undan fannst í 6 gagnasöfnum

undan undan vindi; langt á undan; víkja sér undan

undan atviksorð/atviksliður

um nálægð/fjarlægð í tíma eða rúmi

þetta er mikil ráðgáta en ég er viss um að lausnin er skammt undan

sem betur fer voru önnur skip ekki langt undan og komu strax til hjálpar


Fara í orðabók

undan forsetning/atviksorð

um hreyfingu frá e-m stað (sem er undir e-u)

hún skreið undan borðinu

hjólið losnaði undan bílnum


Sjá 4 merkingar í orðabók

Rétt er að segja það hallar undan fæti fyrir eða hjá einhverjum.

Lesa grein í málfarsbanka


Orðasambandið undan og ofan er algengt í nútímamáli í merking­unni ‘í stórum dráttum; hið helsta’, t.d.:

Hann ­sagði mér und­an og ofan af ferð­um ­sínum;
Eg veit ekki nema ofan af og undan af því, sem þar gerist (Send II, 293 (1850)).

Uppruni þess og vísun er ekki ljós. Frá 19. öld eru kunn dæmin:

aug­lýsa ekki nema undan og ofan af (f19 (MvT II, 37 (OHR)));
Eg hefi skrifað nafna mínum ofan og undan af um brunana á Brekku (Send II, 209 (1844));
Eg ætlaði að segja þér undan og ofan af búskapnum (Send III, 112 (1847));
En hún sagði undan og ofan af af [svo] því (m19 (ÞjóðsJÁ I, 122)),

sbr. einnig:

Eg hefi ekki enn þá sagt Sigurði neitt nema ofan af um þetta meðmælisbréf (JSigBrN 98 (1868)).

Í tilvitnuðum dæmum merkir orðasambandið undan og ofan af ‘það helsta af e-u’ og eigin­leg merking virðist vera ‘segja ­frá því sem er neðst (kemur undan) og efst (kemur ofan af) (en greina frá engu þar á milli))’ og kann sú mynd að vera upprunaleg. Annað af­brigði litlu yngra er:

svara undan og ofan á um e-ð (Frjett 30 (1883)).

Hér er merkingin ‘færast (ýmist) undan því að svara (beint)’ þar sem lík­ing­in er hin sama en túlkuð með öðrum hætti enda er merkingin önnur. Loks er kunnugt afbrigðið skrifa e-m undir og ofan á (Safn XIII, 125 (1835)) í merkingunni ‘(skrifa) aðeins það helsta’. Í nútímamáli virð­ist lík­ingin samsvara best elstu dæmunum, þ.e. vísa til þess að ekki er sagt frá öllu heldur að­eins því sem efst er (kemur ofan af e-u) og neðst (kemur undan e-u) – það sem er á milli er undanskilið.

Eiður Guðnason greinir frá því að upp úr 1960 hafi kunningi sinn ekið leigubíl í aukavinnu og hafi hann sagt sér að leigubílstjórar kölluðu akstur síðla nætur og undir morgun að ‘keyra undan og ofan af’. Þetta er ný merking til vitnis um góða málkennd og mikið skopskyn.

Jón G. Friðjónsson, 2016

Lesa grein í málfarsbanka


Eitt er að ganga á eftir manni [í röð] en annað að ganga eftir e-m (með grasið í skónum) [‘dekstra e-n til að gera e-ð’], sbr. gera e-ð með eftirgangsmunum, og með sama hætti er tvennt ólíkt annars vegar að fylgja á eftir e-m [í röð] og hins vegar að fylgja e-u [góðum árangri] eftir. Þessum og hliðstæðum orðasamböndum er stundum ruglað saman í nútímamáli, t.d.: 
           
A. (Merkingarmunur: eftir og á eftir).
niðurstaðan er sú að ganga skýrar á eftir [þ.e. eftir] því hvaða einstaklingar eiga í hlut (29.3.2017);
Hlynur gekk nokkrum sinnum á eftir [þ.e. eftir] þessum greiðslum en án árangurs (18.1.2013);
þegar ég þarf að fara þá niðurlægjandi leið að ganga á eftir [þ.e. eftir] miskabótunum (22.7.2011);
Ganga hart á eftir [þ.e. eftir] skýringum foreldra [þegar bólusetningu er sleppt] (2.7.2013);
Ég hef gengið á eftir [þ.e. eftir] því að boðað yrði til fundar (25.9.2016);
Þá skoraði D. G. eftir að hafa fylgt á eftir [þ.e. eftir] aukaspyrnu sem hafnaði [hafði hafnað] í þverslánni (11.8.2016);
væntanlega mun Gylfi sjá á eftir [þ.e. eftir ‘sakna’] félaga sínum (8.1.2015); 
af því má ráða, að höggi þessu hefur verið fylgt á eftir [þ.e. eftir] með allmiklum krafti (f20 (HÞor 20));
En Konráð fylgdi fast á eftir [þ.e. eftir] að þetta yrði framgengt (m19 (PMMið 38)),

sbr.:
hlaupa eftir sögusögnum (1849) [‘gína við’]
hlaupa á eftir stráknum [röð].

Þær breytingar sem liggja hér að baki eru býsna gamlar og allflóknar og í raun eru þær hvergi nærri um garð gengnar eins og t.d. má sjá af því að í ýmsum samböndum er á reiki hvort notað er eftir eða á eftir, t.d.:
           
B. (Enginn merkingarmunur: eftir og á eftir).
reka eftir/(á eftir) e-m:
og rak hann þó mikið eftir öðrum (f20 (ThFrHák 118));
Ekki rak hann þó eftir mér við vinnuna (m20 (JóhBirk 96));
Rak hann miskunnarlaust eftir þeim sem síðbúnir urðu (m20 (JóhBirk 101));
Þegar hungrið rekur eftir er von að þeir taki best hverju því sem fyrst gefur þeim von um að geta stillt sult sinn (Norðf I, 64 (1848));
það var svo rekið eftir mér þar sem ég var (s18 (SPétLeik 69));
kannski koma M. hafi rekið á eftir honum (Vikan 22.12.1977, 29);
Eg var beðinn ... að reka á eftir honum [hrútnum] (Vorið 1.6.1952, 75).

draga e-ð eftir/á eftir sér;
ýta eftir/á eftir e-u;
raka á eftir e-m (m19 (ÞjóðsJÁ2 IV, 292);
raka eftir e-m (fm20 (EyjGMinn I, 94).

Til að gera langa sögu stutta má segja að allt hafi þetta hafist með breytingunni eftir > á eftir en elsta dæmi um hana er frá 14. öld:

kastar vindi á eftir þeim (m14 (Bisk I, 461)),

sbr. einkum þar sem á eftir stendur sem atviksorð:

Hávarður gengur á eftir og biður Helga eigi hlaupa undan [‘á undan’] sér (s15 (Gísl29, 61)).

Sú breyting er naumast um garð gengin fyrr en á 18. öld, þá einkum í andstæðunni á eftir – á undan, þ.e.:

fara eftir e-m [röð] fara fyrir e-m >
fara á eftir e-m [röð] fara á undan e-m

Gamla kerfið og nýja skarast, þau eru notuð samhliða um langt skeið, sbr. eftirfarandi dæmi:
           
[Gamla kerfið]: Hvar fjandinn ríður fyrir, fylgir ei gott eftir (s17 (GÓl 1653)).
[Nýja kerfið]: ríður komumaður svo á undan en kaupamaður á eftir (m19 (ÞjóðsJÁ II, 188)).

Önnur afleiðing breytingarinnar eftir > á eftir er sú að stundum er ruglað saman tímamerkingu (eftir mig) og staðarmerkingu (á eftir mér), sbr. eftirfarandi dæmi:

á eftir logninu [þ.e. ‘eftir lognið’] kemur stormur sem nær hámarki, lýkur og skellur síðan á aftur (f21 (FRafn 189));
Lognið á eftir storminum [þ.e. eftir storminn] (Frbl 8.10.12);
Allt sem gerist á eftir þessu [þ.e. eftir þetta] er bara bónus (Mbl 23.5.12);
strax á eftir fréttum [þ.e. ‘eftir fréttir’] (14.9.2015);
ef einhver kemur heim til mín á eftir messunni [þ.e. eftir messuna] (Kirkjur 1.1.1940, 393);
Á eftir messunni [þ.e. eftir messuna] var að jafnaði nokkurs konar mannfundur (Hlín 1.1.1942, 75).

Þessi óvissa um merkingu á rætur sínar í breytingum á kerfinu og í sumum tilvikum virðist hvor tveggja vísunin (tími eða staður) koma til greina, sbr.:

en sá sem kemur eftir mig (Matt 3, 11 (1981/2007));
en sá er mér máttkari sem kemur á eftir mér (Matt 3, 11 (1912));
en sá sem eftir mig kemur er mér svo miklu meiri (1866);
sá eftir mig kemur er mér svo miklu meiri (Matt 3, 11 (Við));
en sá eftir mig kemur er mér sterkari (Matt 3, 11 (OG/GÞ));
en sá er mér sterkri sem eftir mig man koma (Matt 3, 11 (Pst 885 (1350))).

Eins og sjá má er fsl. eftir mig notaður í öllum útgáfum Biblíunnar sem vísað er til hér að ofan nema í útgáfunni frá 1912, þar stendur á eftir mér. Hver er munurinn? Hann er sá að eftir mig vísar til tíma en á eftir mér til staðar (í röð), og getur hvort tveggja átt við í ofangreindu dæmi að breyttu breytanda. Svo vill til að þegar á 13. öld (í Páls sögu postula og víðar) má sjá hatta fyrir óvissu af þessum toga, sbr.:

hann sem kemur eftir mig (Jóh 1, 27 (1912; 1981; 2007));
en sá mun eftir [‘á eftir’] mér koma er eg em ei verður að leysa skúa af honum (Jóh 1, 27 (Pst 218 (1225-1250))).

Til gamans má nefna að á Tune-steininum norska er frumnorræn rúnarista frá því um 400 en á hana er rist (sbr. Wolfgang Krause (1966)) (endurritun ónákvæm):

ek WiwaR after Woduride ... [Fnorr. Ek Vír eftir Óðríði [‘hinum óða reiðmanni’] ... worahto [‘orta, gerði’]]

Orðmyndin Woduride er þgf.et. og kemur það nokkuð á óvart, fremur hefði mátt búast við þolfalli með vísun til tíma en þágufalli með vísun til staðar/raðar, þ.e.:

Rúnameistarinn risti eftir hann fremur en Rúnameistarinn risti eftir honum.

Getur það verið hér sé sama óvissa á ferð (eftir mig vs. á eftir mér) og vikið var að hér að ofan? 

Jón G. Friðjónsson, 1.7.2017

Lesa grein í málfarsbanka

undan
[Sjómennsku- og vélfræðiorð]
samheiti á undan
[enska] prior to

1 undan fs. (ao.) ‘neðan frá’; sbr. fær., nno. og sæ. undan, fhþ. untana, nhþ. unten. Sjá und (2) og undir (1).


2 undan fs. (ao.) ‘burt, frá’. Tæpast s.o. og undan (1), en hefur blandast því; sbr. fær., nno. og sæ. undan ‘burt’ og fhþ. undenān; sbr. og gotn. unþa- og fe. ūð-. Sjá und- (3), undingi, unningi og uns.