gagarr fannst í 2 gagnasöfnum

No. uppnám (hk.) merkir í beinni merkingu ‘upptaka (eigna)’ og er það algengt í lagamáli en einnig kunnugt úr skákmáli. Í Þorgils sögu skarða segir t.d.:

Sá atburður varð þar að þá skildi á [‘greindi á; deildu’] um tafl Þorgils Böðvarsson og Sám Magnússon, frænda Gissurar. Vildi Sámur bera aftur riddara [‘leika til baka, taka upp riddaraleik’] er hann hafði teflt í uppnám [‘leikið ofan í (á valdaðan reit þannig að hann mátti drepa)’] en Þorgils lét því ekki ná [‘leyfði það ekki’]. Mæltust þeir þá við heldur stuttlega [‘í styttingi’]. Þá lagði til Markús Marðarson að aftur skyldi bera riddarann, „og látið ykkur eigi á skilja um tafl“. Þorgils sagðist eigi fyrir hans orð mundu gera og svarfaði taflinu [‘velti því um, sópaði því saman’] og lét í punginn og stóð upp og laust við eyra Sámi svo að blæddi ... (Sturl II, 105).

Í elsta skáktímariti okkar, Í uppnámi. Íslenskt skákrit. I-IV. 1901, bls. 62, er vísað í Sturlungu (tefla í uppnám) og auk þess er nefnt orðasambandið vera í uppnámi.

Í nútímamáli mun beina merkingin vera afar sjaldgæf en orðið er kunnugt í ýmsum föstum orðasamböndum í merkingunni ‘glundroði, ruglingur, ringulreið, óreiða’, t.d.:

málið er í (algjöru) uppnámi eftir að fregnir bárust um ólöglegt samráð aðila;
Æðarvarp í miklu uppnámi vegna kuldanna (Mbl 24.5.06);
en tekur svo stjórnina þegar öllu er teflt í uppnám (m20 (GHagRit II, xxvii));
að þú hafir viljað hleypa öllu í uppnám með þvaðri og lygi (m19 (MJochLeik 36));
alþýða dregst þá í flokka á sama hátt og að síðustu lendir allt í uppnámi ef ekki verður í tíma úr ráðið (NF I, 70 (1841));
í Berlínarborg var ... allt í uppnámi (Rvp II, 148 (1850));
Kóngurinn og Aman sátu og drukku en borgin Susan var í uppnámi (Est 3, 15 (1841)).

Í nútímamáli virðist merkingin ‘æsingur’ einnig vera algeng með vísun til manna, t.d.:

Nautn hans fólst í því að setja hana út af laginu, helst að koma henni í uppnám;
talaðu varlega, annars gætu menn komist í uppnám.

Lo. uppnæmur er myndað af no. uppnám enda er bein merking þess ‘sem taka má (sem bætur)’, t.d.:
                       
en gjörði skipið uppnæmt (Klp VII, 48 (1824));
Og hver sem ekki kæmi ... þeirra eignir skyldu uppnæmar verða (Esra 10, 8 (GÞ)).

Beina merkingin mun sjaldséð í nútímamáli en óbeina merkingin (‘vera ekki viðkvæmur fyrir e-u; kippa sér ekki upp við e-ð’) er hins vegar algeng:

og mun ekki hafa orðið uppnæmur út af smámunum (m20 (Skút I, 334));
urðu ekki uppnæmir fyrir píslarvættislegum helgisvip hins gráhærða, aldraða Hellnaprests (SvKr72, 72);
þóktist ekki uppnæmur fyrir hverju einu (m19 (ÞjóðsJÁ I, 200));
Alladín varð nú ekki uppnæmur við það og heimtaði frest (m19 (Þús III, 316)).

Athyglisvert er að notkun fs. með lo. uppnæmur er býsna fjölbreytileg en vafalaust er að fs. fyrir í merkingunni ‘gagnvart’ er upprunaleg, sbr. :

eru við fyrir engum manni uppnæmir [‘enginn getur sigrað okkur’] hér fyrir vestan hafið ef við erum báðir á einu ráði (ÍF XXXIV, 67);
Sýnist mér sem við munum eigi uppnæmir fyrir einum höfðingja ef við erum báðir einu ráði (SturlK I, 310 (1350-1370));
sér hann að ærin [yfrin (Hkr I, 323)] nauðsyn mun til vera að gera þar ráð fyrir að þeir verði eigi uppnæmir [upptækir (Hkr I, 323)] fyrir konungi (Fris 145 (1300-1325));
Ekki eru vér uppnæmir þótt nokkur sé liðsmunur (ÍF II, 234 (1330-1370));
Það skulu þér fyrir víst vita að ekki em eg einn uppnæmur fyrir yður öllum (Stj 414 (1300-1325)).

****

Lo. geggjaður er nokkuð margbrotið að merkingu. Til einföldunar skal gert ráð fyrir að merking þess sé ferns konar:

1. ‘úr lagi genginn’ (1760 (OHR));
2. ‘frábrugðinn; sturlaður’: hlýtur að vera eitthvað geggjaður eða frábrugðinn því sem manni er eðlilegt að vera (m19 (Fjöln VII, 86 (OHR)));
3. ‘galinn, brjálaður’: geggjaður á sönsum (Ldsyrd VI, 376 (1852) (OHR));
4. ‘brjálæðislegur, stórkostlegur’: kynnast geggjuðum slóðum (s20 (OHR)).

Uppruni orðsins er óljós, líklega skylt gaga ‘spotta’ og í fornmáli gagarr ‘hundur’, líkl. ‘sá sem geltir’ (HalldHalld). Sjá nánar undir geggjast hjá Ásgeiri Blöndal.

Nýlega var haldinn opinn ársfundur OR (3.4.2018) og í dagblaði rakst ég á eftirfarandi bút:

Um leið og ... [NN] .... minnir á að veiturnar hafa starfað í Reykjavík í 27 kjörtímabil, varpar hann upp hugmyndum um hvernig svipur þeirra getur orðið eftir þrjú [kjörtímabil], eða árið 2030. Rafmagnsbíll í hverri tröð sem hlaðinn er við ljósastaur þess á milli, fjórar ylstrendur eða fimm, geggjuð gagnaveita og hreint vatn úr hverjum krana.

Það sem vakti athygli mína var einkum orðasambandið geggjuð gagnveita. Það á trúlega að höfða til ungs fólks og merkingin gæti verið ‘æðisleg, frábær’ en nú er svo komið fyrir mér að ég skil ekki fyllilega hvað felst í geggjaðri gagnaveitu, þrátt fyrir ævilanga lestrarþjálfun.

Jón G. Friðjónsson, 4.5.2018

Lesa grein í málfarsbanka

gagar(r), gagi k. ‘hundur’. Líkl. sk. gaga og upphafl. merk. þá e.t.v. ‘sá sem gapir eða geltir’; gagarr hefur stundum verið talið to. úr fír. gadar, gagar, en því mun fremur öfugt farið, fír. orðmyndirnar to. úr norr. Tengsl við gagga og gagl (1) (s.þ.) eru vafasöm; þau orð eru hálfgildings hljóðgervingar og óvíst hvort þau eiga nokkuð skylt við so. gaga.