gagnvart fannst í 3 gagnasöfnum

gagnvart forsetning

um tengsl/afstöðu/tillit til e-s

reglurnar eru ósanngjarnar gagnvart eldra fólki

hann kom illa fram gagnvart nemendum sínum

allir eiga að hafa sama rétt gagnvart lögum


Sjá 2 merkingar í orðabók

Forsetningin gagnvert er upphaflega hk.-mynd af lo. gagnverður. Hún er algeng í fornu máli, t.d.:

sátu þeir [Egill og Yngvar] gagnvert þeim Skalla-Grími og Þórólfi (Egils saga 31.k);
bað hann sitja gagnvert sér í öndvegi (Egils saga, 44.k.);
En er Glúmur kom gagnvert búð þeirri er Einar átti (Víga-Glúms saga 27.k.);
en Björn sat gagnvert Sæmundi á annan bekk í öndvegi (Sturl I, 280).

Breytingin gagnvert > gagnvart er forn:

því að tungl verður á þeirri stundu miðri gagnvart sólu er það er óskert (f14 (Alfr II, 77));
... situr rétt frammi gagnvart fyrir honum (Æv 210 (1500)).

Myndin gagnvart er einhöfð í síðari alda máli, t.d.:

hann mun búa gagnvart sínum bræðrum (1. Mós 16, 12 (GÞ));
gjöra þeir gagnvart vindi eina holu (m17 (JÓlInd 289));
gagnvart kastalans porthliði (m17 (JÓlInd 301));
Farið í það kauptún, sem gagnvart yður er (f18 (Víd 7));
Og Filistear fylktu liði gagnvart Ísrael (m19 (1. Sam 4, 2 (Við)));
en er hún er komin gagnvart dyrum, snýr Þórarinn eftir henni (JThSk II, 148);
Lágálfur gekk að ljóra einum gagnvart því, er bóndi sat (m19 (ÞjóðsJÁ1 I, 252)).

Í tilgreindum dæmum öllum virðist merking fs. gagnvert, gagnvart vera bein, þ.e. ‘andspænis; á móti’ en í síðari alda máli hefur merkingin breyst. Það er afar lærdómsríkt að velta slíkum merkingarbreytingum fyrir sér, t.d.:

vera afbrýðisamur gagnvart e-m [‘andspænis e-m’ > í garð e-s/út í e-n]; framkoma hans gagnvart mér [‘andspænis mér’ > ‘við mig’] er til skammar; enda kom ég fram sem sannur riddari gagnvart henni [‘andspænis henni’ > ‘frammi fyrir henni’] (GGRit II, 207);
vera varnarlaus gagnvart rógi/ásökunum [‘andspænis’ > ‘fyrir’];
allir æðri sem lægri [skyldu] vera jafnir gagnvart [‘á móti’ > ‘fyrir’] lögunum (s19 (ÓlÓlÞjóð 275));
vera á verði gagnvart/fyrir e-m/e-u;
vera ábyrgur gagnvart/fyrir e-m/e-u;
vera kærulaus gagnvart [‘varðandi’] smithættu.

Jón G. Friðjónsson, 9.5.2015

Lesa grein í málfarsbanka