fram fannst í 6 gagnasöfnum

fram aka fram dalinn; vaka fram eftir; fara fram hjá; hvað er fram undan?; greiða fyrir fram (sjá § 11 í Ritreglum)

fram atviksorð/atviksliður

um hreyfingu og stefnu áfram

hvor endinn á að snúa fram og hvor aftur?

leikmennirnir gengu í röð fram á gólfið


Fara í orðabók

Í Skagafirði, Eyjafirði og Þingeyjarsýslu getur atviksorðið fram merkt: suður. Fram í fjörð o.s.frv. Andstætt er út.

Lesa grein í málfarsbanka


Rita skal fram úr í tveimur orðum. Sjá § 2.6.1 í Ritreglum.

Lesa grein í málfarsbanka


Orðasambandið fram og aftur með vísun til stefnu er algengt í fornu máli, t.d.:

Þórir gekk eftir skipinu fram og aftur (ÓH 391 (1250-1300)); (Hkr II, 252);
Þá var hlaupið til austrar bæði fram [á skipinu] og aftur (Sturl I, 127).

Það er kunnugt í ýmsum afbrigðum, t.d.:

ganga aftur og fram um eyna (ÓTOdd 135);
hann kleif aftur og fram um bjargið (ÍF VII, 242);
fór hann nú aðra leið aftur en áður hafði hann fram farið (Mar 575);
gekk þar aftur og fram um gólfið (m16 (Reyk II, 18));
stökk upp fyrir hann fram og aftur (m16 (Reyk II, 297)).

Hin forna merking helst fram á 19. öld, t.d.:

þannig að eitt [skip] gengi í hverjum mánuði á sumrum fram og aftur milli Íslands og Kaupmannahafnar (Rvp II, 39 (1848)).

Orðasambandið fram og til baka er notað í mjög svipaðri merkingu og fram og aftur. Það á rætur sínar í dönsku og er elsta dæmi um það frá 17. öld:

heldur fór hann hingað og þangað, fram og til baka, leitandi alls staðar tilefnis (f17 (PangPost h, Vv (OHR))), sbr. einnig:

fylgd á hann ætíð skilið fram og til baka (m18 (ÆvÞPét 309));
flytja sitt eigið fram og til baka (f18 (Jarðab VI, 239)).

Sá sem þetta ritar telur að hið danskættaða orðasamband fram og til baka hafi nánast alveg gengið af orðasambandinu fram og aftur dauðu í merkingunni ‘á áfangastað og af; báðar leiðir’ og finnst ugglaust sumum engin eftirsjá að því. Atviksorðið aftur lifir hins vegar góðu lífi í öðrum samböndum, t.d.:

hverfa/snúa aftur og aftur til fortíðar; og eitt er að ganga aftur (afturganga) en annað að ganga til baka.

Enn fremur er merking orðasambandanna ganga fram og ganga aftur skýr, sbr. eftirfarandi dæmi:

þar sem menn kaupast við að lögum þá skal aftur ganga oftalt [‘oftalið’] en fram vantalt þar til sem þeir hafast réttar tölur við (Alþ III, 150 (1598)).

Og margir munu muna eftir vangaveltum Þórbergs Þórðarsonar um hina ‘sögulegu’ setningu sem ‘flæktist’ upp í huga hans:

Hann gekk aftur fyrir konunginn, þ.e. (1) ganga aftur [‘öðru sinni’] fyrir konunginn eða (2) ganga aftur fyrir [‘aftur fyrir bakið á k.’] konunginn.

Reyndar var Þórbergur að velta því fyrir sér hvort rita skyldi aftur fyrir í einu orði eða tveimur [Nokkur orð um skynsamlega réttritun (1941). Birt í Ritgerðir II, 87]. Grein Þórbergs er stórskemmtileg aflestrar en við blasir að efnið snýst fremur um merkingu en rithátt (setningafræði).

Auðvelt er að finna fjölmargar hliðstæður við dæmi Þórbergs og þá er það jafnan svo að önnur túlkunin er nærtækari en hin, t.d.:

1a. Hann gekk aftur fyrir kónginn
1b. (?)Hann gekk aftur fyrir kónginn
2a. (?)Hann gekk aftur fyrir húsið
2b. Hann gekk aftur fyrir húsið

Eg hygg að túlkun 1a (‘öðru sinni’) sé mun eðlilegri en skilningur 1b (‘á bak e-m’) en þessu er öfugt farið hvað varðar dæmi 2a og 2b. Það er tiltölulega auðvelt að skýra þennan mun eins og undirstrikanir gefa til kynna að viðbættum valhömlum en reynsla mín sem kennara hefur fært mér heim sanninn um það að einfaldast sé að benda á merkingarmun dæmanna, höfða til málkenndar manna.

Rétt og skylt er að geta að dæmi þar sem tveir kostir koma til greina eru auðfundin, t.d.:

3a. Hann settist upp í rúminu
3b. Hann settist upp í rúmið

Dæmi sem þessi (3a-b) eru til þess fallin að staðfesta mikilvægi merkingar og eru að breyttu breytanda af sama toga og dæmi (1a-b) og (2a-b).

Jón G. Friðjónsson, 18.3.2017

Lesa grein í málfarsbanka


Í fornu máli var algengt að atviksorð með forsetningu væri eftirsett, t.d. fyrir e-ð fram, sbr.:

að þú geymir vel trú þína og elskir guð fyrir alla hluti fram (m16 (Reyk I, 115));
En það vil eg að þú vitir fyrir alla hluti fram (s14 (Pst 50));
bjóða e-m e-ð fyrir allt fram (s14 (Heil II, 516));
hann lofa og dýrka fyr alla hluti fram (f14 (Pst 459));
Hreystimannlega er slíkt mælt en þó er ráðlegra að rasa eigi fyrir ráð fram (ÍF V, 167);
Maður skal guði unna fyrir hvetvitna fram (f13 (GNH 87));
fyrir lög fram (f13 (GNH 119)).

Sömu orðaröð má sjá í fjölmörgum föstum orðasamböndum, t.d.:
                                                                                                                     
deyja (langt (löngu)) fyrir aldur fram;
eyða e-u fyrir [sig] fram;
Að éta fyrir sig fram og borga í hægðum sínum er hámóðins í flestum viðskiptum manna (Blanda IV, 268 (1886));
efninu, sem hér átti við, er að nokkru leyti búið að eyða fyrir sig fram (m19 (Fjöln V 1, 123));
merki eg að yður þykir fyrir lög fram gjört verið hafa (Safn XII, 182 (1664)).

Í nútímamáli er stundum sagt deyja um aldur fram og rasa um ráð fram en naumast styðst það við málvenju. Hér mun merkingin ‘um of’ toga í, þ.e. um er að ræða samfall orðasambandanna fyrir e-ð fram og um e-ð fram, sbr. einnig e-ð er um of.  Elstu dæmi um breytinguna fyrir aldur fram > um aldur fram eru frá miðri 20. öld, t.d. (Móð I, 176). –  Það má telja álitamál hvort yngri myndirnar hafi unnið sér þegnrétt í málinu.

***
           
Orðasambandið ekki leið á löngu er að því leyti margbrotið í notkun að samtengingar sem því fylgja eru afar fjölbreytilegar (; áður en; uns; þangað til; þar til o.fl.).  Erfitt – og ástæðulaust – virðist að tefla fram reglum um þennan fjölbreytileika enda virðist merking og málkennd ráða för. Til gamans skulu tilgreind nokkur dæmi til að sýna notkunina:

:
Það leið ekki heldur á löngu að sinnaskipti kæmi yfir einn Velvakandann (s20 (JGuðnSkTh I, 97));
Það leið þó ekki á löngu að þau [fyrirmælin] kæmu (m20 (LKrVestl I, 166)).

áður en:
og líður nú ekki á löngu áður en hið dauða fer að skilja sig frá hinu lifandi (s19 (Lækn 11));
Ekki leið á löngu áður en mökkurinn hvarf (s19 (Úran 24));
Annars leið ekki á löngu áður en ég fengi atvinnu (m19 (BGröndRit IV, 458));
Leið svo ekki á löngu áður en Þuríður kom til Reykjavíkur (m19 (BGröndRit IV, 542)); Líður ekki á löngu áður en Jón kemur honum undir (m19 (ÞjóðsJÁ II, 276)).

fyrr en:
Það leið heldur ekki á löngu fyrr en systir mín kom með samanbrotinn tínupoka (m19 (JHRit I, 283)).

uns:
og ekki leið á löngu uns honum tókst að villa sýn hinu nærgætna auga fóstru sinnar (fm20 (ÞTEyfs I, 9)).

þangað til:
það leið eigi á löngu þangað til áraglam heyrðist (s19 (ÞBLestr 61));
Það leið ekki á löngu þangað til Baldvin tók til annarra starfa (NF VIII, viii (1848));
en ekki leið á löngu þangað til þeir sáu tvo menn ríðandi sem teymdu lausan hest (m19 (ÞjóðsJÁ II, 171)).

þar til:
En ekki leið þó á löngu þar til það barst út að (Mbl 24.9.06);
En ekki leið á löngu þar til menn áttuðu sig á því (s20 (HHMold 333));
það leið ekki á löngu þar til hann var kominn með verslun (KrMBald97, 258);
Já, það leið ekki á löngu þar til Bretar tendruðu hina gullnu von (m20 (Virk I, 87));
en það stóð ekki á löngu þar til hann hafði skellt þeim öllum (Alm 1890, 62 (OHR)).

Svipað orðafar er kunnugt í fornu máli:

Egils saga: er það mitt hugboð að eigi líði langt áður fundi ykkra Eiríks konungs muni saman bera (ÍF II, 198);
Breta sögur: hann vissi gjörst sjálfur að eigi mundi langt líða áður en hver mundi annarra hans frænda þykja betur til fallinn ríki að hafa (Hsb 246 (1302-1310)).

Elstu dæmi um nútímamyndina (leið á löngu) eru frá miðri 19. öld en engar beinar samsvaranir eru kunnar í fornu máli. Reyndar er vandséð hvernig á þgf.-myndinni löngu getur staðið, vera má að merkingin ‘á löngum tíma’ liggi að baki.

Jón G. Friðjónsson, 23.9.2017

Lesa grein í málfarsbanka

fram
[Sjómennsku- og vélfræðiorð]
[enska] forward

fram ao
[Læknisfræði]
samheiti ennisstefnu-, framstefnu-
[skilgreining] Í átt að fremri hluta (framfleti) eða enni.
[enska] frontad

fram ao. ‘áfram, í ákveðna átt frá tilteknum stað; upp, inn: f. dalinn; út: f. að sjó; einnig um liðinn og ókominn tíma’; sbr. fær., nno., sæ. og d. máll. fram, d. frem (s.m.), fe. fram, from, ne. from, gotn. fram ‘frá, burt’, fhþ. fram ‘lengra, frá,…’. Líkl. upphafl. (t-laust) hvk. af lo. framur; < *frama-, sbr. úmbr. promom ao. ‘fyrst, fremst’. Sjá framur. Af fram eru mynduð önnur ao. eins og framan og frammi, so. frama(st) (sbr. frami) og mst.- og hst.myndir eins og framar og fremur (sbr. gotn. framis), framast og fremst. Sjá frá, framur, fremja, frómur og frum-.