar mundi ég þó að minnsta kosti lúta í lægra haldi (f20 (HÞor 303));
bókleg menntun stendur að minnsta kosti mjög til bóta (Frjett 1871, 35);
en gáfur stúlknanna settar undir mæliask eður að minnsta kosti lítið haldið fram (LKrVestl I, 207 (1847));
að hún vitskert eða fálkuð [‘galin’] væri að minnsta kosti með köflum (Klp VIII, 11 (1825)).

Elsta dæmi um svipað orðafar er frá 16. öld:

[gjalda] minnsta kosti tvö vandarhögg (DI XIV, 535 (1566));
svo að minnsta kosti mætti þar lofun á komast (Safn XII, 5 (1652));
*Að minnsta kosti í mun [‘hug’] þó er (Snp I, 131 (1835)).

Í Hauksbók er dæmi sem virðist skylt þessu:

Veit eg að engi má við ástarleysi búa, æ verður [að] minnsta lagi sjálfum sér að unna (Hsb 310 (1302-1310)).

Jón G. Friðjónsson, 6.10.2017

Lesa grein í málfarsbanka