upp fannst í 6 gagnasöfnum

upp upp og ofan; búa sig upp á; fara upp í/úr

upp atviksorð/atviksliður

um stefnu að stað sem er ofar en viðmiðunarstaður

lánaðu mér stiga svo að ég komist upp

þorirðu upp í turninn?


Fara í orðabók

Atviksorðið upp er notað um hreyfingu: fara upp á heiði. Atviksorðið uppi er notað um dvöl á stað: vera uppi á heiði.

Lesa grein í málfarsbanka


Athuga ber að tala fremur um norður og suður í heiminum en „upp“ eða „uppi“ og „niður“ eða „niðri“. Sagt er: suður til Afríku, suður í Afríku, norður til Kanada, norður í Kanada (ekki „niður til Afríku“, „niðri í Afríku“, „upp til Kanada“, „uppi í Kanada“).

Lesa grein í málfarsbanka


Talað er um að hafa uppi á einhverjum en ekki „upp á einhverjum“.

Lesa grein í málfarsbanka


Í orða­sambandinu hafa upp/uppi á e-m og ýmsum hliðstæðum samböndum mun styttri myndin upp vera upphaflegri en lengri myndin uppi. Upprunalega vísa slík sam­­bönd til hreyf­ing­ar eins og glöggt má sjá af orðasambandinu spyrja [sbr. spor] e-n upp ‘rekja slóð e-s’ > ‘grennslast eftir; spyrja eftir’ þar sem styttri myndin er notuð:

fara eftir þeim með hunda, er þeir voru vanir að spyrja þá upp, er undan komust (Flat II, 500),

sbr. einnig samsvörun í þ. aufspüren.

Í elstu dæmum yfirfærðrar merk­­­ingar er styttri myndin einn­ig notuð, t.d.:

fengu hann eigi upp spurðan [‘kom­ust ekki að því hvar hann var’] (Sturl II, 343);
gat hann upp spurt og með sér haft Sæmund hinn fróða (Bisk I, 227);
að hann fengi upp spurt (Klm 535);
dreifa liði sínu að þeir verði þá seinna upp spurðir en áður (AlexFJ 107); spyrja e-n upp (s18 (JSt 76)),

sbr. einnig:

þefa e-ð upp/uppi og elta e-ð/e-n upp/uppi.

Styttri myndin (upp á + þgf.) á sér ýmsar hlið­stæður í nútímamáli, t.d.:

brjóta/brydda/fitja upp á e-u;
geta upp á e-u; stinga upp á e-u.

Hún er einhöfð út 19. öld, t.d.:

það hefst líklega aftur upp á honum (s19 (JMSkin 177));
Loksins er ég þá búinn að hafa upp á þér (s19 (JMSkin 308)).

Í nútímamáli hef­ur skiln­ingur manna á mörgum slíkum orða­­sam­böndum breyst þannig að þau virðast nú vísa fremur til kyrr­stöðu eða ástands og þá með lengri mynd­inni uppi en síður til hreyfingar með styttri mynd­inni upp. Í orða­bók Blöndals er þó að finna allar mynd­irnar:

spyrja upp; spyrja uppi; leita e-ð upp og leita e-ð uppi.

Afbrigðin með uppi munu al­geng­ust í nútímamáli.

Hlið­stæð breyt­ing er algeng í ýms­um sam­bönd­um sem hafa sögn­­ina halda sem stofn­­orð, t.d.:

halda upp kristni (Hkr I, 167);
halda upp blót­veisl­um (Hkr I, 167);
halda upp gjöldum (Hkr I, 232).

Þau sam­svara halda e-u uppi í síðari alda máli, sbr. enn fremur orða­tiltækið halda e-u á loft sem algengt er í mynd­inni halda e-u á lofti (f19).

Svip­uðu máli gegnir um af­brigð­in láta e-ð [koma] í ljós og láta e-ð [vera] í ljósi en hvor tveggja afbrigðin eru forn (Mergur málsins), sbr. enn fremur orðasambandið láta ekkert [koma] upp (Pst 40 (1350-1375)) og láta ekkert [vera] uppi (Pst 40 (1375-1400)).


Jón G. Friðjónsson, 2016

Lesa grein í málfarsbanka


Orðasambandið upp og ofan vísar í beinni merkingu til hreyfingar í gagnstæðar áttir og er bein merking algeng í fornu máli og síðari alda máli, t.d.:

en járn­hurð fyrir dyrunum og mátti þar draga upp og ofan (Flat I, 181);
Hann fór bæði upp og ofan með ánni (Flat I, 558);
komast hvorki upp né ofan [bjarg] (Hkr I, 333);
fer upp og ofan að [‘eftir’] ánni (Þiðr I, 139);
eins og skip eða bátur væri settur upp eða ofan (m19 (ÞjóðsJÁ I, 3)).

Í Egils sögu er því lýst með eftirminni­leg­um hætti að fall Þórólfs fékk mjög á Egil og þar segir:

þá hleypti hann annarri brúninni ofan á kinnina en annarri upp í hárrætur (ÍF II, 143; EgA 86));
en ýmsum hleypti hann brúnunum ofan eða upp (ÍF II, 144; EgA 86).

Yfirfærð merking er nokkuð margþætt, t.d.:

e-ð gengur upp og ofan (hjá e-m/(fyrir e-m)) ‘misjafnlega, upp og niður’; fólk upp og ofan [‘almennt; að jafnaði’] (Vsv 352);
það er upp og ofan [‘misjafnt’] hvort hann kemur á réttum tíma;
þær fela ekki í sér ósk um fjölgun á fólki svona upp og ofan (m19 (NF XIX, 96 (OHR)));
skoðunarmennirnir álitu hvert qvintal [10 fjórðungar] í farminum upp og ofan 1 rbd. 24 sk. minna vert (Rvp I, 102 (1847)).

****
Kann það og oft að berast [‘bera að höndum; verða’] ef tveir eru hafðir fyrir einni sök að hinn meiri hlýtur að svara og gjalda þess er báðir gera til (AlexFJ 122 (1280)).

Jón G. Friðjónsson, 2016

Lesa grein í málfarsbanka


Orðasambandið upp og niður er nokkuð margbrotið að merkingu en í grófum dráttum má gera ráð fyrir að grunnmerkingin vísi til ‘stefnu (hreyfingar) í tvær andstæðar áttir’, t.d.:

Ganga/hlaupa upp og niður tröppurnar.

Afleidd eða óbein merking er margþætt en einkum tvenns konar:

1. e-ð gengur upp og niður ‘e-ð gengur misjafnlega, upp og ofan’;
En gengur ekki líka efnahagur einstaklinga og þjóða upp og niður? (SigNorLíf 63);
þýðingarnar eru upp og niður ‘misjafnar að gæðum’;
Leigumálinn ... hefur ... gengið upp og niður (Fylgsn II, 248);
að kúgildafjöldi hafi gengið upp og niður (f18 (Jarðab VI, 254));
Ríki þessa heims og ríkisstjórn kemur frá einni ætt til annarrar, og gengur upp og niður (f17 (SpangenbCat Gg, Vr (OHR))).

2. Kennararnir í minni tíð voru svona upp og niður [‘misjafnir’] (f20 (Safn I, 73));
amtmaður vissi ei neitt hvað upp var eða niður [‘botnaði alls ekkert í málinu; vissi hvorki haus né sporð’] í málinu (ÁMPriv 9 (1709)).

Orðasambandið er algengt í beinni merkingu í fornu máli, t.d.:

komast hvorki upp né niður (ÓTOdd 149);
Gerðist þá þröng mikil á brúnni bæði upp og niður (Flat III, 300 (1387-1395)),

sbr. einnig (Gylfag 16.k.):

Íkorni sá er Ratatoskur heitir, renn upp og niður eftir askinum og ber öfundarorð milli arnarins og Níðhöggs (SnE 24 (1300-1350)).

***

Í Þorláks sögu hinni elstu segir frá því að Þorkell Geirason, er reyndur var að réttyrði, var spurður að því hver skörungur Þorlákur væri eða hve mikill orðamaður hann væri. Þá sagði Þorkell:

meir kostgæfir Þorlákur ... að gera allt sem best en mæla sem flest (m14 (Bisk I, 99)).

Jón G. Friðjónsson, 2016

Lesa grein í málfarsbanka


Eitt er standa upp í stafni (ÍF II, 101) en annað að standa uppi í stafni. Í fyrra tilvikinu stendur ao. upp (‘uppréttur’) með so. standa en í síðara dæminu myndar uppi eina heild með fs. í. Upphaflega voru staðar- eða stefnuatviksorð reyndar oft eftirsett og sér hinnar fornu orðaraðar stað í fjölmörgum föstum orðasamböndum, t.d.:

e-ð liggur í augum uppi;
e-ð springur í loft upp;
leika af fingrum fram;
deyja fyrir aldur fram;
lifa um efni fram.

Oftast er skýrt hvort ao. stendur með so. eða er hluti forsetningar og er það merking sem sker úr (auk þess sem það kemur í sumum tilvikum fram með umorðunum), t.d.:

fitja upp á e-u (sokk/samtali) andstætt: fitja upp á nefið;
standa/rísa upp á afturfótunum andstætt: standa uppi á stól og
brjóta upp á e-u (samtali) andstætt: brjóta upp á blaðsíðu.

Í sumum tilvikum er á reiki hvort notað er upp á e-u eða uppi á e-u, t.d.:

hafa upp á e-u > (hafa uppi á e-u);
hver höndin er upp á móti annarri  > (hver höndin er uppi á móti annarri).

Orðatiltækið standa upp í /(standa uppi í) hárinu á e-m er skemmtilegt að því leyti að við blasir að það felur í sér merkingarmun eftir því hvort upp stendur með sögninni (standa upp) eða uppi er hluti forsetningar (standa uppi í). Elstu dæmi um það eru með styttri myndinni:

hann stóð upp í hárinu á rektor [‘stóð uppréttur/bísperrtur frammi fyrir’] (m19 (BGrönd Rit IV, 295));
Ég sé að þið bæði standið upp í hárinu á mér (m19 (Þús I, 188)).

Lengri myndin er yngri, einnig frá 19. öld:

En nú þykist hver sá bestur, sem getur mest staðið uppi í hárinu á yfirboðurum sínum (JsJsRit I, 154),

sbr. einnig:

Í þessum efnum sæti það raunar illa á mér að standa uppi í hárinu á Sigurði A. Magnússyni (s20 (HHMold 243)).

Telja má að lengri myndin hafi öðlast nokkra fótfestu í málinu en hún gefur naumast skynsamlega merkingu (uppi í hárinu). Hana má e.t.v. rekja til ofvöndunar, mönnum finnst að sögninni standa eigi að fylgja ao. sem vísi til kyrrstöðu – þrátt fyrir egg Kólumbusar sem stóð upp á endann.

Þegar í fornu máli má sjá breytingar á kerfinu, einkum í þá veru að ao. mynda eina heild með fs., t.d.:

grafa lík við garð út (Grgk I, 7);
grafa lík út við garð (GrgSt 6);
*grafa lík úti við garð.

Hér vísar út til stefnu (bendivísun). Lengri myndun (úti við) hefur verið notuð sem ao. frá fornu máli og fram í nútímamál (sitja úti við) en forsetningin úti við e-ð er nýmæli frá síðari hluta 19. aldar:

Þá liggur landið úti við sjóndeildarhringinn sem blá mön (f20 (JTRit I, 197));
Þarna úti við sjóinn var eg í sex ár (s19 (JsJsRit II, 87)) og
Heldur eignaðist eg lítið þarna úti við sjóinn (s19 (JsJsRit II, 87)).

Það styðst því ekki við málvenju né íslenska málhefð að grafa lík barns úti við garð enda eru engar heimildir fyrir slíkri málbeitingu né heldur getur talist venjulegt að tala um rigningu úti við ströndina.

Ýmis forsetningasambönd með við eru að því leyti erfið viðureignar að fs. fylgir ýmist styttri (stefna) eða lengri (kyrrstaða) mynd atviksorðs. Til að gefa nokkra mynd af þessu skulu sýnd örfá dæmi um upp við e-ð annars vegar og uppi við e-ð hins vegar. Styttri myndin er forn og er hún mun algengari en lengri myndin:

og láta hann sitja upp við vegginn (ÍF XII, 251);
hafði hann staðið upp við gaflaðið (ÍF XII, 343);
það [seglið] er heflað upp við rána (ÍF XII, 219);
Hann sat upp við hamarinn og var sár mjög (ÍF VII, 184);
Maður stóð upp við siglu (FN II, 233);
færið síðan seglið upp við tréð (Mork 259) = færið lítt seglið upp við tréð (Flat IV, 165).

Lengri myndin uppi við e-ð er einnig forn, t.d.:

Síðan lét Skalla-Grímur gera bæ uppi við fjallið (ÍF II, 46);
En það spurðist þó síðan að Steinar Sjónason hafði þann sama dag setið uppi við Einkunnir við tólfta mann (ÍF II, 290);
Og í því hjó Grettir til Hjarranda og kom á höndina uppi við öxl svo að af tók (ÍF VII, 81);
aðra nótt var hann uppi við Elfi (Fris 445; Eirsp 527);                            
konungur hekk næst uppi við limar (Fris 13 (1300-1325)) og
höfðu þing allir saman uppi við Fosskirkju og réðu það ráðum sínum (Sv 182 (1300)).

Ef grannt er skoðað má greina merkingarmun á dæmum með upp við [stefna ➚] og uppi við [dvöl, kyrrstaða ●].

Sá sem hefur gaman af dæmum sem þessum hlýtur að sakna þess sárlega að Íslendingar skuli ekki eiga sögulega orðabók þar sem þeim væru gerð verðug skil.

Jón G. Friðjónsson, 2016

Lesa grein í málfarsbanka


Beyging sagnorðsins ljósta er tvenns konar. Annars vegar getur beygingin verið sterk: ljósta, laust, lustum, lostið (fornt mál o.áfr.), og hins vegar getur hún verið veik: ljósta, ljóstaði, ljóstað (s16). Frá miðri 18. öld (Nucl 349, 413) er kunn veika sögnin ljóstra, ljóstraði, ljóstrað, í merkingunni ‘ljósta’. Allar þrjár myndirnar eru notaðar í svipaðri merkingu og með svipuðum hætti í sumum samböndum, t.d. með ao. upp. Það er því ómaksins vert að sýna nokkur dæmi ef það mætti verða til þess að skýra myndina:

ljósta [sb.] e-u upp:
En þó reyndu vondar tungur óvina þinna á eftir að ljósta því upp að eg hefði farið að ráðum hins vonda ... (s19 (Draupn III, 42));
hún gæti lostið upp laglegri sögu um mig (Austri 1893 59 (OHR));
Skal eg þá ljósta þeim kvitt upp að Gunnar muni eigi hafa svo búið við þig (ÍF XII, 174).

ljósta [vb.] e-u upp ‘gera e-ð uppskátt’:
skæðar tungur ljóstuðu því upp (m19 (ÞjóðsJÁ I, 642));
það mundi baka okkur óvild svo sem hefðum við ljóstað upp lognum óhróðri (m19 (Fjöln IV 1, 5));
Þegar einhver ljóstar upp óhróðri um náungann, þá taka menn í þann strenginn (f18 (Víd 569));
orðið fæðir af sér grunsemina, grunsemin ljóstar upp ryktinu, ryktið kveikir almannaróm (f18 (Sjö 109));
en upp tíndar og ljóstaðar allar aðrar sakir (Morð 65 (1595)).

ljóstra e-u upp:
ljóstra upp leyndarmáli;
þá gerði hann hinum þann grikk að ljóstra þessu upp (f20 (HÞor 264));
ljóstra upp um e-n/e-ð;
[hann] átti til að ljóstra upp um efni sem voru á fárra vitorði (SAMJak 171).

Það vekur grunsemdir að hér að ofan eru elstu dæmi sem tilgreind eru um ljóstra upp frá 20. öld. Orðasambandið hlýtur að vera eldra, sbr.: að uppljóstra honum ei (s18 (JStÆv 292)) og uppljóstran (kvk.) (Alþ IX, 342 (1705)). 

***

Fs. til og frá vísa oft til hreyfingar eða stefnu eins og margar aðrar forsetningar (á – af; í – úr) en í íslensku vísa þær sérstaklega til sérnafna (til Akureyrar, frá Akureyri) og persóna (Bréf frá vini til vinar). Notkun fs. frá er að þessu leyti nokkuð frábrugðin notkun samsvarandi forsetninga í ýmsum grannmála okkar, t.d. dönsku, ensku, norsku og sænsku. Sem dæmi má taka að from í ensku (d. fra) samsvarar hvergi nærri alltaf frá í íslensku. Af þessu leiðir að fs. frá sækir nokkuð á fyrir áhrif frá ensku. Slík dæmi eru auðfundin, t.d.:

brak frá [‘úr’] flugvélinni [e. wreckage from] dreifðist víða;
friðhelgi þeirra [ríkja] frá [‘fyrir’] afskiptum annarra;
geti átt rétt á alþjóðlegri vernd frá [‘fyrir’] ofríki eigin ríkisvalds;
verja viðkomandi samfélög frá [e. protect from] áhrifum kapítalisma og frjálsra viðskipta; Júgóslavía skar sig að þessu leyti gersamlega frá [e. separate from] öðrum ríkjum;
Sólarvörn sem verndar fatnað frá gulum blettum (6.5.2017);
við getum lært ýmislegt frá [e. learn sth. from sbd.] nágrannaþjóðum okkar (18.3.17).

Ekki er ég sérfróður um ensku en þó þykist ég sjá hatta fyrir enskunni. Til öryggis skoðaði ég enskar samsvaranir í: Oxford Dictionary of Current Idiomatic English. Volume 1: Verbs with Prepositions and Particles. 8. útg 1985.

Eftirfarandi dæmi er trúlega af sama meiði:

egg frá [‘úr’] lausagönguhænum.

Mér finnist eðlilegt að tala um egg frá tilteknu fyrirtæki (t.d. frá Brúneggjum) en fráleitt að tala um egg frá hænu.

Jón G. Friðjónsson, 5.8.2017

Lesa grein í málfarsbanka

upp
[Málmiðnaður]
samheiti upp á við
[enska] upward,
[sænska] uppåt,
[þýska] aufwärts

upp
[Læknisfræði]
samheiti efri
[skýring] Vísar upp eða í það sem er ofar.
[gríska] ana-,
[enska] ana-

upp
[Læknisfræði]
samheiti uppstefnu-
[skilgreining] Í stefnu upp, upp á við.
[enska] superiad

1 upp ao. ‘í átt frá jörðu eða láréttum fleti’; sbr. fær., nno., nsæ. upp, nd. op, fd. upp, fe. up(p), fsax. upp, ne. up (s.m.), sbr. og gotn. iup (< *eup-) og fhþ. ūf, nhþ. auf (< *ūp) (hljsk.). Germ. *up(p)-, *ūp-, *eup-, sk. *uf- í of (3) og yfir (1). Af sama toga er ao. uppi, sbr. fær. uppi, nno. og sæ. uppe, d. oppe, fe. uppe, fsax. uppa (< *uppai, endingin e.t.v. ættuð úr gömlu staðarfalli no.). Sjá of (3) og yfir (1), op, opinn og eypska, yppa og yppta.


2 upp- forliður ýmissa sams., sbr. Uppin kv. fno. bæjarheiti, sbr. nno. Oppen (Ullensaker) < *Upp-vin; -konaður l. ‘visinn, vesaldarlegur’, sbr. konast (kvonast) upp (s.þ.); -rænn l. ‘léttur í máli’, sbr. -rænn (1--2); -skár l., einkum í hvk. uppskátt ‘opinbert, kunnugt’, sjá -skár í opinskár, hreggskár og herskár, líkl. < *skawa- sk. skoða og skyggn; -svólnaður l. (18. öld, JGrv.) ‘bólginn’, sbr. svolna, svólna, sk. svella (1); -varta s. (17. öld) ‘þjóna, ganga um beina’, to. úr d. opvarte, sbr. þ. aufwarten, viðliðurinn sk. vörður (1). Af uppvarta kemur fyrir víxlmyndin upparta (s.m.) og uffarta, uffvarta (s.þ.); -vægur l. (18. öld) ‘æstur’, sk. vega s. ‘lyfta’, sbr. (físl.) uppvægður (s.m.).