fyrir fannst í 6 gagnasöfnum

fyrir gerðu þetta fyrir hann!; vertu ekki fyrir (honum)!; hann kemur vel fyrir

fyrir atviksorð/atviksliður

áður en e-ð tiltekið gerist

það var slæmt að hún fékk flensu því hún er veikburða fyrir


Fara í orðabók

fyrir forsetning

um fyrirstöðu eða hindrun, e-ð sem hylur

færðu bílinn, hann er fyrir mér

það eru þykkar gardínur fyrir gluggunum


Sjá 12 merkingar í orðabók

Orðið fyrir stendur yfirleitt sem forsetning, hann er fyrir mér, hann gerði þetta fyrir mig. Í eftirfarandi setningu flokkast fyrir hins vegar sem atviksorð það snjóar fyrir sunnan.

Lesa grein í málfarsbanka


Það er talið betra mál að segja fyrir stuttu, fyrir ári, fyrir þremur dögum o.s.frv. en „fyrir stuttu síðan“, „fyrir ári síðan“, „fyrir þremur dögum síðan“. Orðið síðan er óþarft í slíku samhengi.

Lesa grein í málfarsbanka


Það er talið betra mál að segja 2 – 0 fyrir mig en „2 – 0 fyrir mér“.

Lesa grein í málfarsbanka


Fs. fyrir að viðbættu þgf. vísar oft í beinni merkingu til staðar, t.d.:

þú er fyrir mér;
Það er ekki nýtt fyrir mér að strákurinn sé latur

Í óbeinni merkingu verður merkingin ‘óþága’, t.d.:

ekki blæs byrlega fyrir e-m/e-u;
illa er komið fyrir e-m;
Tekur nú allt að ganga fremur öfugt fyrir honum (m20 (Skút I, 34));
gekk það misjafnlega vel fyrir mönnum eftir þreki þeirra (f20 (ThFrHák 31));
Vertu þolinmóð hvað sem á dagana kann að drífa fyrir þér (ÞjóðsJÁ2 V, 22).

Fs. hjá með þgf. vísar einnig til staðar í beinni merkingu og óbeinni. Þess er því að vænta að hún keppi við fs. fyrir í þeim samböndum sem þegar var minnst á enda má sjá dæmi þess í traustum heimildum. Elstu vísbendingar um breytinguna fyrir e-m (‘óþága’) > hjá e-m (staðarmerking) má greina á 19. öld, sbr.:

Það mun hafa hlaupið á snærið fyrir þér (m19 (Þús III, 563));
En þá hljóp síðla sumars á snærið hjá Skúla (m19 (Fylgsn I, 345)).

Dæmi þar sem málnotkun er á reiki að þessu leyti eru fjölmörg, t.d.:
e-ð setur strik í reikninginn hjá e-m (fyrir e-m);
fokið er í flest skjól hjá e-m (fyrir e-m);
e-ð/allt er komið í óefni hjá e-m/(fyrir e-m);
vel/illa er ástatt fyrir e-m/hjá e-m;
það hallar/er farið að halla undan fæti hjá e-m (fyrir e-m);
það hleypur á snærið hjá e-m (fyrir e-m).

Einnig gætir annarrar breytingar í orðasamböndum af þessum toga. Til einföldunar má sýna hana með eftirfarandi hætti:

Farið er að syrta í álinn fyrir e-m > hjá e-m > fyrir e-n, t.d.:

Segi Skotar já við þeirri tillögu gæti syrt aftur í álinn fyrir forsætisráðherrann (Mbl 12.7.2014, 24);
Árið 1982 syrti í álinn fyrir Palestínumenn (Frbl 29.10.04);
Enn syrtir í álinn fyrir Þróttara (eftir tap fyrir Völsurum) (Sjónv 30.6.05);
enn syrtir í álinn fyrir heimastúlkur (Sjónv. 21.6.06);
Að líkindum blæs ekki byrlega fyrir ritin (TilGF 192 (1917));
en fæst blésu þau byrlega fyrir kaþólsku kirkjuna (s19 (ÓlÓlÞjóð 202)).

Elsta dæmi um breytinguna fyrir e-m > fyrir e-n í tilvikum á borð við framantalin dæmi er frá síðari hluta 19. aldar. Breytinguna má trúlega rekja til sambanda eins og: e-ð er gott/ vont fyrir e-n; staðan er 1-0 fyrir mig/Eyjamenn. Um þessa breytingu má taka undir með karlinum sem sagði: Ekki er það vakurt þótt riðið sé.

Jón G. Friðjónsson, 2015

Lesa grein í málfarsbanka


Andstæðan fyrir + þf. [tími] eftir + þf. er algeng frá elstu heimildum, t.d.:

fyrir Krist – eftir Krist;
fyrir jólin – eftir jólin;
fyrir fréttir – eftir fréttir;
fyrir messuna – eftir messuna;
fyrir hrunið – eftir hrunið o.s.frv.

Í síðari alda máli vísar andstæðan á eftir [staður, hreyfing] á undan hins vegar til hreyfingar í röð:

strákurinn hljóp á eftir pabba sínum;
stelpan hljóp á undan mömmu sinni.

Í nútímamáli gætir þess nokkuð að fs. á eftir og á undan séu notaðar til að vísa til tíma, t.d.:

strax á eftir fréttum er Kastljós;
á eftir hinum ískalda vetri kemur brennandi sumar.

Breyting þessi er að mörgu leyti auðskilin. Í fyrsta lagi vísa ao. á eftir og á undan til tíma, t.d.:

farðu á undan ég kem á eftir;
Ég skal gera það á eftir [‘eftir’] sem þú gerir á undan [‘fyrir’].

Í öðru lagi sýna allgömul dæmi að fs. undan > á undan, sem upphaflega vísaði til staðar, getur einnig vísað til tíma:

Veikindi gera ekki boð á undan sér.

Í þriðja lagi virðist munurinn á tíma og stað/rúmi oft umframur, t.d.:

strax á eftir fréttum [staður, rúm];
strax eftir fréttir [tími].

Dæmi af þessum toga eru þó ólík að því leyti að þau hljóma misvel í eyrum (þess sem þetta ritar). Sem dæmi um hæpin dæmi má nefna:

á eftir þurrknum [þ.e. eftir þurrkinn] komu vatnsflóð;
á eftir mér [þ.e. ‘eftir mig’] kemur syndaflóðið;
boðið verður upp á kaffi á eftir messunni [þ.e. ‘eftir messuna’];
á eftir logninu [þ.e. ‘eftir lognið’] kemur stormur;
Á eftir fyrri konunni [þ.e. ‘eftir fyrri konu sína’] gekk hann að eiga aðra konu.

Jón G. Friðjónsson, 3.10.2015

Lesa grein í málfarsbanka


Orðasambandið fram og aftur með vísun til stefnu er algengt í fornu máli, t.d.:

Þórir gekk eftir skipinu fram og aftur (ÓH 391 (1250–1300)); (Hkr II, 252);
Þá var hlaupið til austrar bæði fram [á skipinu] og aftur (Sturl I, 127).

Það er kunnugt í ýmsum afbrigðum, t.d.:

ganga aftur og fram um eyna (ÓTOdd 135);
hann kleif aftur og fram um bjargið (ÍF VII, 242);
fór hann nú aðra leið aftur en áður hafði hann fram farið (Mar 575);
gekk þar aftur og fram um gólfið (m16 (Reyk II, 18));
stökk upp fyrir hann fram og aftur (m16 (Reyk II, 297)).

Hin forna merking helst fram á 19. öld, t.d.:

þannig að eitt [skip] gengi í hverjum mánuði á sumrum fram og aftur milli Íslands og Kaupmannahafnar (Rvp II, 39 (1848)).

Orðasambandið fram og til baka er notað í mjög svipaðri merkingu og fram og aftur. Það á rætur sínar í dönsku og er elsta dæmi um það frá 17. öld:

heldur fór hann hingað og þangað, fram og til baka, leitandi alls staðar tilefnis (f17 (PangPost h, Vv (OHR))), sbr. einnig:

fylgd á hann ætíð skilið fram og til baka (m18 (ÆvÞPét 309));
flytja sitt eigið fram og til baka (f18 (Jarðab VI, 239)).

Sá sem þetta ritar telur að hið danskættaða orðasamband fram og til baka hafi nánast alveg gengið af orðasambandinu fram og aftur dauðu í merkingunni ‘á áfangastað og af; báðar leiðir’ og finnst ugglaust sumum engin eftirsjá að því. Atviksorðið aftur lifir hins vegar góðu lífi í öðrum samböndum, t.d.:

hverfa/snúa aftur og aftur til fortíðar; og eitt er að ganga aftur (afturganga) en annað að ganga til baka.

Enn fremur er merking orðasambandanna ganga fram og ganga aftur skýr, sbr. eftirfarandi dæmi:

þar sem menn kaupast við að lögum þá skal aftur ganga oftalt [‘oftalið’] en fram vantalt þar til sem þeir hafast réttar tölur við (Alþ III, 150 (1598)).

Og margir munu muna eftir vangaveltum Þórbergs Þórðarsonar um hina ‘sögulegu’ setningu sem ‘flæktist’ upp í huga hans:

Hann gekk aftur fyrir konunginn, þ.e. (1) ganga aftur [‘öðru sinni’] fyrir konunginn eða (2) ganga aftur fyrir [‘aftur fyrir bakið á k.’] konunginn.

Reyndar var Þórbergur að velta því fyrir sér hvort rita skyldi aftur fyrir í einu orði eða tveimur [Nokkur orð um skynsamlega réttritun (1941). Birt í Ritgerðir II, 87]. Grein Þórbergs er stórskemmtileg aflestrar en við blasir að efnið snýst fremur um merkingu en rithátt (setningafræði).

Auðvelt er að finna fjölmargar hliðstæður við dæmi Þórbergs og þá er það jafnan svo að önnur túlkunin er nærtækari en hin, t.d.:

1a. Hann gekk aftur fyrir kónginn
1b. (?)Hann gekk aftur fyrir kónginn
2a. (?)Hann gekk aftur fyrir húsið
2b. Hann gekk aftur fyrir húsið

Eg hygg að túlkun 1a (‘öðru sinni’) sé mun eðlilegri en skilningur 1b (‘á bak e-m’) en þessu er öfugt farið hvað varðar dæmi 2a og 2b. Það er tiltölulega auðvelt að skýra þennan mun eins og undirstrikanir gefa til kynna að viðbættum valhömlum en reynsla mín sem kennara hefur fært mér heim sanninn um það að einfaldast sé að benda á merkingarmun dæmanna, höfða til málkenndar manna.

Rétt og skylt er að geta að dæmi þar sem tveir kostir koma til greina eru auðfundin, t.d.:

3a. Hann settist upp í rúminu
3b. Hann settist upp í rúmið

Dæmi sem þessi (3a–b) eru til þess fallin að staðfesta mikilvægi merkingar og eru að breyttu breytanda af sama toga og dæmi (1a–b) og (2a–b).

Jón G. Friðjónsson, 18.3.2017

Lesa grein í málfarsbanka


Í fjölmörgum föstum orðasamböndum er talsvert á reiki hvort notaður er fs.-liðurinn fyrir e-m eða hjá e-m, t.d.:

Það blæs ekki byrlega fyrir/(hjá) henni/liðinu
allt er komið í óefni fyrir/(hjá) manninum
það slær í baksegl(in) fyrir/hjá e-m

Í samböndum sem þessum er fs. fyrir eldri og upprunalegri en fs. hjá og í beinni merkingu vísar hún til staðar ‘hvar; gagnvart’ en óbeinni til ‘þágu/óþágu’. Þar sem fs. hjá vísar einnig til staðar er breytingin fyrir e-m > hjá e-m í slíkum samböndum auðskilin. Elstu dæmi um hana munu vera frá 19. öld:

Það mun hafa hlaupið á snærið fyrir þér (m19 (Þús III, 563));
En þá hljóp síðla sumars á snærið hjá Skúla (s19 (Fylgsn I, 345));
Það kom babb í bátinn hjá skólanum í vetur (Son 159 (1848));
Þarna kom þó dálítið babb í bátinn fyrir henni, stássrófunni þeirri (m20 (Dal I, 177)).

Eins og áður gat er málnotkun nokkuð á reiki í orðasamböndum af þessu toga, t.d. (miðað er við málkennd þess sem þetta ritar og raunveruleg (en ótilgreind) dæmi):

e-ð/allt fer í hrærigraut hjá e-m (fyrir e-m);
e-ð setur strik í reikninginn hjá e-m (fyrir e-m);
e-ð dregst fyrir e-m/hjá e-m;
e-u er svo varið fyrir e-m (hjá e-m);
e-u er svo háttað hjá e-m (fyrir e-m);                                                           
farið er að syrta í álinn hjá e-m (fyrir e-m);
fokið er í flest skjól fyrir e-m (hjá e-m);
vel/illa/þannig er ástatt  / stendur á fyrir e-m/hjá e-m;
það hallar/er farið að halla undan fæti hjá e-m (fyrir e-m);
það hleypur á snærið hjá e-m (fyrir e-m).

Hér hlýtur málkennd og málvenja að ráða för en gagnlegt væri að hafa aðgang að traustum dæmum um notkun orðasambanda af þessum toga. Það er að vísu ekkert áhlaupaverk að safna slíkum dæmum og taka saman yfirlit yfir þau en ætti þó að vera gerlegt á tækni- og tölvuöld.

Í allmörgum dæmum af þessum toga er hefðin svo sterk að þar virðist ekkert svigrúm, sbr. eftirfarandi dæmi þar sem einungis fs. fyrir kemur til greina:

e-ð er (ekki) nýtt fyrir e-m;
illa er komið fyrir e-m.

Í fyrra rifjaði ég upp Dalalíf mér til ánægju og yndisauka og þar rakst ég á mörg dæmi af þessum toga, m.a. eftirfarandi þar sem ég gæti vel notað fs. hjá:

vel byrjaði búskapurinn fyrir þeim (m20 (Dal II, 90));
Hvað skyldi það svo hafa verið sem slettist upp á fyrir þeim? (m20 (Dal II, 157));
Þetta lítur bara vel út fyrir þér (m20 (Dal II, 165)).

Í nútímamáli gætir þess nokkuð að í stað fs.-liðarins fyrir/hjá e-m komi fyrir e-n, t.d. það syrtir í álinn fyrir mér > ... fyrir mig, t.d.:

Segi Skotar já við þeirri tillögu gæti syrt aftur í álinn fyrir forsætisráðherrann (12.7.2014); 
Árið 1982 syrti í álinn fyrir Palestínumenn (29.10.04);
Enn syrtir í álinn fyrir Þróttara (eftir tap fyrir Völsurum) (30.6.05);
enn syrtir í álinn fyrir heimastúlkur (21.6.06);
Það blés svo sannarlega ekki vel fyrir íslenska liðið fyrstu 15 mínútur leiksins (2011).

Breytingin fyrir e-m > hjá e-m er skiljanleg enda virðist hún samræmast málkerfinu en breytingin fyrir/hjá e-m > fyrir e-n er annar eðlis, mér virðist hún í sumum tilvikum brjóta í bág við merkingarkerfi tungunnar. Mér er þó skylt að geta þess að dæmi sem þessi eru ekki ný af nálinni, sbr.:

en fæst blésu þau [mörg veðrin í loftinu] byrlega fyrir kaþólsku kirkjuna (s19 (ÓlÓlÞjóð 202));
Að líkindum blæs ekki byrlega fyrir ritin sem þú hafðir heim með þér (TilGF 192 (1917)).

Hér skiptir vafalaust máli hvort fsl. vísar til persónu (það blæs ekki byrlega fyrir mér/hjá mér) eða dauðra hluta (það blæs ekki byrlega fyrir tímaritinu (tímaritið)).

Til gamans og fróðleiks tefli eg fram eftirfarandi dæmum:

Þegar Móabskonungur sá að árásin var harðari en svo að hann gæti staðist hana (2007);
En er Móabskonungur sá að hann mundi fara halloka í orustunni (2. Kon 3, 26 (1981));
En er Móabs-konungur sá að hann mundi fara halloka í orustunni (1912);
En er Móabskonúngur sá að honum veitti orustan erfitt (Lundúnabiblía (1866));
En er Móabskonúngur sá að stríðið var honum erfitt (Reykjavíkurbiblía (1859));
En er Móabs kóngur sá að stríðið var honum erfitt (Viðeyjarbiblía (1841));
En sem Moabitea kongur sá að stríðið var honum of öflugt (1813; 1747);
Og Moabs konungur sá að stríðið var honum of sterkt (Steinsbiblía (1728));
En sem Moabiter kongur sá að stríðið var honum of öflugt (Þorlálsbiblía (1644)); [orðrétt þýðing]
En sem Moabiter kongur sá að í óefni var komið fyrir honum (2. Kon 3, 26 (GÞ)); [málrétt þýðing]
Da aber der Moabiter könig sah, das im der streit zu starck war (Luth (1545)).

Jón G. Friðjónsson, 17.6.2017

Lesa grein í málfarsbanka

Fyrir
[Hugbúnaðarþýðingar]
samheiti Fyrir framan
[enska] Before

for-
[Bílorð]
samheiti fyrir
[enska] Pre-

1 fyrir fs. (ao.) ‘handa, vegna; áður,…’; sbr. fær. fyri, nno. fyre, sæ. före og för; líkl. myndað af fyr (1) (< *furī) með mst.-viðsk. -ir (< *-er-), sbr. eftir og yfir (1). Sk. gotn. faura, fe. og fsax. for, fhþ. fora og furi, gr. pará og perí, lat. per o.s.frv. Sjá for- (3), fyr (1) og fyrr.


2 fyrir- forsk. kemur fyrir í ýmsum orðum, ýmist sem staðgengill forsk. for- (3) (s.þ.) eða að eftirsett fs. (með so.) hefur skipt um sæti í sögnunum sjálfum eða komist inn í nafnyrði sem af þeim eru leidd, sbr. skipa fyrir: fyrirskipa, ætlast fyrir: fyrirætlan (sumar so. sem höfðu upphafl. *fur- forsk. fengu eftirsett fyrir í staðinn, t.d. *fur-gangan (< *fra-gangan) > gangast fyrir, sbr. fyrirgengilegur og forgengilegur. Loks hefur svo fyrir- stundum komið í stað forsk. for- í erl. to., t.d. fyrirdjarfa s.s. fordjarfa ‘spilla’.