utan fannst í 4 gagnasöfnum

utan utan lands og innan; fara utan; læra textann utan að

utan atviksorð/atviksliður

til útlanda

forsetinn flaug utan í morgun


Fara í orðabók

utan samtenging

samtenging: nema

allir starfsmenn voru viðstaddir utan fjórir

fjallvegir eru færir utan vegurinn yfir Sprengisand


Fara í orðabók

utan forsetning

fyrir utan mörk e-s sem tiltekið er

féð er allt utan girðingar

hún hefur sinnt ýmsum ritstörfum utan vinnutíma


Fara í orðabók

Forsetningin utan stýrir ávallt eignarfalli: utan svæðis, utan vallar. Þetta á ekki við þegar orðið er hluti sambandsins fyrir utan (t.d. fyrir utan gluggann).

Lesa grein í málfarsbanka


Orðasambandið fara hjá sér merkir í fornu máli ‘fara einförum/einn’, sbr. Eyrbyggja sögu:

Sýndist mönnum þann veg [‘þannig’] helst sem hann myndi leikinn [‘hafa orðið fyrir gjörningum (töfrum)’] því að hann fór hjá sér og talaði við sjálfan sig (ÍF IV, 146).

Í síðari alda máli og nútímamáli merkir orðasambandið ‘verða skrýtinn, feiminn’, sbr.:

setja þá í mestu forundran og láta þá verða svo sem hjá sér (f18 (Klím 56)).

Orðasambandið vera ekki með sjálfum sér merkir ‘vera ekki eins og maður á að sér; vera ekki með réttu ráði’ og eru kunn mörg önnur orðasambönd svipaðrar merkingar, t.d.:

Ferðamennirnir voru frá sér numdir (af hrifningu) (†‘utan líkamans’ > ‘ekki með sjálfum sér’);
voru frá sér numdir yfir máli hans (Norðf II, 104 (1849)).

Orðasambandið vera utan við sig merkir ‘vera ekki með sjálfum sér; vera annars hugar’, sbr. viðutan, lo.ób. Dæmi:

virtist hann vera allmjög utan við sig og úti á þekju (f20 (HÞor 308));
allur varð hann á sönsum fyrir utan sig og hrörlegur (s19 (Fylgsn II, 409));
tók Kristín fásinnu mikla og óeirð og var sem utan við sig (m19 (ÞjóðsJÁ I, 341));
Ég var eins og utan við mig (s18 (Kvöld I, 32)).

Svipað orðafar er algengt í fornu máli, t.d.:

En eigi að síður verður hver með sjálfum sér lengst að fara [‘hver hefur sjálfan sig lengst sem förunaut; langvinn er glíma manns við sjálfan sig’] (ÍF VI, 49);
vera við alla menn góður, þá er vel fara með sér (Íslhóm 65r13).

***

Orðasambandið kosta e-u/öllu til e-s merkir ‘reiða e-ð/allt fram sem greiðslu (fyrir e-ð), leggja e-ð/allt í kostnað; vilja e-ð/allt til vinna; leggja sig allan fram’. Rætur þess eru allgamlar, sbr. Reykjahólabók:

hún mundi vilja kosta þar peningum til (m16 (Reyk II, 15));
sagðist vita það víst að hún mundi þar öllu til kosta (m16 (Reyk II, 15)).

Orðasambandið spara ekkert til (e-s) merkir ‘horfa ekki í kostnað; láta einskis ófreistað’, t.d.:

Í málinu ... var ekkert til sparað til þess að koma upp um Jón bónda (m19 (SkGSkv 27)).

Það er algengt í fornu máli, t.d.:

eg hefi engan hlut til þess sparað að gera og mæla svo að yðvar vegur væri þá meiri en áður (ÍF II, 183);
Vill Hrútur gerast mágur þinn og kaupa dóttur þína og skal eg eigi mitt til spara (ÍF XII, 8); Síðan var stofnað til boðs á Höskuldsstöðum og ekki til sparað en ærin voru efni (m14 (ÍF V, 65)).

Frá síðari hluta 19. aldar er kunnugt afbrigðið spara engu til:

stofnað reglulegt fiskiklak ... á kostnað stjórnarinnar og engu til sparað (TBókm II, 119 (1881));
engu er til sparað að veiðin geti orðið sem mest (Ægir 1920, 28 (OHR));
Það verður engu til sparað [á popptónleikum] (Útv 16.3.06);
engu til sparað við uppeldi barna í Kína (St2 16.10.12);
eins og sést á myndbandinu verður engu til sparað (St2 15.2.12).

Þessi málnotkun er ekki í samræmi við málvenju; hér mun gæta áhrifa frá orðasambandinu kosta e-u/öllu/miklu til (e-s).

Jón G. Friðjónsson, 15.7.2017

Lesa grein í málfarsbanka

út ao. ‘(um hreyfingu) innan frá’; sbr. fær. út, nno. og nsæ. ut, d. ud (fd. ut), fsax. og fe. ūt, gotn. ut, ne. out, fhþ. ūz, nhþ. aus. Germ. *ūt < ie. *ū̆d, sbr. fi. (skrt.) ud, ut ‘upp, út’, fír. ud, od (s.m.); sbr. og gr. (h)ýsteros ‘seinni’ og fi. úttara- (s.m.) (< *ud-teros). Af sama toga er úti ao. ‘(um dvöl) utan við’, sbr. fær. úti, nno. og sæ. ute, d. ude, gotn. uta, fsax. ūta, fhþ. ūze; < *ū̆tai. Sbr. og utan, †útan ao. ‘utan frá, utan við; nema’, sbr. fær. ut(t)an, nno. og sæ. uten, d. uden, fe. ūtan(e), fsax. ūtan, gotn. utana og fhþ. ūzana; af *ūt + viðsk. *-ana einkum um hreyfingu frá stað. Sjá út- í sams., utar, ytri, ota og ýta.