ofan fannst í 5 gagnasöfnum

ofan þú skalt taka ofan

ofan atviksorð/forsetning
sem atviksorð

um hreyfingu niður

hann fór upp á loft og er ekki enn kominn ofan


Sjá 2 merkingar í orðabók

ofan forsetning

ofan við eitthvað, fyrir ofan eitthvað

húsið stendur á litlum hól ofan götunnar


Fara í orðabók

Orðasambandið undan og ofan er algengt í nútímamáli í merking­unni ‘í stórum dráttum; hið helsta’, t.d.:

Hann ­sagði mér und­an og ofan af ferð­um ­sínum;
Eg veit ekki nema ofan af og undan af því, sem þar gerist (Send II, 293 (1850)).

Uppruni þess og vísun er ekki ljós. Frá 19. öld eru kunn dæmin:

aug­lýsa ekki nema undan og ofan af (f19 (MvT II, 37 (OHR)));
Eg hefi skrifað nafna mínum ofan og undan af um brunana á Brekku (Send II, 209 (1844));
Eg ætlaði að segja þér undan og ofan af búskapnum (Send III, 112 (1847));
En hún sagði undan og ofan af af [svo] því (m19 (ÞjóðsJÁ I, 122)),

sbr. einnig:

Eg hefi ekki enn þá sagt Sigurði neitt nema ofan af um þetta meðmælisbréf (JSigBrN 98 (1868)).

Í tilvitnuðum dæmum merkir orðasambandið undan og ofan af ‘það helsta af e-u’ og eigin­leg merking virðist vera ‘segja ­frá því sem er neðst (kemur undan) og efst (kemur ofan af) (en greina frá engu þar á milli))’ og kann sú mynd að vera upprunaleg. Annað af­brigði litlu yngra er:

svara undan og ofan á um e-ð (Frjett 30 (1883)).

Hér er merkingin ‘færast (ýmist) undan því að svara (beint)’ þar sem lík­ing­in er hin sama en túlkuð með öðrum hætti enda er merkingin önnur. Loks er kunnugt afbrigðið skrifa e-m undir og ofan á (Safn XIII, 125 (1835)) í merkingunni ‘(skrifa) aðeins það helsta’. Í nútímamáli virð­ist lík­ingin samsvara best elstu dæmunum, þ.e. vísa til þess að ekki er sagt frá öllu heldur að­eins því sem efst er (kemur ofan af e-u) og neðst (kemur undan e-u) – það sem er á milli er undanskilið.

Eiður Guðnason greinir frá því að upp úr 1960 hafi kunningi sinn ekið leigubíl í aukavinnu og hafi hann sagt sér að leigubílstjórar kölluðu akstur síðla nætur og undir morgun að ‘keyra undan og ofan af’. Þetta er ný merking til vitnis um góða málkennd og mikið skopskyn.

Jón G. Friðjónsson, 2016

Lesa grein í málfarsbanka


Orðasambandið upp og ofan vísar í beinni merkingu til hreyfingar í gagnstæðar áttir og er bein merking algeng í fornu máli og síðari alda máli, t.d.:

en járn­hurð fyrir dyrunum og mátti þar draga upp og ofan (Flat I, 181);
Hann fór bæði upp og ofan með ánni (Flat I, 558);
komast hvorki upp né ofan [bjarg] (Hkr I, 333);
fer upp og ofan að [‘eftir’] ánni (Þiðr I, 139);
eins og skip eða bátur væri settur upp eða ofan (m19 (ÞjóðsJÁ I, 3)).

Í Egils sögu er því lýst með eftirminni­leg­um hætti að fall Þórólfs fékk mjög á Egil og þar segir:

þá hleypti hann annarri brúninni ofan á kinnina en annarri upp í hárrætur (ÍF II, 143; EgA 86));
en ýmsum hleypti hann brúnunum ofan eða upp (ÍF II, 144; EgA 86).

Yfirfærð merking er nokkuð margþætt, t.d.:

e-ð gengur upp og ofan (hjá e-m/(fyrir e-m)) ‘misjafnlega, upp og niður’; fólk upp og ofan [‘almennt; að jafnaði’] (Vsv 352);
það er upp og ofan [‘misjafnt’] hvort hann kemur á réttum tíma;
þær fela ekki í sér ósk um fjölgun á fólki svona upp og ofan (m19 (NF XIX, 96 (OHR)));
skoðunarmennirnir álitu hvert qvintal [10 fjórðungar] í farminum upp og ofan 1 rbd. 24 sk. minna vert (Rvp I, 102 (1847)).

****
Kann það og oft að berast [‘bera að höndum; verða’] ef tveir eru hafðir fyrir einni sök að hinn meiri hlýtur að svara og gjalda þess er báðir gera til (AlexFJ 122 (1280)).

Jón G. Friðjónsson, 2016

Lesa grein í málfarsbanka


Í fornu máli var algengt að ao. kæmi á eftir fs. og er sú orðaröð upphafleg, sbr.:

þola nú eigi hverja skömm á aðra ofan (ÍF VIII, 91);
leggja synd á synd ofan (f13 (Íslhóm 30r5));
á það ofan (Fris 512);
þá er þeir riðu á þig ofan (ÍF XII, 136);
á þetta ofan allt (Fris 512).

Í nútímamáli sér hinnar fornu orðaraðar stað í fjölmörgum föstum orðasamböndum, t.d.: fá áfall á áfall ofan og hlusta á rugl á rugl ofan.

Orðasambandið þar á ofan ‘því til viðbótar’ (< á það ofan) er kunnugt í fornu máli, t.d.:

En Ólafur gaf bónda digran gullhring og þar á ofan það er enn var meira vert (ÓTOdd 51);
og setur þar á ofan höfuð Víðgrips á stöngina (FN I, 380);
gefa mun eg fé til ... og þar á ofan velja yður gjafir (Flat IV, 184);
Nú á það ofan sem áður gerðist meðal okkar lét hann (Fris 542);
En á þetta ofan allt gerði hann (Fris 542);
og á það ofan gerumst eg vottur Guðs (f13 (Íslhóm 51r10)).

Það er algengt í síðari alda máli og vísar þá jafnan til e-s neikvæðs (‘til viðbótar e-u neikvæðu’), t.d.:

Hann er frekur og þar á ofan ósvífinn;
Snorra hafi þótt hlutur Jóns ærið þungur, þótt hann væri eigi þar á ofan gerður lögræningi frænda sinna (m20 (ÁP47, 165));
Hann hafði, eins og menn segja, aldrei stigið í vitið, og þar á ofan skemmt sig á því að neyta svefnlyfja (m19 (Þús III, 153)).

Elstu dæmi úr síðari alda máli um orðasambandið á það ofan eru frá miðri 17. öld:

Þar á ofan kom ei Perlan frá Írlandi heim til Kaupinhafn (JÓlInd 383) og
þar á ofan tóku þeir með sér ferska mjólk (JÓlInd 122).

***

Norska 13. aldar ritið Konungs skuggsjá er fyrir margra hluta sakir merkilegt rit, ekki aðeins að efni til heldur einnig málfarslega. Það er sett fram í formi spurninga og svara, sonur spyr en faðir svarar. Þar er að finna mjög margvíslegar ráðleggingar, m.a. eftirfarandi:

Enn eru þeir hlutir er þú skalt svo varast sem fjanda sjálfan, það er drykkja og tafl, portkonur og þrætur og kast um viðurlögur [‘það sem lagt er undir (við borð)’] því að af þessum grundvöllum timbrast hinar mestu ógiftur [‘á þessum grunni rísa hinar mestu hörmungar (ógæfur)’] og fáir einir munu lengi lastalausir lifa eða glæpa- er eigi varast þessa hluti (Kgs 5 (130) (1260)).

Af klausunni má sjá að þau hafa verið mörg vítin að varast á 13. öld eins og í nútímanum.

Jón G. Friðjónsson, 25.3.2017

Lesa grein í málfarsbanka

ofan ao. ‘niður’; sbr. fær. oman, nno. ovan, sæ. ovan, d. oven-, fe. ufan, fhþ. obana ‘ofan frá, uppi’, sbr. nhþ. oben; myndað með -an(a)-viðsk. af of (3) (s.þ.).