glannalega fannst í 5 gagnasöfnum

glannalega

glannalegur -leg; -legt STIGB -ri, -astur

glannalega atviksorð/atviksliður

með glannalegum hætti, án þess að skeyta um hættur, ógætilega

hún ekur mjög glannalega

hann talaði glannalega um þetta viðkvæma málefni


Fara í orðabók

glannalegur lýsingarorð

óvarkár, glæfralegur

vera glannalegur í tali

vera ógætinn í orðum

djarfur og hættulegur akstur

glannalegur akstur

vera ógætinn í orðum

djarfur og hættulegur akstur


Fara í orðabók

Fyrri hluti lo. geigvænlegur [geig·væn·leg·ur] er myndaður af no. geig·ur (kk.) ‘ótti’ og von (kvk.). Bein merking þess er því ‘sem vænta má hættu af’, sbr. Finnboga sögu ramma:

Finnboga þótti lítilmannlegt að synja honum [um viðtöku] en leist maðurinn ekki geigvænlegur þó að hann lygi (ÍF XIV, 331).

Óbein merking í nútímamáli verður naumast skýrt afmörkuð (‘uggvænlegur, skelfilegur, hræðilegur’) enda mismunandi eftir samhengi, t.d.:

geigvænlegur atburður/hiti/vandi; geigvænleg tíðindi; geigvænlegur fyrirboði/spádómur; geigvænlegur halli á fjárlögum; geigvænlegur matarskortur; geigvænlegur uppblástur;
hér er kominn upp sjúkdómur á hrossum og hann geigvænlegur (Send VII, 54 (1805));
Mál reis hér á annað knéð en hvarf aftur og þótti mörgum það geigvænlegt (Send VII, 109 (1812)).                                                

Þess eru fjölmörg dæmi að merking lo. sem notuð eru til að kveða nánar á um e-ð (stærð, lögun, stig, umfang o.s.frv.) breytist í aldanna rás, oft þannig að bein merking bliknar eða verður ógagnsæ. Nú skal litið á þrjú orð (hriki, glanni, hrotti) og orðfræðileg merking þeirra borin saman við merkingu samsvarandi lo. með viðskeytinu -legur
             
Í Ormsbók Snorra-Eddu (SnEW 104 (1350)) vísa öll orðin þrjú, hriki (kk.) [‘langur sláni’], glanni (kk.) [‘fljótfær, fífldjarfur maður; galgopi; †fótskakkur maður’] og hrotti [‘stór og klunnalega vaxinn maður; rana- eða ruddamenni’] til manns.

Elsta dæmi um hrika úr síðari alda máli er frá fyrri hluta 19. aldar (OHR) og elsta dæmi um lo. hrikalegur er frá síðari hluta 18. aldar:

hin [lömbin] eru stærri og hrikalegri (s18 (MKetSauð 3 (OHR)),

sbr. einnig:

hafa þær [sögurnar] sem hrikalegastar (s19 (PMEnd 10));
Jónas var svoli, hroðalegur og hrikalegur (s19 (BGröndRit IV, 320));
Var þessi maður heldur hryssingslegur og hrikalegur ásýndum (m19 (Þús III, 431)).

Þegar tengslin við orðfræðilega merkingu rofna breytist notkunin, t.d.:

hrikalega gaman, hrikalega lengi, hrikalega leiðinlegur, hrikaleg spenna; hrikaleg frásögn/ferð o.s.frv.
 

No. glanni með vísun til manns er kunnugt úr fornum rímum (Mágusrímum) (Rs II, 593) auk dæmisins úr Ormsbók Snorra-Eddu. Lo. glannalegur [‘ofsakátur; gáleysislegur’] er kunnugt frá síðari hluta 16. aldar (JÞorkDigtn 354), sbr. einnig:

glannaleg hótun (Fjallk 1894, 118);
glannalegur í orðum (MJochLeik 24) og
ég á son, sem ekki skortir vitsmuni, en hann er ungur, glannalegur og nærgöngull (m19 (Þús II, 5)).

Merkingartengsl á milli no. glanni og lo. glannalegur virðast óljós.

No. hrotti (kk.) í merkingunni ‘sverð’ kemur víða fyrir í fornum rímum en sú merking kemur vart til álita í þessu samhengi. Merkingin ‘stór og klunnalega vaxinn maður; ruddamenni’ er algeng í fornum rímum, t.d.:

*Hverr veit nema hrottinn sá / höggvi kónginn sjálfan (Rs I, 30), sbr. einnig (Rs II, 598);
slægur hrotti (Rs II 471),

sbr. enn fremur:

*Hrotti og Móði (15 (ÓlDavÞul 108)).

Elsta dæmi um lo. hrottalegur ‘ruddalegur, þjösnalegur’ er frá upphafi síðustu aldar:

framkoma þessi ... frá hendi skipstjóra ... svo hrottaleg og illgirnisleg (Bjarki 1900, 202 (OHR)).

Og þar virðast merkingartengslin blasa við. Dæmi úr nútímamáli virðast hins vegar benda til þess að merking stofnorðsins hafi bliknað:

hrottalega kámuð mynd; hrottalega gaman;
e-ð er hrottalega fyndið (DV 23.7.2005, 29);
tún hrottalega kalin (Búnr 1.1.1966, 209);
hrottaleg hefnigirni (Vísir 25.4.1979, 15),

sbr. einnig:

e-ð hleypur hrottalega með e-n í gönur (Réttur 1929, 107);
hrottaleg tröllasaga (Fjallk 1899, 162);
hrottaleg staðhæfing (Lögb 6.5. 1893, 4).

Fjölmörg önnur orð í nútímamáli hafa nánast glatað eigin merkingu en hafa þess í stað fengið það sem kalla má hlutverksmerkingu eða ákvæðismerkingu. Þá mætti t.d. telja óðs manns æði að reyna að gera grein fyrir merkingu orðanna æðislegur eða æðislega, nú er flest orðið algjört æði, t.d.:

æðisleg bók; æðislega gaman; æðislegur leikari; æðisleg leikföng; æðisleg nótt; æðisleg spenna; æðislegt tilboð; æðisleg tilfinning; æðisleg þjónusta ...

Svo virðist sem hver kynslóð komi sér upp eigin orðaforða af þessum toga. Sem dæmi má nefna að orðin ógeðslegur og ógeðslega í herðandi merkingu virðast í tísku meðal ungs fólks, t.d.:

ógeðslega gaman; ógeðslega flott; ógeðslega spennandi ...

Um þetta má taka undir með manninum ónefnda: Ekki er allt vakurt þótt riðið sé!

Jón G. Friðjónsson, 2016

Lesa grein í málfarsbanka

glanni k. ‘fljótfær og fífldjarfur maður; galgopi; †fótskakkur maður’; glannalegur l. ‘ofsakátur; gáleysislegur’; glannaskapur k. ‘ofsakæti; fífldirfska, fljótfærni’. Orð þessi eru eflaust sk. glana og glenna kv., s. (s.þ.); sbr. einnig nno. glenne kv. ‘rjóður, autt svæði í skógi, heiðríkjurifa í lofti’, glenna s. ‘renna (af stað)’, fær. glenna ‘góna og glotta’, sæ. máll. glänna ‘skógarrjóður, skýjarof’. Upphafl. merk. orðstofnsins var ‘blika, gljá’ og þaðan æxluðust merkingartilbrigði eins og ‘vera háll, renna, blína, glensa, glotta’. Ekki er víst um upphafl. mynd orðsins glanni; < *glan-n-an-, sbr. glan, eða *glanþan-, sbr. mhþ. glander ‘bjartur’, glinden (st.)s. ‘renna til’, sæ. máll. glindra ‘skína’. Sjá glana, glenna og gletta.