forbrekkis fannst í 2 gagnasöfnum

Í fornu máli gat fs. fyrir merkt ‘undan’ en í síðari alda máli varð breytingin fyrir > undan. Af henni leiddi m.a. að knattspyrnumenn tala nú um að leika undan vindi ‘með vindinn í bakið’ en ekki leika fyrir vindi. Hin forna notkun og merking helst þó í föstum orðasamböndum, t.d. í orðasambandinu hrekjast fyrir veðri og vindum. Þetta má t.d. sjá af eftirfarandi dæmi:

láta skúturnar svífa suður um Stað með landi [fram], fyrir [‘undan’] vindi um sundin (Sv 81).

Hina fornu merkingu fs. fyrir má sjá í fjölmörgum öðrum orðasamböndum. Sagnarsambandið ganga fyrir e-m/e-u getur t.d. merkt í beinni merkingu ‘ganga á undan’: 

NN gengur fyrir öðrum með góðu fordæmi;
enginn vildi fyrir öðrum ganga allt þangað til að þeir fylgdu fram sínu gamla lögmáli, að sá sem elstur væri skyldi fyrstur fram bera sitt offur (m16 (Reyk I, 12));
alla ævi sína hefði þeir [uxar] vanist [að ganga] fyrir arðri (f14 (Pst 591));
Tveir gengu fyrir hestum þeirra (Sturl II, 136).

Hin forna merking fs. fyrir ‘undan’ kemur einnig fram í ao. forbrekkis ‘undan brekku’ og forvindis ‘undan vindi’, t.d.:

Síðan lögðu lærðir menn reykelsi á glóð og lagði ilminn eigi síður í gegn [‘á móti’] vindi en forvindis [‘fyrir, undan vindi’] (ÓT II, 190 (1350–1375)).

Jón Ólafsson ritstjóri (1850–1916) var snillingur með stílvopnið og reyndist mörgum skeinuhættur. Hann var um tíma (1891) ritstjóri Lögbergs og þar skrifaði hann bráðsnjalla grein um íslensk samtímaskáld. Þar notar hann sagnarsambandið ganga fyrir e-u:

Matthías, Steingrímur og Hannes eru allir í embættum, hafa fengið aktygi spennt yfir vængina. Einn gengur fyrir plógi landstjórnarinnar, annar fyrir sáðvél skólans, þriðji fyrir herfi kirkjunnar (s19 (GGJÓl 215)).

Hér er myndmálið skýrt og afstaða Jóns til skáldbræðra sinna er jákvæð. Því var þó alls ekki alltaf að heilsa. Honum var mjög í nöp við Grím Thomsen eins og sjá má af eftirfarandi ummælum: 

Dr. Grímur er skálskaparlega talað að líkindum kominn úr barneign (s19 (GGJÓl 214)).

****

Er þetta hægt, Matthías?

Nýju reglurnar svipa til laga frá ... (Sjónv 16.5.18);
Stjórnvöld sem firrast [‘skirrast’] ekki við að maka krókinn á kostnað þeirra sem höllustum fæti standa (11.7.18, 18);
Ég var kannski ekki alveg að kaupa þetta með eldgosið (Sjónv 27.3.18);
Líklegt verður að telja að Kim vilji einungis kaupa stjórn sinni meiri tíma [‘vinna tíma’] (7.3.18, 18). [e. buy time]
Bjarni Fritzson þjálfari vann að [þ.e. af] klókindum fyrir leiktíðina (7.9.18, íþr 3).

****

Úr Spakmælavísum Glosa (6):

Leitt er að búa við lítinn hag,
leyfa skal að kvöldi dag,
örðugt er að byrja brag,
bragna hefir hver sitt lag.
(Sunnf XIII, 13 (1914)).

Jón G. Friðjónsson, 28.9.2018

Lesa grein í málfarsbanka

for-átta kv. ‘galli, löstur; †viðbára, sök: finna e-m e-ð til foráttu; harka, ofsi (í veðri); áhersluforliður: foráttubrim, foráttuveður’. Almennt er talið að hér sé um ummyndun að ræða á físl. forurtir (s.þ.), m.a. fyrir áhrif orða með viðsk. -átta eins og t.d. barátta. Ekki er þó óhugsandi að forátta sé < *forhátta, sbr. forhaga ‘misnota’, fsæ. forhägda ‘eyða’, af so. *fra-hagōn; sbr. haga og háttur (1). -boð h. ‘bann’; sbr. nno. og d. forbud, sæ. förbud, þ. verbot (s.m.), gotn. faurbiudan ‘banna’. Sjá bjóða. -brekkis ao. ‘undan brekku’, sbr. lo. forbrekk(u)r ‘sem hallar niður’ og forstreymis, forsæla, forsælis, forviðris, forvindis þar sem forsk. for- (< *fur(a)-) hefur merkinguna ‘undan, burt frá’ e.þ.h. -bænir kv.ft. ‘óbænir’; sbr. nno. forbøn ‘bölbænir, formæling’; for- í neikvæðri merk. eins og í formæla og forsköp (< *fra-).