vitaskuld fannst í 3 gagnasöfnum

vitaskuld atviksorð/atviksliður

að sjálfsögðu

ég gleymdi vitaskuld að fara í bankann

vitaskuld vill hann komast í þennan háskóla


Fara í orðabók

No. vitafé virðist í fyrstu komið úr norskum lögum (DI I, 659). Það er kunnugt úr síðari alda máli fram á 19. öld en mun nánast óþekkt í nútímamáli, sbr.:

Venja var í Mýrdalnum að bændur gáfu konum sínum [afla]hlut sinn á sumardaginn fyrsta og þær, sem svo voru sinnaðar, kölluðu eftir honum [hlutnum] sem vitafé, en þær máttu aftur hafa til reiðu í sumargjöf tóbakspund og brennivínspott (s18 (JSt 118)), sbr. einnig (Fjallk 22.11.1899, 199).

Grunnmerking orðsins vitafé er ‘vitað fé, augljóst fé’ sem verður síðan ‘ótvíræð eign’, sbr.:

það er allt vitafé er vottar vita (OHR (1623));
Eg meina tíund sé vitafé það enginn á að treskjast [< þreskjast; þreiskjast ‘þybbast/þráast við’] að gjalda (ÞSkBr 98 (1640));
En sekt þeirra manna sem þá héldi [góssinu] sækist sem annað vitafé (DI XI, 807 (1550)); 
Sá skal lán ábyrgjast er þiggur og koma heilu heim. En ef hann vill eigi þá skal sækja sem vitafé. En það er allt vitafé er váttar vitu [‘vottar eru að’] (NGL I, 26 (1250–1300));
það er vita fé að [‘sem’] játað er fyrir vottum (DI I, 660 (1263));
Allt það er dómur dæmir manni þá er vitafé (NGL II, 511 (1250)).

No. vitaskuld er af svipuðum toga spunnið og merkir ‘vituð (ótvíræð, föst) skuld; skuld sem þarf að greiða’, t.d.:

hafi áður sagt skiptaráðanda búsins frá þessari vitaskuld (JThBr 310 (1869));
Vér skiljum heldur ekki betur en þjóðin ætti Dönum vitaskuld að gjalda (Rvp III, 117 (1849));
staðarins vitaskuldir [skal hann ‘ráðsmaður’] útgjalda og inntaka (DI X, 676 (1541));
og var sú vitaskuld þar í garð lukt (Alþ I, 185 (1574)).

Beina merkingin er forn (þýðing úr riti Gregors páfa):

enda þyki þá verkkaupið varla sem sé gjöf heldur nær sem vitaskuld sé (f13 (Leif 12)).

Óbein merking er ‘e-ð er auðvitað; að sjálfsögðu’, t.d.:

Vitaskuld eiga prestar nú að sjá um að börn, er þeir ferma, hafi náð ákveðnu þekkingarstigi (TBókm XXII, 601 (1901));
Það er vitaskuld að fé þetta nær skammt (Frjett 1875, 22);
hitt er vitaskuld að synir voru gjarnast til konunga kosnir eftir feður sína (m19 (PMMið 33)) og
Það er vitaskuld að endar sumra orða umbreyttust dálítið í skrifinu [‘í ritun’] (m19 (Fjöln II 1, 17)).
           
Forliðurinn vita- í óbeinni merkingu verður síðan hluti af lifandi orðmyndun, t.d.:

vitameinlaus (GFrRit III, 48); vitatilgangslaus (GMMVirk II, 730); vitasaklaus (s19 (Sunnf VII, 40 (OHR))); vitatóbakslaus (s19/f20 (JJHofst 132 (OHR))); vitauppgefinn (TG72, 27),

sbr. einnig:

vitaheyrnarlaus, vitahreyfingarlaus, vitaófær, vitaónýtur, vitavonlaus og vitamál (hk.).

Um skotaskuld (e-m verður ekki skotaskuld úr e-u) er fjallað í Merg málsins.

Jón G. Friðjónsson, 18.2.2017

Lesa grein í málfarsbanka